Súrálsverksmiðja á Íslandi

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 12:24:00 (1379)

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason) :
     Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir mjög greinargóð og skorinorð svör við þessum spurningum mínum. Vissulega er það rétt eins og fram kom hjá honum að svona verksmiðja hlýtur að fylgja nokkuð markaðsaðstæðum á áli og er þá kannski líkt á með henni komið og hugsanlegri álverksmiðju á Íslandi að þetta er ekki mál sem er þá í brennidepli á sama tíma og álframleiðsla er það ekki.
    En það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það þyrfti að huga að nokkrum þáttum sérstaklega ef til þess kæmi að setja verksmiðju af þessu tagi á laggirnar eins og t.d. hafnaraðstöðu sem er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt og svo þessum spurningum um háhitasvæðið. Og það er kannski það sem hefur dregið athyglina að Þingeyjarsýslum og er upphafið að þeim athugunum sem farið hafa fram af hálfu norðanmanna á þessu máli, að þar er um öflug háhitasvæði að ræða sem þó eru lítt rannsökuð eða a.m.k. alls ekki nægjanlega rannsökuð til að geta svarað spurningum um það hversu stór og kraftmikil háhitasvæði þar er um að ræða.
    En það hlýtur hins vegar að vera, og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra hafi það mjög í huga ef af því yrði á næstunni að skoða þessi mál eitthvað nánar, þá væri æskilegt að verksmiðja af þessu tagi væri fremur staðsett á háhitasvæði annars staðar en hér á Reykjanesinu þar sem atvinnumöguleikar og önnur iðnaðaruppbygging hefur verið miklu meiri en úti á landsbyggðinni. Að öðru leyti ætla ég ekki að taka þá umræðu upp hér á þessu stigi í knöppum fyrirspurnatíma.
    Mig langar aðeins að láta það koma hér fram líka og kannski spyrja hæstv. ráðherra, þó það sé ekki í prentaðri fsp., hugmyndir sem hafa verið uppi í iðnrn. og hjá markaðsskrifstofu þess og Landsvirkjunar um súrálsbræðslu, og leyfi mér þá að vitna til fundar sem svæðisskrifstofa iðnaðarins á Norðurlandi stóð fyrir fyrir nokkru síðan. Þar fjallaði m.a. Andrés Svanbjörnsson, starfsmaður markaðsskrifstofu iðnrn., um þetta mál. Þar er raunar um að ræða verksmiðju af allt öðrum toga en þá sem hér var spurt um og er kannski ekki rétt að draga það inn í þessa fsp. núna, en iðnrh. hefur e.t.v. einhverjar upplýsingar um það á takteinum. Þar er haft eftir Andrési Svanbjörnssyni að einn af þeim kostum sem nú sé uppi á borði markaðsskrifstofunnar þessa stundina sé súrálsbræðsla og e.t.v. einn álitlegasti kosturinn og kominn lengst í umræðunni. Hann ræðir þar um 30.000 tonna verksmiðju sem mundi veita u.þ.b. 50 manns atvinnu. En hér er um að ræða allt annað mál en ég spurði um áðan og reyndar kemur þar fram að ekki sé um mengunarvaldandi verksmiðju að ræða sem hægt væri að setja niður hvar sem væri. Ef ráðherra hefði nokkuð um þetta mál að segja væri fróðlegt að heyra það.
    Aðeins að lokum, virðulegi forseti, þá finnst mér að það mál, sem upphaflega var spurt um, sé mál sem þurfi að halda vakandi og fylgjast vel með í tengslum við það hvernig öðrum stóriðjukostum gengur, hvernig þau mál ganga fram, og ef hugað verður, vonandi fyrr en seinna, að nýrri álverksmiðju þá sé líka hugað að hugsanlegum möguleikum súrálsverksmiðjunnar.