Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 14:46:01 (1396)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Með þessu frv. er lagt til að talsverðar breytingar verði gerðar á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Í fyrsta lagi er að því stefnt að hlutverk sjóðsins verði einfaldað verulega frá því sem gildandi lög um sjóðinn gera ráð fyrir. Tilgangur þessarar breytingar er að stuðla að raunhæfri fækkun fiskiskipa en slík fækkun er ein af forsendum þess að hægt verði að stuðla að betri afkomu í sjávarútvegi. Í öðru lagi er lagt til að allar tekjur sjóðsins af framsali aflaheimilda renni til Hafrannsóknastofnunar. Er þetta í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að láta atvinnuvegi bera í ríkari mæli en nú kostnað af því rannsóknar- og þjónustustarfi sem fram fer í þeirra þágu á vegum ríkisins og á því ekkert skylt við kröfugerð sem haldið hefur verið á lofti varðandi sérstakan auðlindaskatt á sjávarútveginn til að stunda almenna tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Svipaðar sértekjur eru í sjóðum annarra atvinnugreina eins og iðnaðarins þó að þær nái ekki sama hlutfalli heildarútgjalda eins og hér er gert ráð fyrir. Jafnframt er samfara þessu stefnt að því að hafrannsóknir verði efldar mjög verulega og hefur í því sambandi verið tekin ákvörðun um að hefja mjög umfangsmiklar fjölstofnarannsóknir á heildarsamhengi lífríkis sjávarins.
    Lög um Hagræðingarsjóð voru sett vorið 1990 og komu lögin til framkvæmda um síðustu áramót. Upphaflega var lagt fram frv. um starfsemi sjóðsins í ársbyrjun 1989 en í tengslum við afgreiðslu Alþingis á lögum um stjórn fiskveiða voru gerðar verulegar breytingar á frv. Meðal annars var nafni sjóðsins breytt úr Úreldingarsjóður fiskiskipa í Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og sjóðnum úthlutað aflaheimildum sem námu allt að 12.000 þorskígildislestum. Þessum aflaheimildum átti sjóðurinn að ráðstafa með tvennum hætti. Í fyrsta lagi skyldi sjóðurinn framselja allt að helming þessara aflaheimilda til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum sem standa höllum fæti. Í öðru lagi skyldi sjóðurinn framselja aflaheimildir sínar til einstakra fiskiskipa. Þessi tvö markmið, sem sett voru með starfsemi sjóðsins, stangast á vissan hátt á.
    Með frv. er því verið að einfalda alla starfsemi sjóðsins og beina kröftum hans að því að fækka fiskiskipum en allir ættu að geta verið sammála um mikilvægi þess við núverandi aðstæður. Þær breytingar sem gerðar voru á frv. um að heimila sjóðnum að úthluta aflaheimildum til einstakra byggðarlaga sættu mikilli gagnrýni af hálfu flestra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Með þessum breytingum var verið að varpa þeim vandamálum sem upp kunna að koma í einstökum byggðum yfir á sjávarútveginn sjálfan og rekstur hans.
    Vanda einstakra byggðarlaga á ekki að leysa með þeim hætti heldur hljóta þau vandamál að verða leyst eftir því sem hægt er af stjórnvöldum á hverjum tíma. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar kreppir að í sjávarútvegi vegna minni afla. Mun vænlegri leið til árangurs í þeirri viðleitni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins er að stjórnvöld beiti almennum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir óæskilega byggðarröskun. Það að bæta byggðarlögum tímabundið það áfall sem verður við það að fiskiskip er selt til annars byggðarlags, eins og gildandi lög um sjóðinn gera ráð fyrir, er ekki vænleg leið til árangurs í þeim efnum. Hlutverk Byggðastofnunar er að móta og samhæfa aðgerðir í þessum efnum.
    Samkvæmt ákvæði 1 til bráðabirgða við gildandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins skyldi sjóðurinn fá úthlutað allt að 8.000 þorskígildislestum á fiskveiðitímabilinu sem hófst þann 1. jan. 1991 og lauk þann 31. ágúst 1991. Með lögum nr. 13/1991, um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum, var sjútvrh. veitt heimild til að úthluta aflaheimildum sjóðsins til loðnuskipa. Fyrrum sjútvrh. nýtti þessa heimild laganna og var 8.000 þorskígildislestum deilt til einstakra loðnuskipa. Hagræðingarsjóður fékk því ekki úthlutað aflaheimildum á umræddu fiskveiðitímabili. Þessi ákvörðun um ráðstöfun heimilda sjóðsins á síðasta fiskveiðitímabili var skynsamleg en jafnframt er ljóst að þessar aflaheimildir hafa ekki nema að hluta bætt upp þann aflabrest sem loðnuskipin urðu fyrir á síðustu vertíð.
    Á þessari stundu ríkir enn óvissa um loðnuveiðar á þessu fiskveiðiári. Tekin hefur verið ákvörðun um 240 þús. lesta loðnukvóta en þar af koma 187 þús. lestir í hlut okkar skipa. Þessar aflaheimildir eru langt undir meðaltali íslensku loðnuskipanna sem á undanförnum árum hefur verið um 800 þús. lestir. Rætist ekki úr loðnuveiðum á þessu fiskveiðiári er ljóst að útgerðir loðnuskipa og loðnuverksmiðjur verða fyrir miklu áfalli. Yrði það þriðja árið í röð þar sem verulegur tekjubrestur hefur orðið hjá þeim sem stunda loðnuveiðar og loðnuvinnslu.
    Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða við frv. er gert ráð fyrir að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs á yfirstandandi fiskveiðiári, sem eru um 11.500 þorskígildi, verði varið án endurgjalds til hækkunar á aflamarki einstakra fiskiskipa í hlutfalli við aflahlutdeild hvers skips af þeim fiskitegundum sem sjóðurinn hefur til umráða. Aflaheimildir sjóðsins munu því að hluta bæta upp þann mikla aflasamdrátt sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir. Jafnframt opna viðbótaraflaheimildirnar möguleika á því að beita ákvæði 9. gr. laga um stjórn fiskveiða, verði verulegur loðnubrestur, án þess að skerða þurfi þær aflaheimildir sem þegar hefur verið úthlutað.
    Samkvæmt gildandi lögum um Hagræðingarsjóð er honum heimilt að greiða úreldingarstyrki sem nema allt að 10% af húftryggingarmati fiskiskipa. Skilyrði fyrir greiðslu slíkra styrkja er að aflaheimildir þess fiskiskips sem úrelt er verði sameinaðar varanlega aflaheimildum annarra fiskiskipa í flotanum. Reynslan hefur sýnt að þetta hlutfall er of lágt og kemur það fram í því að sjóðnum hafa nánast ekki borist fullgildar umsóknir um greiðslu slíkra styrkja. Hafa margir útgerðarmenn frekar kosið að selja endurnýjunarrétt fiskiskipa sem aflaheimildir hafa verið fluttar af eða að halda þeim til veiða á vannýttum tegundum. Þetta mun hins vegar leiða til vaxandi sóknar í þessar tegundir og getur þannig flýtt fyrir að grípa verður til þess að setja hámarksafla á fleiri tegundir en nú er gert. Þá liggja allmörg fiskiskip bundin við bryggju þar sem ákvörðun hefur ekki verið tekin um hvernig skipin skuli nýtt. Hætt er við að sum skipanna muni verða nýtt til stækkunar á nýjum skipum. Með því að hækka þetta hlutfall í allt að 30% af húftryggingarverðmæti er gert

ráð fyrir að hægt verði að ná umtalsverðum árangri í að fækka fiskiskipum nú á næstu árum.
    Með frv. er ekki lagt til að gjald sem eigendur fiskiskipa, sem eru 10 brúttórúmlestir eða stærri, greiða til sjóðsins sé í samræmi við stærð skipanna. Ekki er gert ráð fyrir að þetta gjald hækki. Árlegar tekjur sjóðsins af þessu gjaldi nema nú um 80 millj. kr. en eigið fé hans nam 600 millj. kr. 1. sept. sl. Reynist eftirspurn eftir styrkjum til úreldinga mikil á næstu árum þarf því annaðhvort að hækka iðgjöldin eða lækka það hlutfall af húftryggingarverðmæti sem styrkfjárhæðin miðast við.
    Með frv. er lagt til að heimild sjóðsins til þess að kaupa fiskiskip með aflaheimildum verði felld niður. Reynslan hefur sýnt að umframeftirspurn er eftir fiskiskipum til kaups. Þetta endurspeglast í háu verði á skipum og hætt er við að samkeppni frá opinberum sjóði geti haft óheppileg áhrif á verðmyndun. Þá er vandséð miðað við hið háa verð að kaup á fiskiskipum í því skyni að framselja árlegar aflaheimildir þeirra til að standa undir kaupverðinu fái staðist. Það er ekki eðlilegt að sú heimild sjóðsins verði felld úr gildi.
    Eins og áður er rakið er gert ráð fyrir að andvirði þeirra 12.000 þorskígildislesta sem sjóðurinn fær árlega úthlutað verði varið til Hafrannsóknastofnunar. Meginhluta teknanna verður varið til að standa undir almennum rekstrarkostnaði stofnunarinnar en að hluta verða þessir fjármunir nýttir til að standa undir sérstökum rannsóknarverkefnum sem fyrirhuguð eru. Gert er ráð fyrir að árlegar aflaheimildir sjóðsins verði framseldar til fiskiskipa eftir sömu reglum og eru í gildandi lögum um sjóðinn. Í upphafi hvers fiskveiðiárs verður útgerðum því boðinn forkaupsréttur að aflaheimildum sjóðsins í réttu hlutfalli við aflahlutdeild hvers skips. Nýti útgerð ekki forkaupsrétt verða þær aflaheimildir sem þannig falla niður framseldar hæstbjóðanda. Er þetta í samræmi við þær reglur sem gildandi lög um sjóðinn mæla fyrir um hvað varðar þann hlut aflaheimilda sjóðsins sem sjóðurinn skal árlega framselja til fiskiskipa. Hér er því ekki um nýmæli að ræða að því er varðar aðferðir við að koma þessum aflaheimildum í verð.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til með frv. er eins og áður er vikið að lagt til að hlutverk sjóðsins verði einfaldað verulega frá því sem nú er. Og með hliðsjón af því er lagt til að ekki verði skipuð sérstök stjórn fyrir sjóðinn eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Í þess stað er lagt til að stjórn Fiskveiðasjóðs verði falið að annast veitingu úreldingarstyrkja úr sjóðnum en samkvæmt gildandi lögum um Hagræðingarsjóð annast Fiskveiðasjóður daglegan rekstur sjóðsins.
    Frú forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.