Tillögur um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:01:00 (1475)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. fyrir lesturinn en í þeim lestri, sem var upp úr viðtali við mig, komu fram svör sem þingmaðurinn verður að láta sér lynda.
    En vegna orða þingmannsins vil ég segja þetta: Það má gera ráð fyrir því að tillögurnar, sem fram koma, verði birtar fyrir miðjan þennan mánuð. Vegna einstakra atriða vil ég taka þetta fram: Það er í dag ekki verið að heimta inn afborganir úr atvinnutryggingardeild Byggðasjóðs.
    Í öðru lagi hefur verið ákveðið að leggja fram og verður gert næstu daga frv. um Verðjöfnunarsjóðinn sem gengur nákvæmlega í þá átt sem lýst var.
    Í þriðja lagi, eins og kom réttilega fram hjá hv. þm., var stungið upp á því að gjaldskrá yrði ekki hækkuð um áramótin og sú hækkun hefur ekki komið ef hv. þm. hefur ekki tekið eftir því.
    Í fjórða lagi snýr aðstöðugjaldið að sveitarfélögunum og þess vegna nauðsynlegt að hafa samstarf við þau um það atriði, enda er það gjaldstofn sveitarfélaganna og þau hafa nokkurt frelsi um álagningu aðstöðugjalda.
    Og loks gildir það um raunvextina, eins og ég veit að hv. framsóknarmenn hafa aldrei getað lært, að það er spurning um eftirspurn eftir fjármagninu. Það sem við erum að gera nú og skiptir langsamlega mestu máli og er langsamlega öflugasta efnhagsaðgerðin sem ríkisstjórnin mun standa fyrir er að afgreiða fjárlög með öðrum og betri hætti en gert hefur verið hingað til þannig að dregið verði úr lánsfjárþörf ríkisins og vöxtum náð niður með þeim hætti. Takist okkur það er það auðvitað sú efnahagsaðgerð sem skiptir sköpum.