Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 13:44:00 (1446)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er að mörgu leyti afar merkilegt og brýtur með vissum hætti í blað. Þær umræður sem þegar hafa farið fram um frv. hafa, eins og háttar til í sjávarútvegi í dag, farið mjög víða. Það er eðlilegt að menn reyni að koma skoðunum sínum á framfæri á þeim vanda sem þar blasir við í dag. Ég ætla eigi að síður, frú forseti, að reyna að takmarka mál mitt við það frv. sem liggur fyrir.
    Þau lög sem enn þá gilda um Hagræðingarsjóð höfðu upphaflega tvíþættan tilgang. Annars vegar áttu þau að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð með því að kaupa fiskiskip sem voru til sölu, selja þau úr landi eða eyða þeim og veita sömuleiðis styrki til úreldingar. Hins vegar var líka einn megintilgangur þessara laga að aðstoða byggðarlög sem höfðu tapað veiðiheimildum á burt vegna sölu skipa. Mjög skýrt er tekið fram í þeim lögum sem enn þá gilda að helmingur þeirra veiðiheimilda sem Hagræðingarsjóður hafði til umráða átti að renna til þessa mikilvæga verkefnis sjóðsins.
    Þær aflaheimildir sem sjóðurinn fékk til ráðstöfunar áttu upphaflega að koma frá tveimur stöðum, annars vegar frá veiðiheimildum sem sjóðurinn fengi með skipum sem hann keypti og hins vegar átti sjóðurinn að fá það álag sem kom á aflamark vegna útflutnings á óunnum fiski. Nú er það auðvitað mjög óráðin stærð eins og hagar til í sjávarútvegi í dag þar sem mjög er í rénun útflutningur á óunnum fiski og ég tel það mjög vel. En í rauninni er það svo að sjóðurinn náði aldrei á sínum stutta líftíma að fullnægja þessum tveimur hlutverkum algerlega.
    Áður hefur í þessari umræðu verið rakið hvernig aflaheimildum hans var ráðstafað vegna loðnubrests, og ég tel það mjög viturlega ráðstöfun, en veiðiheimildirnar komu þannig aldrei til úthlutunar samkvæmt hinum upphaflega bókstaf laganna. Sömuleiðis hefur sjóðurinn ekki getað sinnt úreldingu, sennilega vegna þess að hlutfall úreldingarstyrkja af verðmæti skipanna hefur verið of lágt og þannig hefur í rauninni engin fullgild umsókn borist.
    Þess ber að geta strax að mér fannst sem nokkurs misskilnings gætti í máli þeirra

þingmanna sem hér hafa áður rætt um það hvernig ætti að ráðstafa upphaflegum veiðiheimildum sjóðsins samkvæmt lögunum sem enn gilda. Það er eins og sumir hafi talið að átt hafi að gefa illa stöddum byggðarlögum þann hluta veiðiheimilda sjóðsins sem átti að ráðstafa þeim til aðstoðar. Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Samkvæmt lögunum sem enn eru í gildi ber að selja allar veiðiheimildir, líka til nauðstaddra byggðarlaga, og það ekki á neinum Hagkaupsprís, heldur á gangverði hverju sinni. Þannig segir ótvírætt í 9. gr. núgildandi laga:
    ,,Sjóðurinn veitir aðstoð sína til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum, er höllum fæti standa, með því að framselja veiðiheimildir sem honum hafa verið úthlutaðar í því skyni skv. 5. gr. Aflaheimildir skulu framseldar gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Skal sveitarstjórn í viðkomandi byggðarlagi eiga ráðstöfunarrétt að veiðiheimildum þessum gegn endurgjaldi skv. 1. mgr. 8. gr.`` --- Og 1. mgr. 8. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs eða veiðitímabils gefa þeim skipum, er tilteknar veiðar stunda, kost á að fá framseldar til sín gegn endurgjaldi`` --- ég endurtek --- ,,gegn endurgjaldi heimildir til þeirra veiða, sem sjóðurinn hefur forræði á, í hlutfalli við veiðiheimildir hvers skips. Skal endurgjaldið miðað við almennt gangverð á sams konar aflaheimildum . . . ``
    Það er því algerlega ljóst, frú forseti, að þau lög sem enn eru í gildi gerðu ráð fyrir því að þegar illa stöddum byggðarlögum væri komið til hjálpar skyldu þau eigi að síður greiða miðað við gangverð fyrir þær aflaheimildir. ( SJS: Lestu 9. gr. laganna.) Ég var að því. (Gripið fram í.) Nei, nei, ég var, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, að lesa 9. gr. þar sem er ( StH: Ég hef ekki sagt orð.) hv. þm. Steingrímur Jóhann, þar sem þetta er nákvæmlega sagt, vísað í 8. gr. sem ég las síðar. Þannig að það er alveg ljóst að hér var ekki um gjöf að ræða heldur sölu á gangverði.
