Fjáraukalög 1991

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 13:00:00 (1435)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns fjárln., hv. þm. Karls Steinars Gunnarssonar, hefur fjárln. nú lokið umfjöllun sinni um fjáraukalög fyrir árið 1991 og er málið komið hér til 3. umr.
    Eins og fram kom í máli hans stendur nefndin öll að brtt. á þskj. 176, en þar er

fjallað um ýmsar tillögur sem var búið að ræða um í nefndinni fyrir 2. umr. en sumum þeirra frestað til 3. umr. eins og t.d. málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Jafnframt gerði ég grein fyrir því í ræðu minni við 2. umr. um fjáraukalögin að sérstaklega þyrfti að skoða málefni flóabáta og vöruflutninga, þ.e. málefni einstakra ferjubáta eða skipa og það hefur nefndin nú gert eins og fram kom í ítarlegri greinargerð hv. form.
    Auk þess óskaði ég eftir því við 2. umr. að nefndin skoðaði sérstaklega málefni framhaldsskóla og vitnaði þar til fyrirheita frá fyrrv. hæstv. menntmrh. um málefni Menntaskólans á Ísafirði og byggingu íþróttahúss þar. Þetta hefur nefndin nú tekið til athugunar og flytur um brtt. á þskj. 176 sameiginlega.
    Þá vil ég aðeins geta um það að ég gerði athugasemdir við atkvæðagreiðslu við 2. umr. við tvo liði, annars vegar um brtt. um liðinn 10-333 Hafnamál, og eins við atkvæðagreiðslu um lið er varðar málefni Vegagerðar ríkisins, lið 10-211. Varðandi liðinn um hafnarmannvirkin var brtt. dregin til baka og kemur því til umfjöllunar nú við 3. umr. á nýjan leik og stendur nefndin öll að þeirri brtt. Varðandi málefni Vegagerðarinnar vil ég aðeins segja að ég gerði athugasemd við atkvæðagreiðsluna á þeim forsendum að mér fannst ekki samræmi í uppsetningunni í fjárlaukalagafrv. eins og það var upphaflega lagt fram og hins vegar þeim lista sem fylgdi sem fskj. með nál. fjárln. við 2. umr. á þskj. 122 þar sem gerð var grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin hafði í sumar áætlað að niðurskurður eða sparnaður í framkvæmdum á vegum Vegagerðarinnar skyldi koma fram.
    Í þessu fskj. var greint frá því að viðhald skyldi lækkað um 100 millj. kr., Vestfjarðagöng um 100 millj. kr. og nýbygging vega um 150 millj. eða samtals 350 millj. Mér fannst ósamræmið við fjáraukalagafrv. vera fyrst og fremst í því að þar var aðeins greint frá niðurskurði á framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum og þar tilgreindar 250 millj. Nú ætla ég ekki, virðulegi forseti, að eyða frekari tíma í þetta mál en meiri hluti fjárln. hefur skoðað þetta nánar og flytur brtt. á þskj. 177 þar sem þetta er sett upp í samvinnu við fulltrúa Vegagerðarinnar og starfsmenn Alþingis um það hvernig setja skuli fram þessa brtt. Ég verð að vísu að láta það koma fram að mér sýndist þar ekki vera greint frá því eins og ég taldi rétt að gera, að sérstaklega kæmi til niðurskurðar á almennum vegaframkvæmdum um 150 millj. og að það kæmi þá fram líka að það er í raun breyting á samþykktri vegáætlun, þál. um framkvæmdir í vegamálum, en greinargerð fyrir þeim breytingum var reyndar sett fram í listanum sem ég nefndi áðan sem kom sem fskj. með nál. á þskj. 122. Ég hélt að þetta þyrfti að koma öðruvísi fram í brtt. en hér er gert en geri ekki athugasemd um það frekar, virðulegi forseti, en vildi aðeins láta þessa hugsun koma betur fram og gera nánari grein fyrir þeim athugasemdum sem ég gerði við 2. umr.
    Ég geri ráð fyrir því að það verði eins með þessa brtt., sem flutt er á þskj. 177, og þær breytingar sem áður voru fluttar við fjáraukalagafrv. og voru til meðhöndlunar við 2. umr. varðandi niðurskurð til framkvæmda við framhaldsskóla, við hafnir, við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og nú við vegamál að stjórnarandstæðingar eftir atvikum sitji hjá við þessa atkvæðagreiðslu eða greiði atkvæði gegn henni en fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárln. höfðu fyrirvara við allar þessar brtt. við 2. umr. og sá fyrirvari stendur enn af okkar hálfu.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að eyða frekari tíma í þessa umræðu. Ég tel að nefndin hafi unnið vel og málefnalega að þessu og um það hafi verið að mestu leyti, má kannski segja nánast öllu leyti, fullkomin samstaða hvernig þessi mál voru unnin í nefndinni utan við þessa fyrirvara sem ég hef hér greint frá. Ég vil þakka formanni og meðnefndarmönnum mínum fyrir samvinnu við afgreiðslu þessa frv.