Umboðsmaður barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:34:00 (1486)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. 14. þm. Reykv., 1. flm. þessa máls, segir að hér er um gamlan kunningja þingmanna að ræða og hafa verið fluttar um málið langar ræður og það hefur einnig verið tekið til meðferðar í nefndum þingsins en ekki hlotið þar afgreiðslu. Ég tek aðeins til máls við þessa umræðu til að lýsa stuðningi mínum við frv., enda er ég meðflm. á því.
    Ég tel að við hv. þm. gefum okkur kannski helst til lítinn tíma til þess að ræða málefni barnanna í þjóðfélaginu. Ég hef látið þess getið áður í nokkrum orðum þegar ég tók til máls út af öðru máli sem snertir ungt fólk. Við erum allt of oft uppteknir í efnahagsumræðunni, sem er fyrirferðarmikil í hv. Alþingi, og gefum okkur ekki tíma til að gefa málefnum barnanna gaum.
    Ég tel að ef þetta embætti verður sett á fót, þá muni það leiða til þess að ákveðinn aðili í stjórnkerfinu líti á þessi mál sérstaklega. Þetta leysir að sjálfsögðu ekki öll vandamál. Það eru svo ótal margir þættir aðrir í þjóðfélaginu sem koma inn á málefni barna og gera þeim erfitt fyrir. Þetta frv. leysir auðvitað ekki allt en mundi þó verða til þess að þarna væri ákveðinn aðili, væntanlega sérfróður, sem liti á mál barna sérstaklega.
    Ég held að hv. þm. hefðu gott af því að líta um öxl. Ég geri það stundum þegar ég hugsa um þessi mál. Þegar ég var krakki sá maður aldrei þá hluti sem menn nefna peninga nú til dags. Ég held að ég hafi ekki séð þá, a.m.k. ekki stóra seðla fyrr en ég var kominn yfir fermingu. En eigi að síður get ég ekki annað en hugsað til þess hvað ég átti góða æsku. Ég vann alltaf með fullorðnu fólki. Ég fékk alltaf að borða á réttum tíma og það var alltaf fullorðið fólk heima, alltaf opið húsið. Maður hugsar oft til þessa þegar maður sér hvernig börnin hafa það í því allsnægtaþjóðfélagi sem við lifum í núna, þótt ég geri mér alveg grein fyrir misjöfnum aðstæðum manna.
    En lífshamingjan er ekki fólgin í stórum seðlum heldur í því að flýta sér kannski aðeins minna og gefa sér tíma til að sinna sínum nánustu. Auðvitað leysir þetta frv. ekki úr því. Það er hugarfarsbreyting sem verður að koma til en ég held að þetta frv. gæti leitt til þess að málefni barna yrðu rædd meira en nú er. Það er dæmigert, og ég hef oft vitnað til þess þegar þessi málefni hefur borið á góma, að við Íslendingar höfum ekki enn þá ráðið við það að koma skólamáltíðum á fót. Í hverju einasta atvinnufyrirtæki sem heiti hefur, og þar á meðal hér í hv. Alþingi, eru niðurgreiddar máltíðir fyrir fullorðið fólk en börnin þurfa að fara með brauðsneið í vasanum í skólann ef þau fara með nokkuð. Þetta er einkennileg þversögn í þessu þjóðfélagi þar sem hinir fullorðnu hafa veitt sér ýmislegt.
    Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Ég kom aðeins hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við frv. Ég vona að það fái enn einu sinni vandlega meðferð í hv. Alþingi, verði samþykkt og leiði til þess að málefnum barna þoki eitthvað áleiðis.