Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 15:09:00 (1492)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Samkvæmt frv. þessu er lagt til að fullvinnsla afla um borð í fiskiskipum verði háð sérstöku leyfi sem sjútvrn. veitir. Tilgangur þess að krefjast sérstaks leyfis er fyrst og fremst að tryggja að í hóp þeirra skipa sem stunda fullvinnslu um borð bætist ekki önnur skip en þau sem eru fær um að fullnægja eðlilegum kröfum til nýtingar, vörugæða og vinnuaðstöðu. Leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð verður hins vegar gefið út til allra þeirra skipa sem fullnægja almennum skilyrðum af þessu tagi. Því er ekki verið að leggja til opinbera takmörkun á útgáfu slíkra vinnsluleyfa. Engu að síður er líklegt að auknar kröfur muni hægja á þeirri þróun að fiskvinnslan flytjist út á sjó en á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú að vinnsla á sjávarafurðum hefur í vaxandi mæli flust um borð í veiðiskip. Af hálfu hins opinbera hafa ekki verið lagðar beinar hömlur við fjölgun þeirra fiskiskipa sem vinna afla um borð en gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að stuðla að aukinni aflanýtingu þessara skipa. Má í því sambandi einkum nefna störf aflanýtingarnefndar sem hóf starfsemi á árinu 1989.    
    Nefndin hefur einkum unnið að tveimur viðamiklum verkefnum. Í fyrsta lagi að bæta flakanýtingu um borð í frystiskipum og í öðru lagi kom nefndin á fót aflakaupabanka sem kaupir fisktegundir af fiskiskipum sem lítt hafa verið nýttar í því skyni að kanna og þróa markað fyrir þennan afla. Þrátt fyrir þessar aðgerðir og að margt hafi áunnist á síðustu árum hefur því verið haldið fram að ekki séu af opinberri hálfu gerðar nægar kröfur til nýtingar hráefnis og vinnsluaðstöðu um borð í þessum skipum.
    Á árinu 1990 voru rúmlega 108 þús. lestir af botnfiski frystar um borð í veiðiskipum. Þar af voru tæplega 42 þús. lestir af þorski eða rúmlega 12% af heildarþorskaflanum það ár. Hér er um hátt hlutfall botnfiskaflans að ræða og hefur þetta hlutfall farið hækkandi á undanförnum árum. Ástæða þess er einkum sú að afkoma flakafrystiskipa hefur verið mun betri en annarra greina sjávarútvegsins. Samkvæmt nýlegri athugun Þjóðhagsstofnunar á afkomu botnfiskveiða og vinnslu kemur fram að frystiskip voru rekin með um 15% hagnaði af tekjum miðað við rekstrarskilyrði í september 1991 en á sama tíma var útgerðin í heild rekin með um 8% hagnaði. Innlend fiskvinnsla var á sama tíma rekin með um 7,5% halla. Þessi afkomumunur getur því leitt til þess að fleiri aðilar muni hugleiða að láta breyta skipum sínum þannig að þau geti unnið aflann úti á sjó. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir að tiltölulega litlum skipum verði breytt í vinnsluskip, skipum sem telja verður að smæðar sinnar vegna séu varla fallin til slíkrar vinnslu ef gera á eðlilegar gæða- og nýtingarkröfur.
    Í sjútvrn. hafa lengi verið hugmyndir um að gera auknar kröfur til þeirra fiskiskipa sem vinna botnfiskafla um borð með það að markmiði að tryggja betri nýtingu þess afla sem um borð kemur og auka gæði afurðanna. Slíkar aðgerðir eru mikilvægar nú þegar nauðsynlegt hefur reynst að minnka þann afla sem leyfilegt er að veiða. Þá hafa menn jafnframt áhyggjur að versnandi afkoma fiskvinnslunnar muni leiða til versnandi atvinnuástands í landi ef hlutfall þess afla sem unninn er úti á sjó eykst frekar en nú er orðið. Með fullvinnslu er í frv. átt við að flökun eða flatning sé þáttur í vinnslunni. Lögin taka því ekki

til annarra vinnsluskipa t.d. þeirra sem heilfrysta botnfisk eða vinna rækju um borð. Um þessi skip gilda því áfram fyrirmæli núgildandi laga og reglugerða og þurfa þau eftir sem áður að fá tilskilin leyfi frá Ríkismati sjávarafurða.
