Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 14:27:00 (1450)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Út af þeim umræðum sem hér hafa farið fram væri vissulega ástæða til að fara nokkuð yfir þann málflutning sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Suðurl. um almennar ástæður í sjávarútveginum. En ég skal láta það vera við þessa umræðu þó að margt af því sem hann sagði sé þess eðlis að því þurfi að svara.
    En vegna þess sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan þegar hann talaði um að tekin hefði verið ákvörðun um það á sínum tíma að stofna þennan Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og það mætti líta á það sem ákvörðun um að leggja skatt á sjávarútveginn, þá er það svo að Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins var fyrst og fremst hugsaður til þess að hjálpa til við að minnka fiskiskipaflotann og jafnframt hafði sjóðurinn það hlutverk að koma til aðstoðar í einstökum tilvikum þar sem byggðarlög lentu í sérstökum vandamálum. En allar tekjur sjóðsins áttu að renna til þess að minnka fiskiskipaflotann fyrir sjávarútveginn sjálfan. Það er einnig skýrt í lögunum að sjóðurinn má aldrei eiga meira en 5% af heildaraflaheimildum og það var líka til þess heimild að lækka það hámark með reglugerð ef þannig stæði á að sjóðurinn hefði náð langt á þeirri braut.
    Ég vil líka geta þess að í ákvæði til bráðabirgða í lögunum, sem enn eru í gildi, er ákvæði til bráðabirgða II sem er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Sjávarútvegsráðherra skal fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þá endurskoðun.``
    Þetta er skýrt lagaákvæði og mér er nær að halda að það hafi ekki verið haft nægilega í heiðri. A.m.k. kannast ég ekki við það sem nefndarmaður í sjútvn. Alþingis að sérstakt samráð hafi verið haft við nefndina af því tilefni. Með þessu var verið að binda löggjöfina saman við endurskoðun fiskveiðistefnunnar almennt. Ekki er hægt að líta á það sem skatt á sjávarútveginn þegar farið er út á þá braut að minnka fiskiskipaflotann með sameiginlegum hætti. Talið var að ekki væri hægt að leggja slík útgjöld á hið opinbera og á engan hátt réttlætanlegt. Hins vegar þegar ákveðið er að taka tekjurnar til útgjalda, sem ríkissjóður hefur alltaf staðið undir, er verið að taka viðkomandi fjármagn til ríkissjóðs og það er að sjálfsögðu miklu nær skattheimtu. Því finnst mér undarlegar útskýringar hjá hv. stjórnarliðum að telja að vegna þess að ákvörðunin hafi verið tekin á sínum tíma sé þetta nánast allt í lagi og vitna ég þar til þeirra eigin orða og ætla ekki að hafa fleiri orð um það.
    Þá vildi ég aðeins koma inn á það sem hv. 17. þm. Reykv. Össur Skarphéðinsson sagði og er nokkuð athyglisvert. Hann hvatti mjög til þess að það hlutverk Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins að koma til aðstoðar við einstök byggðarlög yrði ekki lagt niður og lagði til að áfram yrði hægt að veita eitthvað sem hann kallaði forleiguheimildir. Jafnframt kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að hann gæti vel hugsað sér að slíkt hlutverk yrði tekið inn á nýjan leik. Þetta tel ég vera mjög jákvætt og sjálfsagt að athuga frekar í nefnd

