Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 13:57:00 (1447)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs þegar ég áttaði mig á því að hv. síðasti ræðumaður hafði ekki lesið nógu vel heima og fór ekki að öllu leyti rétt með þegar hann vitnaði í gildandi lög um Hagræðingarsjóð. Hann sló því fram sem altækri reglu --- og reyndar taldi sig þess umkominn að álykta að margir ræðumenn hefðu misskilið texta laganna um Hagræðingarsjóð á þann hátt að mögulegt væri eða jafnvel regla að veiðiheimildir gætu gengið til byggðarlaga í erfiðleikum án endurgjalds. Ég hef ekki heyrt neinn hv. þm. sem hér hefur talað halda því fram. Hins vegar hafa menn bent á það, bæði sá sem hér talar og fleiri, að í lögunum er heimild til slíks. Lögin um Hagræðingarsjóð gera ráð fyrir því að ef þannig stendur á að ekki reynist unnt með fullnægjandi hætti að koma þeim byggðarlögum sem í hlut eiga til aðstoðar samkvæmt hinum almennu vinnureglum, þá segir í 9. gr. laganna, með leyfi forseta: ,,Fáist ekki skip til veiðanna með þeim skilmálum getur stjórn sjóðsins, að fengnu samþykki ráðherra, ákveðið lægra endurgjald eða fallið frá endurgjaldi standi sérstaklega á.``
    Ég held að ég þurfi ekki að lesa meira. Það var þetta sem ég var reyndar með frammíkalli að benda hv. ræðumanni á að lesa. Ef hann hefði haldið aðeins áfram með lesturinn hefði hann áttað sig á því að það var einmitt fyrir þessum hluta málsins séð með því að hafa inni heimild af þessu tagi. Menn reiknuðu með því að þær aðstæður gætu skapast að atvinnubrestur yrði, t.d. í fámennu, afskekktu byggðarlagi þar sem umfang veiðiheimilda væri ekki það mikið að menn sæju sér akk í að nýta þær og taka á sig þær kvaðir sem nýtingu þeirra fylgdi, sem sagt að landa afla í viðkomandi byggðarlagi. Við slíkar aðstæður gæti verið nauðsynlegt að unnt væri eftir sem áður að úthluta veiðiheimildum með lægra eða jafnvel engu endurgjaldi. Að þessu skilyrði fullnægðu, þ.e. að hafa þessa heimild í lögunum, gátu menn sætt sig prýðilega við það að eftir sem áður væri almenna reglan sú að endurgjald kæmi fyrir veiðiheimildirnar þar sem málin leystust með þeim hætti.
    Ég vona að þetta eyði öllum frekari misskilningi um þetta atriði og að hv. síðasti ræðumaður viti héðan í frá það sem hann á eftir ólifað hvernig þetta var útfært í lögunum á sínum tíma og stendur enn þangað til það verður afnumið.
    En það var annað í máli hv. ræðumanns, ef ég hef tekið nógu vel eftir, sem mér fannst þó öllu verra en þessi minni háttar misskilningur. Það voru þau viðhorf sem hann lýsti að hann styddi eindregið þá kerfisbreytingu að atvinnugreinin, sjávarútvegurinn, tæki til við að fjármagna rekstur Hafrannsóknastofnunar. Og ef ég hef ekki misskilið, þá átti ræðumaður við almennt séð að hann væri hlynntur slíkri kerfisbreytingu. Hvað sem um það má segja og hvað sem afstöðu hv. 17. þm. Reykv. líður, þá vil ég gjalda varhug við þessari breytingu. Ég tel hana síður en svo til bóta og síður en svo skynsamlega kerfisbreytingu í okkar málum. Ég held að ákaflega varhugavert sé að gera því skóna að rannsóknir af þessu tagi sem um er að ræða og eru stundaðar í nánast einu rannsóknarstofnun okkar á þessu sviði --- rannsóknarstarfsemi, grunnrannsóknir í viðkomandi fagi eru yfir höfuð ekki stundaðar svo neinu nemur annars staðar en í þessari einu stofnun --- þá sé það ekki heppileg breyting að færa reksturskostnað hennar alfarið yfir á sjávarútveginn.
