Kirkjugarðsgjald og kirkjujarðir

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:42:00 (1463)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að tekið var faglega á því máli hvernig leysa skyldi þá skerðingu á kirkjugarðsgjöldum sem ákveðin var í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þjóðkirkjunni gerð grein fyrir því að sú skerðing félli niður við fjárlagagerð fyrir árið 1993.
    Hitt er allt annað og óskylt mál sem hv. fyrirspyrjandi vék hér að. Það er álit kirkjueignarnefndar sem legið hefur fyrir um nokkur ár án þess að á því væri tekið. Af minni hálfu hefur komið fram og ég hef beint því til kirkjunnar að eðlilegt væri að teknar yrðu upp viðræður á milli ríkis og kirkju um framkvæmd á þeim niðurstöðum sem fyrir liggja í áliti kirkjueignanefndar. Í því efni hef ég lagt á það áherslu að eigi að ná samningum þar um hljóti það að verða í tengslum við það markmið að kirkjan verði fjárhagslega sjálfstæðari en hún er í dag og taki að sér ný verkefni, til að mynda viðhald og umsjón prestsbústaða sem er dæmi um verkefni sem eðlilegt væri að kirkjan sjálf hefði með höndum. Viðræður af þessu tagi eru ekki hafnar en með hliðsjón af því að þetta álit liggur fyrir og hefur verið óhreyft í skúffum ráðuneytisins í nokkur ár þótti mér eðlilegt að hefja viðræður um það við kirkjuna. Engin fyrirheit hafa verið gefin fyrir fram um hver niðurstaðan eigi að verða frekar en í öðrum samningum sem fram fara.