Fjáraukalög 1991

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 12:45:00 (1434)

     Frsm. fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
     Hæstv. forseti. Fjárln. hefur frá því er 2. umr. lauk fjallað um þau viðfangsefni er ég greindi frá við það tækifæri og frestað var afgreiðslu á. Einnig komu ný mál til umfjöllunar. Haft var samráð og samvinna við fulltrúa fjmrn. um afgreiðslu málanna. Einnig veittu þeir allar upplýsingar sem leitað var eftir. Þá hefur öll nefndin verið sammála um að flytja þær brtt. sem greindar eru á þskj. 176.
    Við 2. umr. var 12. brtt. á þskj. 123 dregin til baka til 3. umr. Var það gert vegna þess að hv. þm. þótti óeðlilegt að í brtt. fælist hækkun fjárveitingar jafnframt niðurskurði sem margir voru ósammála. Nú gerir nefndin sjálfstæða brtt. um þetta efni á þskj. 176, þ.e. 5. töluliður. Þá kom fram í umræðunni að liðurinn 10-211 Vegagerð ríkisins, var settur upp á annan hátt en tilgreint var í sundurliðun á fskj. Því var tillagan einnig dregin til baka til 3. umr. Nú hefur uppsetningu verið breytt að höfðu samráði við fjmrn. og Vegagerð ríkisins. Samkvæmt fjárlögum 1991 skyldi aflað lánsfjár, 350 millj. kr. til jarðganga á Vestfjörðum. Var þessi upphæð hluti af fjármögnun jarðganganna en var samt talin sem sérstakur liður, 611 Jarðgöng á Vestfjörðum, á fjárlögum. Við afgreiðslu vegáætlunar í mars sl. var láninu breytt í ríkisframlag og jarðgöngin þar með fjármögnuð eins og aðrar nýbyggingarframkvæmdir. Jafnframt var fjáröflun á mörkuðum tekjustofnum aukin um 170 millj. kr. sem verja á til nýframkvæmda í vegamálum. Heildarframlög til vegamála námu í fjárlögum ársins 1991 alls 5 milljörðum 370 millj. kr. Því til viðbótar koma 170 millj. kr. vegna hækkunar á mörkuðum tekjustofni til vegamála og var því heildarframlagið áætlað 5 milljarðar 540 millj. kr. eins og vegáætlunin gerir ráð fyrir.
    Í maí sl. ákvað ríkisstjórnin að lækka útgjöld til vegamála um 350 millj. kr. Það er jafnmikið og ríkisframlagið átti að vera og verða því heildarframlög til vegamála 5 milljarðar 190 millj. kr. á árinu 1991 að teknu tilliti til niðurskurðarins.
    Brtt. á þskj. 177 felur í sér að fjárlagaliðurinn Jarðgöng á Vestfjörðum fellur burt en hann var 350 millj. kr. í fjárlögum ársins. Enn fremur fellur burt brtt. í frv. til fjáraukalaga um viðhald vega. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að framlag til Vestfjarðaganga sé hluti af framlagi til nýframkvæmda í vegáætlun.
    Þá mun ég gera grein fyrir brtt. nefndarinnar sem eru tilgreindar á þskj. 176.
    Tillaga 1 gerir ráð fyrir 10 millj. kr. til íþróttahúss á Ísafirði. Er þessi tillaga gerð til að unnt verði að ljúka bráðnauðsynlegum áfanga við byggingu íþróttahússins. Þess skal getið að fyrir lá fyrirheit um þessa fjárveitingu frá fyrrv. menntmrh. með vitund fjvn.