    Nú er það reyndar misskilningur eða orðhengilsháttur í reynd að tala um að sjávarútvegurinn með fénýtingu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs borgi eitthvað frekar rekstur Hafrannsóknastofnunar heldur en aðra starfsemi hins opinbera. Því staðreyndin er auðvitað sú að þessar 525 millj. kr. renna einfaldlega í ríkissjóð, ef þær þá nást sem ég á nú eftir að sjá og mun koma að síðar, og síðan út úr ríkissjóði aftur, 525 millj. til að borga fyrir þennan hluta rekstrar Hafrannsóknastofnunar. En sem kerfisbreytingu --- ég vil setja mikil spurningamerki við það að við höldum út á þá braut að láta atvinnugreinarnar taka til við að fjármagna alfarið rannsóknarstarfsemi af þessu tagi. Ég held að það sé almennt viðurkennt og þess vegna finnst mér heldur dapurlegt að háskólaborgarinn, sem einhvern tíma mun hafa verið upplýst hér í þinginu að væri einn af tveimur eða þremur sem flögguðu doktorstitli, skyldi lýsa þessum sjónarmiðum hér. Ég hlýt að spyrja: Hvernig hugsa menn sér þá að sjá fyrir grunnrannsóknum og sjá fyrir rannsóknum á grundvelli langtímasjónarmiða þar sem litið er fram hjá skammtímaágóða eða hagnaðarsjónarmiðum á þessu sviði, á sviði íslensks sjávarútvegs og hafrannsókna? Ég er hræddur um að illa sé komið fyrir þeirri þjóð sem ekki hefur efni á því að leggja eitthvað í grunnþekkingaröflun, grunnrannsóknir og slíka starfsemi á grundvelli langtímasjónarmiða. Ég óttast að það muni ekki auðvelda okkur þá viðleitni ef útgjöldin ár frá ári verða færð yfir á herðar atvinnugreinarinnar. Þvert á móti tel ég að það eigi að vera eitt meginhlutverk ríkisvaldsins, og kannski eitt af því sem menn ættu síðast að láta sér detta í hug að taka af höndum hins opinbera. Það er einmitt fjármögnun og starfræksla grunnrannsókna og þekkingaröflunar af þessu tagi.
    Ég tel því þetta síður en svo skynsamlega breytingu. Væri starfseminni skipt upp með þeim hætti að einhvers konar þjónustustarfsemi og þjónusturannsóknir væru til á einum stað og þær kostaðar af atvinnugreininni gegndi dálítið öðru máli, en því er ekki fyrir að fara hér. Hér er eins og ég segi nánast um að ræða einu rannsóknastarfsemi af þessum toga sem rekin er í landinu og ég tel það vægast sagt óskynsamlega breytingu og síður en svo eitthvert fagnaðarefni að horfið sé að þessu ráði sem fjárlagafrv. boðar. Fyrir utan það að þetta er að sjálfsögðu ekki annað hjá hæstv. ríkisstjórn í neinu innra samhengi. Mér er ekki kunnugt um að sambærilegar breytingar séu í fjárlagafrv. né fyrirhugaðar gagnvart öðrum atvinnugreinum. A.m.k. hef ég ekki fundið það í fylgiskjölum með fjárlagafrv. Og ég spyr þá: Hvers á sjávarútvegurinn að gjalda að verða fyrstur allra atvinnugreina tekinn fyrir og settur í þessa stöðu?
    Allt er þetta auðvitað hinn mesti hráskinnsleikur því að hér er fyrst og fremst verið að ná í þessa fjármuni í ríkissjóð, verið að nota Hagræðingarsjóð í þessu samhengi sem skattstofn fyrir ríkisstjórnina sem er úti með allar klær eins og menn þekkja til að koma á nýjum sköttum undir ýmsum dulnefnum.
