Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:25:00 (1423)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Þetta hefur nú verið býsna fróðleg lota og umhugsunarverð satt að segja, ekki síst það að forustumenn þingflokka ríkisstjórnarinnar á Alþingi hafa steytt hnefann framan í stjórnarandstöðuna og kjósa greinilega að hafa stríð í þinginu. Það auðvitað er alvarlegur vandi að slíta í sundur friðinn á Alþingi um vinnubrögð eins og hv. þm. Geir Haarde gerði, hæstv. umhvrh. og hæstv. heilbrrh. ( Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að halda sig við að gera athugasemdir við þingsköp.) Ég er að tala um þingsköpin. Ég er nákvæmlega að tala um þingsköp vegna þess að þessir menn, forustumenn stjórnarflokkanna hér á Alþingi, hafa bersýnilega ákveðið að haga hér vinnubrögðum og starfstíl stál í stál. Hæstv. forsrh. heldur uppteknum hætti í ræðu sinni hér áðan og lýkur svarræðu með sérstakri árás á hv. 8. þm. Reykn. Ég vil mótmæla þeim árásum sem ódrengilegum og segja að vinnubrögð af þessu tagi eru fyrir neðan allar hellur og spyrja forseta: Hvar stendur það í þingsköpum að ráðherra skuli ævinlega vera síðastur í þessum umræðum? Það stendur hvergi.
    Ég vil beina því til formanna þingflokkanna að það verði tekið til athugunar á fundum með forseta að sá siður verði aflagður að ráðherra hafi skilyrðislaust lokaorðið í þessum hálftíma umræðum. Það er bersýnilegt að það er ekki hægt að treysta a.m.k. sumum ráðherrum fyrir þeim trúnaði sem í því felst að vera síðasti ræðumaður í umræðu þegar forsrh. notar þessar ræður sínar og þennan rétt aftur og aftur til að ráðast að þingmönnum með ódrengilegum og óheiðarlegum hætti.