hvað átt er við en ég vil minna á það sem reyndar er skýrt í lögunum að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að aflaheimildirnar gangi í öllum tilvikum á fullu markaðsverði. Aðstaða þessara byggðarlaga er mjög misjöfn og ef reikna á með því að það geti komið til hjálpar verður að gera ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum verði aflaheimildirnar seldar á lægra verði. Þar með fengi Hafrannsóknastofnun minni tekjur því að eins og frv. er hér sett fram, þ.e. að aflaheimildirnar eigi að selja í hlutfalli við aflaheimildir hvers og eins, virkar það í reynd alveg eins og skattur. Ég held að það verði að gera ráð fyrir því að flest veiðiskipin taki hlutdeild sína í aflanum og greiði fyrir það og með því eru þau aðeins að greiða til Hafrannsóknastofnunar og þess vegna má segja að það sé nánast óþarfi að fara í kringum þetta mál með þessum hætti og í reynd einfaldara að láta hvern og einn sem fær úthlutaðar aflaheimildir greiða ákveðið gjald með sambærilegum hætti að því er varðar veiðieftirlit. Á því er í reynd sáralítill munur. En ef tillaga er komin fram um það að taka upp svokallaðan forleigurétt, sem ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir hvað við er átt, á væntanlega að breyta þeim ákvæðum frv. er gera ráð fyrir því að hvert og eitt skip eigi rétt á aflaheimildum í hlutfalli við það sem það hefur fyrir og byggðarlögin fái forleigurétt í staðinn. Þá fer að sjálfsögðu mjög eftir því hvaða ákvæði sett eru um það hvernig það skuli gert. Ég held að niðurstaðan geti aldrei orðið önnur en sú að best sé að hrófla ekkert við lögunum og lofa þeim að sanna sig. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að málið er ekki einfalt og það eru vissulega framkvæmdaerfiðleikar eins og í mörgum öðrum málum og ekki verður allt séð fyrir. Mér finnst hins vegar skynsamlegast að lofa lögunum að gilda þar til skylt er að endurskoða þau samkvæmt ákvæðum núgildandi laga og alveg ástæðulaust og þarflaust að gera það um þessar mundir. Það ber að gera fyrir árslok 1992 þegar fiskveiðitefnan á að koma til endurskoðunar og þessi löggjöf er það stór þáttur í málinu almennt að það er óskynsamlegt að taka málið út úr með þessum hætti. Ekki er um svo stórar fjárhæðir að ræða sem ríkissjóður fær út úr málinu að það réttlæti að setja málið í hættu vegna slíkra upphæða. Hér er um allt of stórt mál að ræða, þ.e. stjórn fiskveiða almennt, til þess að ástunda slíkar æfingar.
    Hv. 17. þm. Reykv. taldi að ástæða væri til að styrkja skip sérstaklega til að fara til annarra landa og kemur það vissulega til greina. Hins vegar er mjög erfitt að ætla þessum sjóði að gera það sérstaklega nema að þau skip séu tekin út úr rekstri hér á landi. Þá er ekkert því til fyrirstöðu ef verið er að úrelda skipin að senda þau til annarra landa og þá yrði reyndar að taka þau út úr íslenska flotanum. Það er ekki verið að sækjast eftir því að eyðileggja skipin heldur fyrst og fremst að koma þeim til annarra verkefna og ef slík verkefni eru fyrir hendi í lögsögu annarra þjóða er það sjálfsagt mál. Hins vegar hefur ekki verið mikill áhugi á því hjá íslenskum útgerðarmönnum. Í einu tilviki var heldur slæm reynsla af því og viðkomandi aðilar fóru mjög illa út úr því fjárhagslega og er eðlilegt að það dæmi hafi hrætt menn nokkuð frá því að reyna slíka hluti á nýjan leik.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, virðulegur forseti. Ég fagna því að kominn er sá tónn í umræðuna að menn eru til viðtals um breytingar og ég endurtek þá skoðun mína að það eigi að leyfa þessari löggjöf að standa með sama hætti og hina löggjöfina og mér finnst ákvæði til bráðabirgða II styrkja mjög þá skoðun að það hafi verið ætlun Alþingis á þeim tíma að sú löggjöf stæði eins og þar er getið um. Af því að sérstaklega er vitnað til þess hvað menn ætluðust fyrir þegar það var gert hvet ég mjög til þess og við reynum að ná um það samstöðu að taka frv. til nefndar og gefum okkur góðan tíma í það. Ekkert liggur á. Ég vil vinna að því að hægt sé að ná samstöðu um það og ég hvet sérstaklega til þess að menn lofi málinu að bíða þar til í árslok 1992.