    Það vottaði hins vegar fyrir skilningi hjá hv. 17. þm. Reykv. að mér fannst á þeirri afturför sem það er að kippa út úr lögunum um Hagræðingarsjóð öllum möguleikum til þess að taka á málefnum einstakra byggðarlaga með þeim hætti eða líkum hætti og heimilt hefur verið samkvæmt lögum. Hann varpaði fram þeirri hugmynd að sett yrði inn ákvæði um einhvers konar forleiguheimild til handa byggðarlögum sem í erfiðleikum ættu. Ég ætla ekki, fyrr en ég hef haft aðstöðu til að kynna mér hvað fyrir hv þm. vakir, að segja allt of mikið um þá hugmynd. Það má sjálfsagt hugsa sér að það gæti verið til bóta í vissum tilvikum en ég er ansi hræddur um að þær aðstæður sem erfiðastar gætu orðið og snúnast að leysa séu einmitt af þeim toga þar sem viðkomandi byggðarlög hafi síst bolmagnið til þess að leggja í mikil fjárútlán til að festa eða ná til sín viðkomandi réttindum. Þannig verð ég að segja fyrir mitt leyti, án þess að hafa haft aðstöðu til að hugsa málið mikið eða haft upplýsingar um hvað í einstökum atriðum liggur að baki hugmynd um forleiguheimild á veiðiheimildum, að mikið rórra væri mér að sjá að mögulegt væri ef þannig aðstæður sköpuðust að koma veiðiheimildum til byggðarlaganna fyrir lægra eða jafnvel ekkert endurgjald ef ekki verður með öðrum hætti leyst úr viðkomandi vandamálum.
    Herra forseti. Dreift hefur verið í þinginu frv. sem ekki er óeðlilegt að menn kíki aðeins á þegar þessar nýju gjaldtökur eða álögur á sjávarútveginn eru til umræðu. Það er frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er enn vikið að sjávarútveginum og lögum um stjórn fiskveiða og verður ekki annað séð en einnig þar eigi að íþyngja sjávarútveginum verulega þar sem svonefnt veiðileyfagjald, sem áður hefur að hálfu gengið til að kosta veiðieftirlit sjávarútvegsins, skuli núna að fullu ganga til þessara þarfa. Það er því ekki bara á þessu sviði sem á ferðinni er fénýting veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs, sem á að íþyngja sjávarútveginum hressilega, heldur víðar. Það ræðum við væntanlega síðar, hæstv. forseti, þegar þetta mál kemur á dagskrá en það er ekki óeðlilegt að þetta sé skoðað í samhengi.
    Eitt atriði enn sé ég ástæðu til að nefna og það eru þær hugmyndir sem fjárlagafrv. gengur út frá, og sömuleiðis í raun þetta frv. um Hagræðingarsjóð, að með fénýtingu á 12 þús. tonna veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs fáist 525 millj. kr. í tekjur til ríkisins. Auðvelt er að reikna það út ef menn gefa sér að leigugjald fyrir veiðiheimildirnar, þorskígildið innan ársins, verði 44 kr. á kg. Þar verð ég að segja að mér þykir boginn nokkuð hátt spenntur og menn geta haft til hliðsjónar t.d. það grundvallarverð á fiski sem fram undir síðustu tíma hefur verið stuðst við eða bara gangverð á markaði sem hér fer niður í 70--90 kr. þegar það er lægst. Þá er ekki verið að tala um neitt smáræðishlutfall af slíku verði.
