Umboðsmaður barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:53:00 (1490)

     Flm. (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls og tekið vel undir þetta frv. auk flm. Ég ætla að víkja aðeins að þeim athugasemdum sem hafa komið fram.
    Hv. 16. þm. Reykv. gerði athugasemd við að foreldrar eigi ekki fulltrúa í samstarfsráðinu og það er alveg hárrétt hjá honum. Ástæðan fyrir því var upphaflega sú að engin heildarsamtök foreldra voru til í landinu. Að þessu var svo sannarlega hugað en það voru einstök foreldrafélög til hér í Reykjavík og á einstaka stað í landinu en það þótti ekki þinglegt að hafa slík félög sem aðila í þessu ráði. Nú hafa Samband foreldra- og kennarafélaga og Foreldrafélag misþroska barna og einhver fleiri félög myndað samtökin Samfok. Ég skal játa að mér er ekki nógu kunnugt um það hverjir endanlega eiga aðild að þeim og ég vil því biðja hv. allshn. að huga að þessu þegar málið verður afgreitt því að auðvitað geta flm. ekki haft neitt á móti því að samtök foreldra eigi þarna aðild nema síður væri. En ég minnist þess að ég komst í vandræði með þetta vegna þess einfaldlega að þessi samtök voru ekki til þá. Og ég taldi þegar ég gekk frá þessu núna að Samfok væru kannski ekki alveg á landsvísu en ég skal játa að ég gáði ekki nógu vel að því og bið því nefndina að gera svo.
    Athugasemd hv. 6. þm. Reykv. hefur auðvitað heyrst áður og þessi ótti um að frv. skarist við lög um vernd barna og unglinga. Því er til að svara að ég tel að það sé alveg gengið frá því að barnaverndarmál séu ekki verkefni umboðsmanns barna. Umboðsmaður barna á að fylgjast með stjórnvaldsaðgerðum. Hann þarf ekki nauðsynlega að vera fagmaður í félagsráðgjöf eða barnasálfræði þannig að ég held það yrði frekar verkefni umboðsmanns að vísa til barnaverndarnefnda ef málið er þess eðlis. Við vitum það hins vegar öll að barnaverndarnefndir hafa svo til eingöngu fengist við vandamál sem upp hafa komið í fjölskyldum. Samkvæmt núgildandi lögum eiga barnaverndarnefndir vissulega að fylgjast með öllum mögulegum og ómögulegum málum í þjóðfélaginu sem snerta börn en eins og málum hefur verið fyrir komið hafa þær ekki gert það og ekki getað það. Ég held að þess vegna sé alveg nauðsynlegt, eins og hér var tekið fram, að fá embættismann sem sinnir þessu eingöngu. Og eins og hv. 2. þm. Austurl. tók fram áðan mundi slíkt embætti