    Samkvæmt frv. er óheimilt að fleygja fiski, fiskhlutum eða fiskúrgangi fyrir borð á fullvinnsluskipum og ekki verði veitt fullvinnsluleyfi nema aðstaða sé til að framfylgja kröfum um fullnægjandi nýtingu aflans. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með setningu reglugerðar til eins árs í senn að heimila að ekki sé nýttur tiltekinn fiskúrgangur, enda sé alls ekki að mati sérfræðinga unnt að nýta hann með arðbærum hætti miðað við vinnslu, tækni og markaðsaðstæður á hverjum tíma. Er gert ráð fyrir að byggt verði á mati sérfræðinga Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er teknar verða ákvarðanir varðandi veitingu fullvinnsluleyfa.
    Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum árum í allri fullvinnslutækni, ekki síst um borð í fiskiskipum. Á sama tíma hafa opnast nýir möguleikar til nýtingar ýmissa aukaafurða og er ljóst að slíkir möguleikar eru ekki fullkannaðir enn þá. Geta því boðist ýmsir nýir kostir sem ekki eru fyrir hendi í dag. Kröfur til fullvinnsluskipa geta því tekið breytingum miðað við þá þróun sem verður í vinnslutækni og breytingar sem verða á möguleikum til markaðssetningar ýmissa tegunda fiskafurða.
    Þá verða samkvæmt frv. gerðar kröfur um að aðstaða í móttöku, vinnslurásum og afurðageymslum fullvinnsluskipa sé með þeim hætti að gæði afurðanna séu fulltryggð. Um þetta verða sett nánari ákvæði með reglugerð, t.d. um að í fiskmóttöku þurfi að vera nægjanlegur fjöldi blóðgunarkara til að flokka aflann eftir tegundum. Þá er gert ráð fyrir að gerð verði krafa um kælda fiskmóttöku. Til að tryggja umsjón og eftirlit með gæðum um borð í fullvinnsluskipum er lagt til að sérstakur matsmaður verði um borð í öllum veiðiskipum sem leyfi fá til fullvinnslu botnfiskafla um borð. Gerðar verði tilteknar menntunarkröfur til matsmanna og kveðið verður á um starfssvið þeirra í reglugerð. Verða gerðar sömu kröfur til matsmanna um borð í fullvinnsluskipum og matsmanna í frystihúsum. Ákvæði 10. gr. laga nr. 53/1984, um Ríkismat sjávarafurða, kveður á um að sjútvrn. löggildi þessa menn að fenginni umsögn fiskmatsstjóra. Þeir skulu hafa sótt námskeið fyrir fiskmatsmenn en þeir sem lokið hafa prófi fiskiðnaðarmanna skulu að öðru jöfnu njóta forgangs til löggildingar.
    Í frystihúsum eru nær undantekningarlaust lærðir fiskiðnaðarmenn í þessum störfum. Svo hefur til þessa ekki verið um matsmenn um borð í vinnsluskipum. Hafa verið haldin stutt námskeið fyrir þá og þeim veitt tímabundin löggilding þar sem útgerðum hefur ekki reynst kleift að fá matsmenn sem lokið hafa tilskildu námskeiði.
    Sjútvrn. tekur afstöðu til veitingar leyfis til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipi eftir að Ríkismat sjávarfurða hefur lagt faglegt mat á það hvort öllum skilyrðum til fullvinnslu sé fullnægt. Auk þess skal liggja fyrir mat Siglingamálastofnunar ríkisins á því hvort reglum um öryggisbúnað varðandi fiskvinnslu og aðbúnað áhafna sé fylgt áður en ráðuneytið tekur afstöðu til veitingar vinnsluleyfis.
