Iðjuþjálfun misþroska barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:44:00 (1464)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :

     Virðulegi forseti. Ég vil beina fsp. minni til hæstv. heilbr.- og trmrh. Tilefni fsp. er nýútkomið fréttabréf Foreldrafélags misþroska barna. Þar er ályktað um iðjuþjálfun og þar segir svo:
    ,,Stjórn Foreldrafélags misþroska barna lýsir yfir áhyggjum sínum vegna hugmynda um að hætta öllum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir iðjuþjálfun misþroska barna.``
    Þannig er mál með vexti að hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra hafa fötluð og misþroska börn notið iðjuþjálfunar foreldrum sínum að kostnaðarlausu. Þessi iðjuþjálfun hefur verið greidd af Tryggingastofnun þó að ekki sé til staðar samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Félags iðjuþjálfara. En nú bregður svo við að tekið hefur verið fyrir greiðslurnar þannig að ekki hefur verið unnt að taka ný börn til þjálfunar hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra af biðlista sem telur nú um 150--200 börn. Ég ætla að spyrja heilbr.- og trmrh. hvort þetta sé gert með vitund og vilja hans eða að hans undirlagi.
    Í öðru lagi vil ég spyrja ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir að greiðslurnar hefjist að nýju hið fyrsta og tryggja að misþroska börn njóti þeirrar iðjuþjálfunar sem þau þurfa á að halda og er þeim mjög mikilvæg. Ég veit að það er ekki bara ég sem bíð eftir svörum frá ráðherranum við þessari fyrirspurn heldur ekki síður Foreldrafélag misþroska barna og iðjuþjálfar.