Súrálsverksmiðja á Íslandi

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:16:00 (1377)

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason) :
     Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér hér á þskj. 157 að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. um súrálsverksmiðju á Íslandi.
    Nú þegar framkvæmdir vegna hugsanlegs álvers virðast fjarlægari en um langt skeið, þær eru e.t.v. langt undan, a.m.k. ljóst að þær eru ekki á næsta leiti, þá finnst mér eðlilegt að spyrja hæstv. iðnrh. hvaða hugmyndir aðrar séu til athugunar í hans ráðuneyti og hjá þeim stofnunum sem vinna að hugmyndum um stóriðju eða orkufrekan iðnað.
    Hæstv. ráðherra hefur látið að því liggja að ýmislegt sé og hafi verið í skoðun þó svo aðaláherslan hafi eðlilega verið á þessum hugmyndum um væntanlegt álver. Er því forvitnilegt að vita hvað þeim málum líður. Ég spyr því í fyrsta lið fsp.:
    ,,Hvaða athuganir eða vinna hefur farið fram af hálfu iðnrn. vegna hugsanlegrar súrálsverksmiðju á Íslandi?``
    Nú er það svo að þegar fjallað er um stóriðju af þessu tagi eða af einhverju tagi þá eru staðsetningarmálin allajafnan viðkvæm og auðvitað mikilvægt umræðuefni og vandmeðfarið. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum þegar slíkar hugmyndir hafa verið uppi að það hefur leitt til átaka og mikillar umræðu víða um land af eðlilegum ástæðum því menn vilja gjarnan hafa nokkuð um það að segja hvar slíkum verksmiðjum er valinn staður. Því spyr ég í öðrum lið fsp.:
    ,,Hvaða hugmyndir eru uppi um staðsetningu slíkrar verksmiðju ef af yrði?``
    Í þriðja lið fsp. spyr ég síðan hæstv. iðnrh. hvort iðnrn. hafi athugað sérstaklega skýrslu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hf. sem unnin er af Ásgeiri Leifssyni og Baldri Líndal um súrálsverksmiðju í Þingeyjarsýslum.
    Það kemur til af því að þessi hugmynd er ekki alveg ný, mun hafa verið komin til umræðu fyrir nokkrum árum og til athugunar. Síðan hefur í Þingeyjarsýslum og á Húsavík verið unnið að öðrum hugmyndum. Um tíma var skoðuð hugmyndin um svokallaða trjákvoðuverksmiðju og þá voru uppi hugmyndir um nýtingu á annað hvort á Þeistarreykjum eða í Öxarfirði eða á hvoru tveggja svæðinu. Og þar sem hugmyndir um hugsanlega súrálsverksmiðju byggjast að verulegu leyti á gufuvinnslu --- en hér er auðvitað eins og menn vita um að ræða hráefni til álframleiðslu sem unnið er úr báxíti með gufuorku sem framleidd er venjulega með annaðhvort kolum eða olíu og auðvitað raforku en gæti hér verið framleidd hugsanlega með gufuorku beint af háhitasvæðum --- þá hafa menn velt þessu fyrir sér og sett saman skýrslu um þetta mál þar sem hugmyndir heiman frá þeim

Þingeyingum, studdar af fyrri athugunum verkfræðinga sem hafa fjallað um þetta mál, eru til umræðu. Fannst mér því eðlilegt að spyrja hæstv. iðnrh. hvort þessi mál hefðu eitthvað komið til umræðu sérstaklega í hans ráðuneyti.