Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:09:00 (1417)

     Sturla Böðvarsson :
     Virðulegi forseti. Hér fer fram allsérstæð umræða en það er ætlunin hér á hinu háa Alþingi að sjálfsögðu að menn hafi málfrelsi og hér hafi menn tækifæri til þess að tjá sig á þann eðlilega hátt sem hér gefst færi á að gera.
    En tilefni þess að ég tek til máls í þessari umræðu er að forsætisnefndin hefur verið dregin inn í umræður svo sem vænta mátti. Í viðtali við hv. málshefjanda, Steingrím J. Sigfússon í morgun í útvarpinu, þá lét hann að því liggja að óróann hér í þinginu mætti e.t.v. rekja til kjörs forsætisnefndarinnar. Þessu vil ég mótmæla. Í forsætisnefndinni hefur verið unnið af fullum heilindum og ég vil minna á það að í þingskapalögum er gert ráð

fyrir því að forsætisnefndin taki þau verkefni sem forsetar deilda og forseti sameinaðs þings höfðu áður. Og vegna þess að stöðugt hefur verið látið að því liggja að stjórnarsinnar í forsætisnefndinni misnoti aðstöðu sína, þá vil ég minna á það, og það þekkja auðvitað hv. þm., að stjórnarflokkar höfðu yfirleitt forseta deilda og forseta sameinaðs þings, þannig að sú breyting sem átti að verða með nýju þingskapalögunum átti að leiða til þess að stjórnarandstaðan hefði fulltrúa í forsætisnefndinni en því hafnaði stjórnarandstaðan og auðvitað hörmum við það.
    Ég sagði það í upphafi að umræður eru hér eðlilegar um þetta sem annað í störfum þingsins en ég verð að segja alveg eins og er sem nýr þingmaður á Alþingi að margt í vinnubrögðum hefur komið mér á óvart og ég vænti þess að þessi umræða verði til að úr verði bætt. Störf í nefndum ganga með miklum ágætum og ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Norðurl. e. að störf í fjvn. hafa gengið mjög vel, en ég vænti þess að hv. þm. dragi nokkurn lærdóm af þessari umræðu og við tökum til hendi við að vinna sem best hér á Alþingi.