    Með frv. er lagt til að eftirlit um borð í fullvinnsluskipum verði mjög aukið frá því sem verið hefur. Í fyrsta lagi er kveðið á um að eftirlitsmaður verði um borð fyrstu sex mánuðina eftir að fullvinnsluleyfi hefur verið veitt í fyrsta sinn. Í öðru lagi er stefnt að því að auka almennt eftirlit um borð í skipum sem leyfi fá til fullvinnslu um borð og er lagt til að útgerðir viðkomandi skips greiði allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð, þar með talin laun þeirra.
    Í gildandi lögum eru ýmis ákvæði sem heimila ráðuneytinu að kveða á um meðferð og nýtingu afla. Má í þessu sambandi einkum nefna lög nr. 81 frá því í maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lög um Ríkismat sjávarafurða. Jafnframt er í 16. gr.

laga nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, ákvæði sem lúta að sérstökum vinnsluskýrslum um borð í skipum sem vinna afla um borð og eru þær vinnsluskýrslur undirstaða við mat á því hvernig aflakvóti er nýttur um borð í þeim skipum. Á grundvelli ofangreindra laga hafa verið gefnar út tvær reglugerðir sem m.a. lúta að vinnslu afla um borð. Reglugerð nr. 48 frá 10. des. 1990 tekur til mælinga á vinnslunýtingu um borð í vinnsluskipum og reglugerð nr. 205 frá 29. apríl 1991, um nýtingu aukaafurða, segir að fullvinnsluskip skuli hirða allan afskurð sem til fellur við snyrtingu þorsk-, ýsu- og ufsaafla um borð í frystiskipum. Þessar lagaheimildir eru út af fyrir sig fullgildar til þess að setja frekari almennar reglur um meðferð og nýtingu afla, þar á meðal varðandi fullvinnsluskipin.
    Með frv. þessu er engu að síður lagt til að sett verði sérstök löggjöf um fullvinnsluskip. Með því fyrirkomulagi næst heildaryfirsýn yfir alla þætti sem máli skipta áður en ákvörðun er tekin um veitingu fullvinnsluleyfis. Þannig liggur fyrir mat á nýtingarferli vinnsluskips, mat á aðstöðu með tilliti til gæða afurða, mat á rými og aðstöðu fyrir áhöfn og mat á öryggisbúnaði. Það liggur fyrir að skip þau sem nú stunda fullvinnslu eru mjög misvel í stakk búin til þess að mæta auknum kröfum um nýtingu afla. Eru fáein þeirra þegar að mestu hæf til að mæta þeim kröfum. Önnur þurfa aftur á móti að gangast undir verulegar breytingar og jafnvel stækkun. Væri því eðlilegt að athugað yrði hvort rýmka þyrfti reglur um stækkun skipa ef í ljós kæmi að ekki væri hægt að mæta auknum kröfum um nýtingu án þess að skip væru stækkuð.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að sömu kröfur verði gerðar til nýtingar afla hjá öllum þeim skipum sem aðlögunarfrest fá til 1. sept. 1996 og er fresturinn ákveðinn svo langur vegna þeirra skipa sem mest þarf að breyta. Jafnframt er lagt til að eftir 1. sept. 1996 verði gerðar sömu kröfur um nýtingu afla til allra fiskiskipa sem leyfi fá til fullvinnslu afla um borð.
    Með frv. þessu er lagt til að auknar kröfur verði gerðar til nýtingar á afla þeirra fiskiskipa sem fullvinna botnfiskafla um borð. Tilgangur frv. er að bæta nýtingu og umgengni um fiskveiðiauðlindina. Þrátt fyrir að þetta frv. nái eingöngu til takmarkaðs hluta fiskiskipaflotans er stöðugt unnið að þeim markmiðum sem sett eru fram með þessu frv. varðandi önnur fiskiskip í flotanum. Framtíðarmarkmiðið hlýtur að vera að þær kröfur verði gerðar til allra fiskiskipa í íslenska flotanum að koma með allan fisk og fiskúrgang að landi. Í því skyni að auka nýtingu og gæði afla um borð í ísfiskskipum mun aflanýtingarnefnd á næsta ári vinna að sérstöku verkefni fyrir þessi skip með svipuðu sniði og gert hefur verið fyrir flakafrystiskipin.
    Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.