Tillögur um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:58:00 (1474)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. þetta takmarkaða svar en ætla enn að endurtaka spurningarnar vegna þess að annaðhvort hefur hann vikið sér undan að svara

þeim eða þá að hann hefur verið svo seinn að skrifa spurningarnar niður.
    Ég spurði: Hvað á fjmrh. við þegar hann ásakar hæstv. sjútvrh. um að hafa þjófstartað í þessu máli? Það kemur greinilega fram í viðtali við ráðherrann í blaðinu á sunnudaginn þar sem hann segir: ,,Það hefur þess vegna óheppileg áhrif ef fram koma ótímabærar tillögur um aðgerðir fyrir einstakar atvinnugreinar, án þess að það sé liður í heildaraðgerðum. Það er líka afar nauðsynlegt í þessari stöðu að ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins séu samferða í athöfnum sínum og allir beri ábyrgð á niðurstöðunni. Skilyrði þess að slíkt sé hægt, er að menn þjófstarti ekki.``
    Hvað átti ráðherrann við þegar hann ásakaði hæstv. sjútvrh. um að hafa þjófstartað í þessu máli?
    Í öðru lagi spurði ég: Hverjar af þessum tillögum, sem sjútvrh. hefur lagt fram, eru ekki tímabærar? Við því er alveg nauðsynlegt að fá svar. Er það ekki tímabært að mati ráðherrans að lækka raunvexti? Er það ekki tímabært að mati hæstv. fjmrh. að fresta afborgun lána inn í Byggðastofnun? Er það ekki tímabært að mati ráðherrans að lækka raforkuverðið? Og er það ekki tímabært af hálfu hæstv. fjmrh. að afnema aðstöðugjaldið? Við þessu verður að fást svar. Það svar sem hann gaf hér áðan um það hvenær tillögurnar verði birtar --- ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að þær yrðu sennilega ekki birtar fyrr en þær væru tilbúnar, eins og kom fram hjá ráðherranum. En auðvitað er spurningin til fjmrh. þessi: Hvenær er þá tímabært af hálfu ríkisstjórnarinnar, hvenær telur hún tímabært að leggja fram tillögur sem eru birtingarhæfar?