    Hvað varðar tillögu 2, þá komu forsvarsmenn Lánasjóðs ísl. námsmanna til viðræðu við nefndina. Þar kom fram að upplýsingum sem lágu að baki áætlunum Lánasjóðs ísl. námsmanna frá því í maí sl. hefur skakkað í veigamiklum atriðum. Fjárln. telur mikilvægt að svo verði búið um hnútana hjá sjóðnum að rekstraráætlanir innan ársins gefi réttari mynd af raunverulegri stöðu en verið hefur undanfarin ár. Fjárþörf lánasjóðsins hefur vaxið verulega á síðustu árum og er ljóst að ríkissjóður stendur frammi fyrir gerðum hlut hvað varðar þær 300 millj. kr. sem talin er fjárvöntun sjóðsins á þessu ári. Framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna og lántökuheimild sjóðsins samkvæmt fjárlagafrv. 1992 gefur augljóslega ekki svigrúm til að færa skuldbindingar milli ára. Fjárln. telur því að veita verði umbeðna fjárhæð og gerir því tillögu um 300 millj. til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Meiri hluti fjárln. gerir þetta að því tilskildu að úthlutunarreglum sjóðsins og lögum verði breytt þannig að tryggt verði að fjárveiting samkvæmt fjárlagafrv. 1992 nægi fyrir skuldbindingum sjóðsins á næsta ári.
    Þriðja tillaga er um Tryggingastofnun ríkisins, Lífeyristryggingar. Fyrir 300 millj. kemur 400 millj. Í áætlun um greiðslu lífeyristrygginga er ekki gert ráð fyrir greiðslu desemberuppbóta til bótaþega. Hér er gerð tillaga um þessar 100 millj. svo Tryggingastofnun verði unnt að greiða desemberuppbót. Því hækkar liðurinn Tryggingastofnun ríkisins Lífeyristryggingar úr 300 millj. í 400 millj. kr.
    Tillaga 4, Flóabátar og vöruflutningar, Stofn- og rekstrarstyrkir, gerir ráð fyrir að í stað 7 millj. komi 94 millj. og 900 þús. Verulegur fjárhagsvandi er í rekstri ferja og flóabáta. Bæði er að rekstrarstyrkir í fjárlögum duga ekki til að ná jafnvægi milli tekna og gjalda og einnig að afborganir og vextir af lánum, sem tekin voru vegna kaupa á skipum, eru í vanskilum. Þá blasir fjárhagsvandi við rekstri þessara skipa á næstu árum vegna endurnýjunar ferja. Talið er að vanskil ferja og flóabáta nemi 95 millj. kr. í árslok að óbreyttu. Þar af eru 41,4 millj. kr. vegna rekstrar og 53 millj. kr. vegna vanskila á lánum hjá ríkisábyrgðasjóði. Því leggur fjárln. til að inn í fjáraukalög verði bætt framlagi að upphæð 88 millj. kr. til viðbótar við þær rúmlega 7 millj. kr. sem þegar hafa verið teknar inn.
    Ég ætla að gera grein fyrir því hvernig þessu verður varið. Þá kemur fyrst að skipinu Baldri. Þörf er á 10 millj. kr. rekstrarstyrk til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla útgerðarinnar. Báturinn Sævar. Með tilkomu Sæfara dró úr flutningum Sævars þannig að sá styrkur sem hingað til hefur dugað rekstrinum er ekki nægur. Til að jafna uppsafnað tap vantar 8,3 millj. kr. Skipið Sæfari. Þær væntingar, sem gerðar voru til rekstrar þessarar nýju ferju sem þjóna átti Grímseyingum og fleirum, hafa brugðist. Til viðbótar þeim styrk, sem er á fjárlögum þessa árs, er þörf á 9,1 millj. kr. til að mæta halla þessa árs og síðasta árs. Einnig er þörf á að veita styrk til greiðslu lána sem tekin voru vegna kaupa skipsins. Vanskil við ríkisábyrgðasjóð nema nú um 12,5 millj. kr. og í upphafi desember koma til greiðslu 6 millj. kr. Akraborg. Flutningar með Akraborginni minnka sífellt. Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs hefur orðið 5% samdráttur á flutningum ferjunnar frá sama tíma í fyrra. Til að endar nái saman í rekstri skipsins á þessu ári er nauðsynlegt að verja til þess 14 millj. kr. og 35 millj. kr. til að gera upp vanskil útgerðarinnar. Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði skuldbreytt láni fyrirtækisins hjá ríkisábyrgðasjóði þannig að seinasta afborgun

gamals láns verði breytt í 10 ára lán. Með því lækkar næsta árs afborgun lána úr tæpum 93 millj. kr. í 25,8 millj. kr.
