Framkvæmd búvörusamnings

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:10:00 (1480)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvenær hann ætlar að leggja fram frv. með nauðsynlegum lagabreytingum til að ríkisstjórnin geti staðið við búvörusamninginn sem gerður var fyrr á þessu ári við Stéttarsamband bænda. Samkvæmt samningnum eiga bændur að byrja að fá beinar greiðslur úr ríkissjóði í stað niðurgreiðslna á búvörur fljótlega eftir áramót en engin lagaákvæði eru fyrir hendi um það enn þá. Hæstv. núv. landbrh. hefur þegar samið við bændur um stórfelldan niðurskurð á sauðfé í samræmi við ákvæði samningsins. Þá er spurningin: Er ljóst hvaða afleiðingar það hefði í för með sér fyrir bændur og ríkissjóð ef ekki væri unnt að standa við framhald hans? Vill hæstv. landbrh. fá landbn. til að flytja nauðsynlegt frv. og greiða þannig fyrir þingstörfum? Væntanlega er alger samstaða um þetta mál innan þingsins eins og sýndi sig þegar ákvæðin til staðfestingar samningnum voru samþykkt samhljóða á Alþingi á sl. vetri.