vekja umræðu um málefni barna í landinu. Við höfum nærtæk dæmi um að svo hefur verið t.d. í Noregi síðan embætti umboðsmanns barna var stofnað þar og hefur gefið afar góða raun og ég held að enginn efist um að það hefur verið til bóta.
    Hins vegar höfum við ekki fengið á þessu þingi frv. til laga um vernd barna og ungmenna og ég hef áður lagt á það áherslu að það frv. verði lagt fram á þessu þingi því að skoðun mín er sú að mikil nauðsyn sé á því að endurskoða þau.
    Auðvitað mætti setja á langt mál, en ég mun ekki gera það, um kjör barna í þessu landi. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. 10. þm. Reykv. sagði hér áðan og raunir allir, eða a.m.k. hv. 2. þm. Austurl., að þrátt fyrir alla velferðina okkar er mér mjög til efs að börnunum okkar líði betur en okkur gerði sem ekkert áttum og ekkert höfðum. Ég held að börn séu afar öryggislaus í þessu velferðarþjóðfélagi okkar og þá ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu. Börn eru allt of mikið ein og börn upp að 8--9 ára eru ekki svo þroskuð að þau þoli að vera ein allan daginn og leysa öll sín vandamál sjálf.
    Hér hefur verið minnst á óhugnanlega slysatíðni barna og það er auðvelt að sýna fram á með skýrslum frá umferðarráði að slysatíðni barna er hærri hér á landi en nokkurs staðar á Norðurlöndum a.m.k. Það er auðvitað eðlilegt, umferðin er ekki gerð fyrir börn. Það er fyrst á allra síðustu árum að mönnum hefur dottið í hug að hafa hjólastíga eða göngustíga við nýjar aðalumferðaræðar og ein og ein undirgöng undir þjóðvegi í þéttbýli hafa verið gerð, en þetta er tiltölulega nýtt og allt of lítið auðvitað.
    Það er oft svo að mönnum finnst að svona mál séu hin mjúku mál, málefni fjölskyldunnar. Ég held að þetta sé ekkert mjúkt mál. Ég held að aðstaða ungra barnafjölskyldna í landi okkar sé hreint ekkert mjúkt mál, ég held að það sé grimmt og hart mál. Ungir foreldrar vinna allt of langan vinnudag. Þeir eru nauðbeygðir til að kaupa íbúð sem auðvitað ætti að leysa öðruvísi fyrstu búskaparárin. Þau dragast með milljónaskuldir frá fyrsta búskapardegi og vinnustaðirnir eru ekki í standi til að taka allt of mikið tillit til þess að foreldrar sem þar vinna þurfi að vera heima með börnum vegna veikinda eða ef barni skyldi líða eitthvað illa einn dag. Það er ekki gild afsökun fyrir foreldra fyrir að að mæta ekki til vinnu. Við sjáum þetta allt í kringum okkur, streituna sem þessu fylgir, óöryggið, skort á málþroska barna sem aldrei heyra fullorðnar manneskjur tala saman. Ég lái ekki örþreyttum smábarnaforeldrum, sem koma úr vinnu sinni milli kl. 5 og 7 og eiga þá eftir að kaupa inn og sækja börnin hingað og þangað, þó að þau séu ekki í skapi til að lesa fyrir börnin sín og leika við þau þangað til þau fara að sofa. Ég held að því miður sé þetta oft svona. Fólk reynir að gera það litla sem það kemst yfir og í stuttu máli verða börnin einfaldlega afgangs og ég held að það sé afskaplega hættulegt. Og það var auðvitað sláandi dæmi sem hv. 2. þm. Austurl. kom með hér áðan um niðurgreiddu máltíðirnar okkar, hinna fullorðnu á vinnustað. Börnin þurfa engan mat. Þau geta borðað eilífa súrmjólk ef þau borða nokkuð eða farið yfir götuna í næstu sjoppu og keypt sér kók og Prins póló sem ég held að sé því miður afar algengt. Ég vil minna hv. þm. á að ekki eru mörg ár síðan læknar við heilsugæslustöðvar borgarinnar ráku upp ramakvein við athugun á því hvort börnin væru sæmilega nærð, börnin í borginni okkar, og komust að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þetta er auðvitað ástand sem er óviðunandi og okkur öllum til vansa. Margt er okkur til vansa þessa dagana, hv. þm. og frú forseti.
    Það mætti taka dæmi eins og hv. 2. þm. Austurl. nefndi áðan. Öll reynum við að kenna börnunum okkar almennan þrifnað og einfaldar reglur eins og að þvo sér um hendurnar eftir notkun salernis. En hvað skyldu vera margar þær opinberar stofnanir þar sem börnin ná ekki upp í vaskana við salernin. Þetta hefur maður margsinnis rekið sig á og þegar gengið er um göturnar okkar hefur gleymst að hugsa um, ekki bara fatlaða, heldur einfaldlega fólk með barnavagna með nákvæmlega sömu þarfir. Það vill nefnilega þannig

til að það er öllum hagstætt að gera umferðina í borginni þannig úr garði eða umferðaræðarnar að allir komist um þær, ekki bara þeir sem hraustastir eru og ófatlaðir og barnlausir. Það mætti fara ofan í hvern einasta þátt þjóðfélagsins og komast að sömu niðurstöðu. Réttur barna er ekki virtur. Við skulum ekki fara út í hvernig fullorðnir umgangast börn af lítilsvirðingu og taka ekki mikið mark á þeim því miður, allt of oft. Vænti ég náttúrlega að þar séu margar undantekningar en það hefur nú einu sinni verið plagsiður að á þau er lítt hlustað, því miður. Ég get ekki stillt mig um að minnast á það, vegna þess að ég nefndi áðan að sorglega lítið væri af efni fyrir börn í sjónvarpi, útvarpi og öðrum fjölmiðlum, en verra er að það litla sem er er stundum á hálfgerðri tæpitungu og lýsir kannski svolítið hvernig fullorðið fólk lítur til barna.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki teygja lopann hér. Ég hef haldið svo margar ræður þessu frv. til stuðnings að ég skal hlífa mönnum við því frekar. En ég held að hér sé um að ræða mál sem við í fyrsta lagi, höfum efni á og mikið meira en það. Hér sé um að ræða mál sem er svo mikilvægt að jafnvel þótt við hefðum ekki efni á því yrðum við að gera það. Það er til lítils gagns að líta til framtíðarinnar og enn þýðingarminna að sitja við að leysa fortíðarvandann ef börnunum er gleymt. Framtíðin er falin í börnunum okkar og ég held að ef við sinnum ekki aðstæðum þeirra, þá sé til lítils barist hér á hinu háa Alþingi.