Veiðiheimildir Færeyinga og Belga

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:53:00 (1370)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda eru veiðiheimildir Færeyinga byggðar á sérstökum samningi. Ákvarðanir eru teknar einhliða af Íslendingum að höfðu samráði við Færeyinga. Þessar ákvarðanir eru jafnan teknar í mars. Færeyingar hafa óskað eftir samráðsfundi að þessu sinni sem væntanlega mun fara fram í lok janúar.
    Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að færeysku landsstjórninni verði gerð grein fyrir því að búast megi við mjög verulegri takmörkunum á þessum veiðum og hef reyndar látið það koma fram opinberlega áður. Ég reikna því fastlega með að niðurstaðan verði sú eftir samráðsfund sem haldinn verður í lok janúar að veiðiheimildir Færeyinga verði takmarkaðar mjög verulega í kjölfar þess.
    Að því er varðar samninginn við Belga hef ég haft það í huga að við höfum staðið í viðræðum við Evrópubandalagið að undanförnu. Utanrrn. hefur talið eðlilegt að sá samningur fái að standa áfram í ljósi þeirra samninga sem við höfum átt við Evrópubandalagið.
    Nú hefur Evrópubandalagið sett okkur þá úrslitakosti að það fái fram öllum sínum samningskröfum að því er varðar tvíhliða samning sem á döfinni hefur verið um fiskveiðisamskipti til þess að við fáum að njóta ávaxta af aðalsamningnum sem mestu máli skiptir fyrir okkur.
    Hér er komin upp nokkur sérstæð samningsaðstaða og þrátt fyrir það að ég hafi fram til þessa talið eðlilegt að taka tillit til þess að við eigum nú í samningum við Evrópubandalagið þá geri ég ráð fyrir því að það geti komið til endurskoðunar ef Evrópubandalagið stillir okkur upp við vegg með þessum hætti, þannig að við nýtum ákvæði í þessum samningum sem heimilar okkur að segja þeim upp með sex mánaða fyrirvara.