    Helstu breytingar í frv. sem liggur nú fyrir eru þær að sjóðurinn fær nú úthlutað fast að 12 þús. tonnum og það er út af fyrir sig jákvæð breyting sem tryggir honum fastan tekjustofn. Þetta er eins og ég gat um áðan nauðsynlegt vegna þess að óvissa ríkir í útflutningi á óunnum fiski en útflutningur fer raunar hraðminnkandi nú um stundir. Jafnframt er það tekið fram í frv. að allar veiðiheimildir eru áfram seldar, en nú er öllum tekjum af sölu veiðiheimilda varið til að standa straum af rekstri Hafrannsóknastofnunar. Þetta tel ég afar jákvætt. Með þessu er farið út á þá braut að reyna að láta atvinnugreinarnar standa sjálfar straum af rannsóknum og kostnaði. Ég fylgi þeirri stefnu eindregið og tel raunar að núv. ríkisstjórn eigi í ríkari mæli að fara út á þessa braut.
    Þá er ekki lengur gert ráð fyrir því að skip séu keypt með aflaheimildum enda ríkir nú umframeftirspurn á þeim markaði, allt of hátt verð og það er ekki mjög hagfellt að opinber sjóður taki þátt í þeim markaði einungis með þeim afleiðingum að hleypa enn frekar upp eftirspurn og verði. Jafnframt er gert ráð fyrir því í frv. að ekki sé lengur heimild til að taka lán til að kaupa og úrelda skip. Ég verð að segja það að mér finnst að þetta sé skref aftur á bak og ég tel að það eigi að íhuga vandlega hvort ekki sé rétt að halda þessari heimild inni og beini því sérstaklega til sjútvrh.
    Síðan kemur að því sem er ein meginbreytingin í þessu frv. og hún er sú að ekki er lengur stuðningur við byggðarlög í erfiðleikum. Það kom alveg skýrt fram áður í marksmiðsgrein laganna, 1. gr., að annað af tveimur hlutverkum sjóðsins væri að koma til aðstoðar byggðarlögum sem standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum. Í greinargerð með þessu frv. er því lýst að rétt sé að fella þetta hlutverk ur gildi og tekið fram að það sé eðlilegra að Byggðastofnun eða öðrum stjórnvöldum sé falið að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfa þykir til að styðja byggðarlög í nauð.

    Ég verð að segja að ég tel að hér sé ekki alveg rétt á málum haldið. Ég tel að það eigi áfram að halda inni í þessum lögum heimild til að aðstoða byggðarlög sem eru í erfiðleikum og þess vegna mun ég beita mér fyrir því og legg það til við hæstv. sjútvrh. að áfram verði hafður inni í þessum lögum réttur til að veita byggðarlögum í erfiðleikum forleigurétt að þeim veiðiheimildum sem sjóðurinn hefur til umráða. Ég mun beita mér fyrir því í sjútvn. Alþingis að samstaða náist um þetta mál.
    Síðan er í því frv. sem liggur fyrir afar jákvætt spor sem felst í því að úreldingarstyrkir eru hækkaðir. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að það megi veita styrki sem nema 10% af húftryggingarverðmæti hvers skips. Eins og þegar hefur komið fram í máli mínu hefur ekki borist nein fullgild umsókn til sjóðsins. Það stafar að öllum líkindum af því að þetta er of lágt hlutfall. Hins vegar er mjög nauðsynlegt að sjóðurinn geti með einhverju móti tekið þátt í að úrelda og fækka fiskiskipum. Það var upphaflega annað af meginhlutverkum hans og á enn að vera eitt af hlutverkum hans.
