Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:18:00 (1420)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Virðulegur forseti. Ég get því miður ekki þakkað hæstv. forsrh. svörin því þau voru engin, alls engin og það er ekki hægt að þakka það sem ekkert er. Þess í stað notaði hæstv. forsrh. áfram tíma sinn til árása, almennra árása á Alþingi og stjórnarandstöðuna. Ég bar fram fyrir hann fjórar tölusettar spurningar, gagnorðar, og ég afhenti honum þær en hann kaus að svara engri þeirra. Þessi hæstv. forsrh. sem í upphafi þings í haust beitti sér fyrir því að rjúfa samstöðu um stjórn þingsins og beita ýtrasta valdi við skipan forsætisnefndar. Þessi hæstv. forsrh. sem með sprengjukasti sínu hefur valdið meiri óróa og meiri truflun á störfum þingsins en nokkur annar maður. Og þessi hæstv. forsrh. sem er formaður þess flokks hvers augljós klofningur hefur í raun valdið meiru um störfin hér á Alþingi á þessu hausti heldur en nokkuð annað. Það hefur tekið meiri tíma en nokkurt annað einstakt atriði þær ræður sem hv. stjórnarsinnar hafa þurft að halda til að bera af sér og verja sig fyrir stefnu ríkisstjórnar, t.d. í byggðamálum.
    Ég mótmæli ummælum hæstv. forsrh. um Alþingi og alþingismenn Ég tel þau dauð og ómerk. Þau eru órökstudd, mælt af fáfræði og hroka sem dæmir sig sjálft. Alþingi Íslendinga stendur óhaggað. Slíkar órökstuddar dylgjur og sleggjudómar um störf þess breyta engu um stöðu Alþingis og þúsund ára sögu þess. Það er hæstv. forsrh. sem enn hefur orðið sér stórlega til minnkunar.