    Ég hef miklar efasemdir um að þær veiðiheimildir muni skila þessum upphæðum þó svo að reynt verði. Það er líka önnur spurning og hún er sú, hvort ríkið ætlar að ganga á undan með fögru fordæmi og spenna með þessum hætti upp endurgjaldið fyrir leigu á veiðiheimildum innan ársins. Ég tel að í umræðum um þessi mál sé skynsamlegt að gera skýran greinarmun á annars vegar tímabundnum afnotum veiðiheimilda eins og felast í endurleigu eða leigu innan árs og hins vegar varanlegu framsali aflaheimilda. Það er augljóst mál að því geta fylgt miklir kostir og verulegt hagræði vegna síbreytilegra aðstæðna innan greinarinnar að slíkir tilflutningsmöguleikar séu í gangi innan árs. En þeir verða auðvitað að vera á einhverjum viðráðanlegum kjörum og ég hef stórkostlegar efasemdir um að þeir séu margir sem nái það mikilli arðsemi út úr fiskveiðum að þeir geti greitt 44 kr. fyrir kg í leigu til þess eins að fá að veiða það. Og það væri ástæða til að inna hæstv. ráðherra og aðra talsmenn hæstv. ríkisstjórnar um það hvernig þessi 44 kr. tala var fundin og hvað menn hyggist gera ef verðið er lægra eða veiðiheimildirnar ganga ekki að öllu leyti út á þessu verði. Ég hef ekki séð eða heyrt svo ég muni neinn rökstuðning fyrir þessu.
    Ég hafði vænst þess, virðulegi forseti, að um þann þátt málsins, sem hefur nokkuð verið ræddur og það af fleirum en mér og lýtur að byggðahlið þessa máls, gæfist e.t.v. færi á að ræða í dag að viðstöddum hæstv. forsrh. þar sem hann heiðraði okkur ekki með nærveru sinni á Alþingi þann dag, ef ég man rétt, eða alla vega ekki á þeim fundi þegar Hagræðingarsjóðurinn var hér til umfjöllunar síðast. Ég beindi nokkrum spurningum almenns eðlis að hæstv. ríkisstjórn varðandi það hvað menn hugsa sér að standi undir þeim væntingum um starfsemi Byggðastofnunar á þessu sviði sem gefnar eru í skyn í greinargerð með frv. um Hagræðingarsjóð. Þar segir, eins og kunnugt er, í einni og hálfri línu, að í staðinn fyrir þær heimildir sem gildandi lög um Hagræðingarsjóð búa yfir og eru upp á að nýta megi helming af veiðiheimildum sjóðsins til aðstoðar byggðarlögum í erfiðleikum, að miklu eðlilegra sé að Byggðastofnun sinni slíku hlutverki. Það er kannski gott svo langt sem það nær en litlar útskýringar hafa komið á því með hvaða hætti eigi þá að efla Byggðastofnun og breyta verksviði hennar þannig að hún geti sinnt þessu mikla verkefni með sómasamlegum hætti sem þá væri verið að vísa til hennar. Þvert á móti hafa allar

upplýsingar sem enn hafa komið fram snúið að hinu gagnstæða, að draga allt afl úr Byggðastofnun og mergsjúga hana og breyta þannig starfsreglum hennar að hún yrði enn síður fær um að sinna sínu hlutverki, hvað þá að bæta við sig verkefnum, en verið hefur. En e.t.v. fáum við eitthvað að heyra um þetta, hæstv. forseti, áður en umræðunni lýkur. Sömuleiðis er rétt að minna á að í gangi er hér á þinginu umræða um byggðamál og væri alveg hægt að hugsa sér að þessar breytingar á skipulagi Hagræðingarsjóðs kæmi þar til skoðunar.
    Ég ætla þá ekki að hafa mín orð fleiri en ég veit ekki hvort það er skynsamlegt að hvetja hv. 17. þm. Reykv. til þess að fara í ræðustólinn, enda mátti hann lítið við bindast hér eftir að hann hafði flutt sína ræðu á tvöföldum hraða og hvarf úr þingsalnum, en ég hefði gjarnan viljað heyra hvað liggur að baki sérstökum fögnuði hans yfir því, eða átti að skilja hann svo, að fjármögnun rannsóknarstarfsemi af því tagi sem sinnt er á Hafrannsóknastofnun verði ekki lengur kostuð af hinu opinbera heldur færð yfir á herðar viðkomandi atvinnugreinar. Ég hef stórkostlegar efasemdir um slíkar breytingar og gæti farið um það mörgum orðum og rökstutt ítarlega ef menn hefðu áhuga á að hlýða á slíkt en sé svo sem ekki ástæðu til þess en ég verð að segja það að mér kom það á óvart að heyra þessi sjónarmið sem var frá hv. 17. þm. Reykv.