    Við vitum það öll að ein stærsta sóunin í íslensku atvinnulífi í dag felst í því ósamræmi sem er á milli afrakstursgetu miðanna og afkastagetu flotans. Sérfræðingar hafa varpað því fram eftir grófa útreikninga að ef takist að fækka skipum um 10%, þá mætti ná 5% sparnaði. Fyrir þær þrengingar sem sjávarútvegurinn er í nú höfðu menn talið að flotinn væri e.t.v. 70--80% of stór þannig að það mætti ná 10--15% sparnaði. Í dag er ósamræmið milli afrakstursgetunnar og afkastagetu skipanna auðvitað enn meira vegna þess að ástandi stofna hefur hrakað allverulega. Ég tel þess vegna mikið heillaspor að nú skuli gert ráð fyrir að styrkurinn hækki úr 10% í 30%.
    Nú er það hins vegar svo að undanfarin ár hafa fallið til skip sem eru án aflaheimilda en vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framhald fiskveiðistjórnunar og stefnu í þeim málum og vegna þess að menn um allt land trúa því ekki að núverandi kerfi muni lifa til langframa, þá hafa menn kosið að binda skip sín við bryggjur fremur en farga þeim, jafnvel reyna að beita þeim til veiða á vannýttum stofnum sem auðvitað verða fljótlega ofnýttir eins og dæmin sýna. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að á næstu árum muni falla til verulegur fjöldi skipa sem ekki er hægt að beita til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu og vil varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki sé rétt að heimildum til úreldingarstyrkja verði breytt þannig að þeim verði ekki einungis varið til þess að úrelda skip og eyða eða selja úr landi heldur jafnframt megi verja sömu upphæð til þess að styrkja íslenska aðila til að fara með skip til veiða í fiskveiðilögsögu annarra þjóða ef samningar takast um slíkar veiðiheimildir. Ég veit það sjálfur að eftirspurn er eftir slíkum aðilum, bæði meðal ýmissa þjóða í sovéska ríkjasambandinu og líka í ýmsum ríkjum Afríku og Asíu. Ég tel að sú mikla tækniþekking sem Ísland hefur yfir að búa geti nýst þessum þjóðum vel. Ég tel líka að ef tækist að semja um slíkar fiskveiðiheimildir í lögsögu erlendra ríkja, þá mundi ekki bara vera hægt að beita þeim ónýtta skipaflota sem við senn höfum yfir að ráða heldur yrði líka kleift að selja í kjölfarið íslenska tækniþekkingu og vélbúnað.
    Við megum ekki gleyma því að í skjóli íslensks sjávarútvegs hefur hægt og sígandi vaxið ný iðngrein sem fáir vita af, það er smíði vélbúnaðar sem tengist sjávarútvegi. Á síðasta ári einu saman var seldur frá Íslandi vélbúnaður, mestmegnis til Sovétríkjanna að mér skilst, fyrir næstum því 1 milljarð kr. Við þurfum að hlúa að þessu, við þurfum að skapa frekari tækifæri fyrir slíka sölu og þessi hugmynd sem ég leyfi mér að varpa hérna fram mun að öllum líkindum auðvelda mjög sölu á tækniþekkingu til erlendra þjóða.
    Ég vil, frú forseti, að síðustu undirstrika það að ég tel að í því frv. sem hér liggur fyrir sé margt mjög vel gert. Ég vildi óska eftir því við hæstv. sjútvrh. að hann íhugaði hvort ekki væri hægt að halda inni heimild sjóðsins til þess að hefja lántökur til að auðvelda úreldingu skipa. Ég tel vanta í þetta frv. forleigurétt þeirra byggða sem eru illa

staddar og mér finnst líka að í 1. gr. þessara laga vanti í rauninni helftina af markmiðslýsingunni. Mér finnst að þar vanti yfirlýsingu um að tekjur sjóðsins af veiðiheimildum eigi að nota til þess að kosta hafrannsóknir á Íslandi. Þetta kemur mjög skýrt fram annars staðar í textum og jafnframt í greinargerðinni en mér finnst, frú forseti, að þetta vanti líka í 1. gr. þessara laga.