Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 10:44:00 (1408)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að hæstv. forsrh. svaraði hér eftir bestu getu þeim fyrirspurnum sem fyrir hann voru lagðar og í þeirri röð sem þær voru upplesnar og skilmerkilega eins og hans var von og vísa. Hann hefur aftur á móti getið þess að hann hafi nokkurn samanburð á þeim störfum sem hér eru unnin og þeim störfum sem hér voru áður unnin. Þá mun honum sérstaklega vera minnisstætt hvernig t.d. hv. 1. þm. Vestf. starfaði þegar hann var þingfréttaritari og þegar hann var hér á vegum útvarpsins. Sá hv. þm. hefur aftur á móti haldið því fram að nokkur breyting hafi orðið á umræddum manni á þessum tíma. Hann telur að hann hafi fengið högg á höfuðið og hæstv. forsrh. standist því ekki mál. Þetta eru okkur venjulegum þingmönnum ærin umhugsunarefni að búa við það því að auðvitað hefur sá hv. þm. einnig ærinn samanburð á milli forsrh. eftir 30 ára veru á Alþingi Íslendinga og samanburðurinn er ekki beint hagstæður hæstv. forsrh.
    Ég tel þess vegna að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir hinn almenna þingmann hvort hann er ekki nauðbeygður til að taka frá tímann á milli 8 og 9 á morgnana til að fylgjast með útvarpsumræðum, átta sig á því hvort ný gusa af ósvífnum athugasemdum dynji á þessu þingi. Ég hef tjáð formanni allshn. að miðað við ástand þeirrar viku sem nú er að líða treysti ég mér ekki til að mæta þar á nefndarfundi, tvo aukafundi í viku eins og ég hef gert að undanförnu. Ég hef trúað því að við hefðum vinnufrið. En miðað við það að menn hafa komið glaðhlakkalegir til mín eftir þá nefndarfundi og sagt: Hlustaðir þú ekki á útvarpið, og talið mig rakið fífl að nota tímann til nefndarstarfa, þá tek ég að sjálfsögðu nokkurt mark á því og mun gefa mér tíma til að fylgjast með útvarpsfréttum á þessum tíma.