Raforkuverð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:57:00 (1372)

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
     Hæstv. forseti. Ég hef lagt hér fyrir hæstv. iðnrh. fsp. Ég vil í upphafi segja það að sú spurning verður háværari með degi hverjum: Hver á íslensku raforkuauðlindina? Orkuauðlindin er einn dýrmætasti fjársjóður þessarar þjóðar þegar til framtíðar er horft. Innan 100 ára er talið að olíuauðlindir heimsins verði þurrausnar. Hér hefur það gerst að rúmlega helmingur þjóðarinnar hefur öðlast umframrétt að orkuauðlindinni. Tvö fyrirtæki selja nú raforku í heildsölu. Landsvirkjun selur raforku til Reykjavíkur, Akureyrar og Hafnarfjarðar, Rafmagnsveitna ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja og Orkubús Vestfjarða. Rafmagnsveitur ríkisins kaupa af Landsvirkjun en endurselja í heildsölu hluta til veitufyrirtækja svo sem Selfoss, Sauðárkróks, Húsavíkur, Hveragerðis, Vestmannaeyja, Eyrarbakka, Stokkseyrar, Reyðarfjarðar og fleiri.
    Vegna mikilla hækkana raforkuverðs á þessu ári, langt umfram allar vísitölur, sést betur en fyrr að veiturnar sem skipta við Landsvirkjun búa við miklu minni hækkanir. Vegna hækkana 1. júlí og 1. okt. urðu veitur sem skipta við Landsvirkjun að hækka aflgjald um 678 kr. en veitur sem skipta við Rafmagnsveiturnar um 841 kr. Heildsöluverð

Rafmagnsveitna ríkisins hækkaði sem sagt um 163 kr. á kw. umfram hækkun Landsvirkjunar. Nú er ójöfnuðinum best lýst með því að það borgar sig fyrir Selfoss, Sauðárkrók og Vestmannaeyjar að kaupa rafmagn í smásölu af Rafveitu Reykjavíkur ættu þeir þess kost heldur en að kaupa það í heildsölu af Rafmagnsveitum ríkisins. Og enn hagstæðara væri að kaupa rafmagnið norðan frá Akureyri.
    Hæstv. iðnaðar- og orkumálaráðherra, einn aðalmaður í Jafnaðarmannaflokki Íslands, minni hluti þjóðarinnar stendur höllum fæti og býr við ójöfnuð gagnvart raforkuauðlindinni. Við Sunnlendingar sem búum á barmi aðalauðlindarinnar gerum ekki sérkröfur fyrir okkur en við þolum ekki lengur óréttinn gagnvart okkur og minni hluta þjóðarinnar. Hér þarf ekki að rugla um dreifingarkostnað. Á Suðurlandi er hann minnstur. Við getum gripið til örþrifaráða. Kolaofnar og olíustöðvar eru þegar að líta dagsins ljós. Það eru örþrifaráð í landi sem er fullt af raforku að nú séu fyrirtækin að grípa til þess að flytja inn kol og olíu til að framleiða rafmagn. Þeir eru margir sem nú skoða slíkt í alvöru.
    Hefur hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn einhver áform uppi um að jafna aðstöðu manna í landinu gagnvart raforkuauðlindinni?