Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 10:52:00 (1411)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég tek þátt í utandagskrár- eða þingskapaumræðu hér á hv. Alþingi en geri það nú vegna þess að mér ofbýður og er reyndar einnig misboðið mjög vegna þeirra ummæla sem hæstv. forsrh. hefur látið falla um störf þingsins, störf einstakra þingmanna og störf fyrrv. ráðherra seinustu dagana. Ég verð að lýsa því yfir að ég get ekki á nokkurn hátt sætt mig við þessi ummæli og setið undir þeim án þess að taka þátt í umræðunni hér.
    Auðvitað verða menn að fá að hafa sínar skoðanir og fá að setja þær fram eins og hæstv. forsrh. hefur sannarlega gert og það er líka gott fyrir þjóðina að fá að vita hvað þessi ágæti maður hugsar um löggjafarsamkomuna, hvert hugarfar hans er til þeirra manna sem hér starfa og hér hafa unnið.
    Hæstv. forsrh. leyfir sér að segja í útvarpi að hann ætli ekki að falla inn í það klúbbástand sem hér ríki og bætir svo við aðspurður: ,,Var klúbbástand þar?`` ,,Afskaplega mikið klúbbástand og reyndar að hluta til enn. Það kom mér mest á óvart eftir að ég kom úr borgarstjórninni að svona ábyrgðarkennd er dálítið öðruvísi og ekki alveg eins mikil og var til að mynda á borgarstjórnarfundum.`` Þar kom hæstv. forsrh. úr vernduðu umhverfi, eins og stundum hefur verð nefnt. Þar var hann í vernduðu umhverfi og við allt önnur vinnuskilyrði heldur en hér eru.
    Síðan líkir hann þessum störfum við gagnfræðaskóla. Ég verð nú að benda mönnum á það að það væri fróðlegt að lesa ræður hæstv. forsrh. hér í þingi undanfarnar vikur þegar hann hefur svarað fyrirspurnum þingmanna t.d. um efnahagsmál, atvinnumál, vaxta- eða byggðamál og velta því svolítið fyrir sér hversu málefnaleg sú umræða hafi verið og hvar hún hefði kannski best átt heima, þær setningar sem þar hafa fallið. Oftast nær hafa ræðurnar byrjað á því að reyna að gera lítið úr fyrirspyrjandanum, hinum almenna þingmanni, og ég leyfi mér að fullyrða að stundum hafi þær verið haldnar aulafyndni, hefðu kannski betur átt heima annars staðar en hér í þingsölum. En síðan segir hæstv. forsrh. í útvarpi í fyrradag að hann líki fyrrv. ráðherrum við að þeir séu með fráhvarfseinkenni. Því verð ég að segja þetta, virðulegur forseti, ég hef stundað mín störf hér í þinginu af fullum heilindum. Ég hef lagt mikla vinnu í störf í fjárlaganefndinni. Ég hef setið þar fundi flesta daga síðan 25. sept., hvern einasta fund sem boðaður hefur verið og ég frábið mér þess vegna þær fullyrðingar sem hér koma fram hjá hæstv. forsrh. og eru orðréttar svona: ,,að þingmenn, hæstv. fyrrv. ráðherrar, geti ekki tekið þátt í venjubundnum störfum Alþingis.``