Þorskeldi

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 15:37:00 (1458)

     Össur Skarphéðinsson :
     Herra forseti. Ég er e.t.v. sá eini hérna inni sem hef próf í því að ala þorska þó ekki hafi það gefist mér vel á stjórnmálaferli mínum hingað til að kunna að höndla slíka fiska, a.m.k. ekki á þeim tíma sem ég var í sama stjórnmálaflokki og sá hv. þm. sem hér talaði skörulega á undan mér. ( RA: Þingmaðurinn er nú orðinn þingflokksformaður.) Vera má að það dugi eitthvað í hinum nýja flokki.
    En hér hefur hv. þm. Ragnar Arnalds hreyft afar þörfu máli. Hann er að flytja tillögu sem vekur athygli á því að það sé nauðsynlegt að Íslendingar haldi vöku sinni í þessu máli. Hitt er svo annað mál að sú tillaga sem hann flytur gengur e.t.v. fulllangt. Í henni felst að sjútvrh. og Hafrannsóknastofnun sé falið að hefja tilraunir með seiðaeldi í stórum stíl. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt að huga að þessu máli og jafnvel að hefja einhvers konar tilraunir en í dag er staðan sú að þetta mál hefur ekki gengið viðlíka vel og menn höfðu vonað í upphafi. Þess vegna tel ég að það væri auðvitað réttast að byrja

núna að safna saman þeim upplýsingum sem fyrir liggja mjög víða vegna þess að þetta mál er á því stigi tilrauna að í mjög mörgum háskólum og rannsóknastofnunum liggja fyrir upplýsingar sem ekki er búið að safna saman. Til að mynda hefur Hafrannsóknastofnun ekki fullkomið yfirlit yfir stöðu mála eins og hún er í dag.
    En mig langar að skjóta því að vegna þess að hv. þm. Ragnar Arnalds nefndi að það væru ýmsar aðrar kaldsjávartegundir eins og hlýri og steinbítur sem menn eru farnir að rækta. Þetta er hárrétt og þá vil ég geta þess að Íslendingar hafa þarna nokkra sérstöðu vegna þess að í hinu mjög svo merka sjávardýrasafni í Vestmannaeyjum voru menn fyrstir til þess að komast að raun um hvernig hrygningu hlýra og steinbíts var háttað og tóku það fyrstir upp á myndband. Þar var um verulega merkar rannsóknir að ræða hjá einum einstaklingi sem fyrst og fremst af áhuga sínum, en mjög litlum fjárframlögum hins opinbera, framkvæmdi afar merkar tilraunir.
    Rétt er það að þorskklak hefur verið afar lengi við lýði. Á því var byrjað fyrir einum 100 árum í Noregi. Og frá 1884 og fram undir 1970 var sleppt hvorki meira né minna en 10 milljörðum þorsklirfa, kviðpokaseiða, í Noregi. Í ýmsum fylkjum vestan hafs var sleppt enn meira. Það voru tugir milljarða seiða, kviðpokalirfa raunar, sem var sleppt. Þetta gaf enga raun. Það voru afskaplega góð gögn um þessar sleppingar en þegar árin 1920--1965 voru gerð upp með tölfræðilegum hætti, þá kom í ljós að þarna höfðu engin áhrif orðið á þorskgengd. Hins vegar var það upp úr 1970 sem Norðmenn hófu þorskeldi í innfjörðum og slepptu mun stærri seiðum, þ.e. seiðum sem höfðu náð 1 / 2 --1 grammi. Þeim gekk það býsna vel, fyrst og fremst vegna þess að þeir buðu þessum seiðum upp á náttúrulega fæðu, en þetta eldi var þeim annmarka háð að nauðsynlegt var að sía náttúrulegt fæði úr sjónum. Á þeim tíma þegar matarkista sjávarins brestur, þannig að það verður fall í náttúrulegum stofnum, þá brestur öflun slíkrar fæðu líka. Þannig að þetta eldi stendur og fellur með því að það takist að finna þurrfóður handa þessum ágætu skepnum.
    Það er rétt hjá hv. þm. Ragnari Arnalds að í Danmörku hafa staðið yfir merkar tilraunir, sem hafa fyrst og fremst verið á hendi aðila í útgerð og útvegi en ekki á hendi sérfræðinga. Þar hafa menn verið að klæða skurði með plasti og dæla þar í sjó úr tiltölulega hlýjum lónum með mjög mikilli fæðuframleiðslu. Þannig byrjaði það. Það gekk afskaplega vel. Síðan hafa menn einnig verið að beita þurrfóðri með þeim árangri, samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér í síðustu viku frá eldisstaðnum, Hvítasandi á Jótlandi, að því miður tókst afar illa til. Fyrsta árið byrjaði með því að hálf milljón kviðpokaseiða klaktist og 100 þúsund hálfsgrammsseiði náðust í júní. Af þeim voru 10 þús. sett út en obbinn af því sem eftir var dó þegar menn fóru að beita þurrfóðrun, þannig að enn er mjög langt í land.
    Við verðum auðvitað að gæta að því að ana ekki út í neitt sem er of viðamikið og of dýrt en ég tek undir að það er þarft að vekja máls á þessu og halda þessu vakandi. Ég tel hins vegar, án þess að ég vilji draga úr gildi þessarar tillögu, að hvað varðar fjárframlög ættu menn e.t.v. frekar að reyna að hlúa að þeim mjög merka vaxtarsprota sem er að finna hjá Fiskeldi Eyjafjarðar, þ.e. lúðueldinu, sem hefur tekist vonum framar.
    Mig langar að geta þess að í Noregi eru menn fyrst og fremst að efla þorskeldið til þess að sleppa í tiltölulega afmarkaða innfirði en við Íslendingar höfum lítið af slíkum hafsvæðum. Þeir standa því talsvert betur að vígi og þar eru líka staðbundnir þorskstofnar sem ég hygg að við höfum afar lítið af. Hvað kostnað varðar, þá er það svo að það kostar um 10 norskar kr. að framleiða eitt 10 gramma seiði. Talið er að í dag séu endurheimtur ekki nema 100 grömm pr. sleppt seiði. Eins og stofnkostnaðurinn er í dag, þá eru þetta 1.000 ísl. kr. á hvert kg sem kemur til baka. En það þýðir samt ekki að örvænta vegna þess að svona var þetta líka með ýmsar aðrar tegundir sem þingmaðurinn nefndi eins

og t.d. sandhverfu.
    Ég var sjálfur við það að þróa tækni til að ala sandhverfu og það tókst í Bretlandi á árunum upp úr 1980. Það var með mjög svipuðum hætti og þegar menn áttu gegnumbrot í lúðueldinu. Fyrsta árið voru það fimm seiði, næsta árið 20 þús. Nú er þetta ræktað í stórum stíl í Bretlandi, á eynni Mön t.d., og flutt flugleiðis til Suður-Evrópu og jafnvel til fjarlægra heimsálfa.
    Ég vil, herra forseti, mæla með því að þessi ágæta tillaga fái þinglega meðferð. Ég tel að hún sé þörf að því leyti til að hún vekur athygli á því að þarna er um að ræða möguleika sem íslensk stjórnvöld mega ekki láta fram hjá sér fara í framtíðinni en í bili er e.t.v. rétt að fara með mikilli gát og fyrsta skrefið ætti að vera það að safna saman öllum þeim upplýsingum sem eru til og koma þeim í hendur íslenskra vísindamanna.