    Það er alveg ljóst að útgjöld ríkisins til ferjurekstrar muni aukast verulega á næstu árum nema eitthvað sé að gert. Þannig má gera ráð fyrir að í stað 173,2 millj. kr. framlags í fjárlagafrv. 1992 verði þörfin 376,9 millj. kr. Árleg fjárörf fari síðan vaxandi þegar við bætast afborganir af nýja Herjólfi og nái hámarki árið 1995 og verði þá 435,9 millj. kr. Eftir það verði framlagið um 400 millj. kr. til aldamóta.
    Það er oft gaman að bera saman tölur. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 376,9 millj. kr. til þessara hluta. Mér dettur í hug að það sem ætlað er Framkvæmdasjóði fatlaðra eru 320 millj. og er það reyndar í fyrsta sinn sem nokkur ríkisstjórn treystir sér til að standa við lög hvað varðar veitingu fjármagns til þessa sjóðs. Á þessu sjáum við að oft er það að menn meta --- eða alla vega hefur það verið þannig --- þörf okkar minnstu bræðra oft minna en ástæða er til. Reyndar er það skoðun mín að margt megi bæta úr varðandi rekstur þessara ferja og það þurfi að taka á því máli. Reyndar er það svo að meiri hluti nefndarinnar gerir þessa tillögu um framhald í fjáraukalögum 1991 í trausti þess að ríkisstjórnin sjái til þess að lagðar verði fram tillögur um hvernig strandflutningar og rekstur ferja og flóabáta verði leystur með verulega lægri tilkostnaði ríkisins en nú horfir að öllu óbreyttu.
    Hvað varðar tillögu 5 þá sagði ég nú aðeins frá henni áðan. Þessi tillaga var dregin til baka í 2. umr. vegna þess að henni var blandað saman við niðurskurð. Nú er hér gerð sérstök tillaga um nýjan lið við 3. gr. Hafnarmannvirki, Þorlákshöfn, 18 millj. kr. sem fara í að ganga frá samningum vegna aðstöðunnar í Þorlákshöfn vegna væntanlegrar ferju sem kemur á næsta ári og gerði ég grein fyrir því frekar við 2. umr.
    Þá kem ég að tillögu 6. Við 2. umr. var fjárlagaliðurinn Hótel, framlög að upphæð 16 millj. kr. samþykktur. Sú samþykkt var komin til vegna fyrri skuldbindinga fjárveitinganefndar. Eins og ég greindi frá við þá umræðu hafði nefndin skuldbundið sig einnig gagnvart Hótel Blönduósi en það vannst ekki tími til að taka það í þeirri umræðu. Því er það að nefndin gerir tillögu um að 3 millj. kr. verði varið til Hótel Blönduóss til að gera upp við ferðamálasjóð.
    Hvað varðar 7. tillögu Veiðistjóri koma 67,5 millj. í stað 9,5 millj. Er það vegna eyðingar refa og minka. Ógreiddar skuldbindingar ríkissjóðs vegna eyðingar refa og minka eru taldar um 27,5 millj. kr. vegna veiða á árinu 1990 og um 40 millj. kr. vegna veiða á árinu 1991. Að lokinni 2. umr. um fjáraukalögin er fjárveiting að uppæð 9,5 millj. kr. til að mæta þessari skuld ríkissjóðs. Eftir stendur 58 millj. kr. skuld. Því verður þessi upphæð samtals 67,5 millj. kr. Innan skamms verður lagt fram stjfrv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum breytingum á gildandi löggjöf um veiðar á refum og minkum sem felst í breyttu skipulagi og minnkuðum kostnaði ríkissjóðs.
    Fjárln. gerir þessar tillögur á þskj. 176. Fjárln. er einhuga um að gera þessar tillögur og meiri hluti fjárln. flytur brtt. á þskj. 177. Leggur meiri hlutinn til að sú tillaga, þ.e. á þskj. 177, verði samþykkt og öll nefndin leggur til að brtt. á þskj. 176 verði samþykktar.