Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 16:44:00 (1502)

     Árni R. Árnason :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir orð margra hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og fagna þessu frv. og því verki sem þar er hafið starf við og ég hlýt að taka undir þau orð einnig, hví það hafi ekki komið fram fyrr, en ég verð þó að viðurkenna að sá sem því hefði kunnað að svara er ekki staddur í salnum.
    Hér er á ferðinni tilraun til þess að taka á ákveðnum verkefnum sem blasa við í fiskvinnslunni, í stjórn fiskveiða og vinnslu, ákvæðum sem mundu móta rekstarumhverfi vinnslunnar á sjó sem í raun hefur ekki verið mótað, þ.e. með kröfum um gæði afurða, um gæðastýringu, um eftirlit með vinnsluferli, um veiðieftirlit, um nýtingu auðlindar eða umgengni við hana, um aðstöðu til ýmissa aðgerða í vinnsluferlinu og álagið á starfsmenn. Ákvæði af þessu tagi eru öll fyrir hendi við vinnslu í landi, en skortur á þessum ákvæðum hefur leitt til þess að á tiltölulega fáum árum hefur myndast það sem einn hv. þm. kallaði skriðu, skriðu tilhneiginga til að breyta fiskiskipum til þessarar vinnslu. Það er miður ef svo langt er látið ganga að við gerum ekki eðlilegar kröfur um öryggi starfandi manna og um nýtingu auðlinda sem við teljum að allir eigi en séu ekki eign einhverra fárra.
    Oft hefur verið bent á að þrátt fyrir virðingu okkar allra, vissulega, fyrir sjómönnum og þeirra starfi, séu þær upplýsingar yfirgnæfandi sem benda til þess að einmitt þessir togarar séu tiltölulega stórtækir í að nýta ekki allan þann afla sem um borð kemur, nýta hugsanlega ekki allar þær fisktegundir sem veiðast, afskurð, hausa, hryggi eða annan úrgang sem myndast við vinnsluna en aðrar vinnslustöðvar ná vissulega miklum og verðmætum afurðum út úr.
    Nokkrar spurningar hafa komið fram í umræðunni og verður þeim væntanlega svarað í lok hennar og síðan kemur til fastanefndar að móta frv. öllu frekar. Ég er sannarlega tilbúinn að taka þátt í þeirri vinnu, en ég nefni þó, vegna þess sem fram hefur komið, að í grg. með frv. er gerð grein fyrir því að til matsmanna verði gerðar sambærilegar kröfur um hæfni og kunnáttu og gerðar eru í vinnslustöðvum í landi sem er gert að skyldu að hafa matsmenn, jafnvel eins og í frystingu, sem hefur matsmenn við stjórn vinnslunnar.
    Ég tel líklegt að með frv., þegar því verður framfylgt, muni koma fram viss jöfnun á starfsmöguleikum eða starfsumhverfi vinnslu í landi og á sjó með þessum kröfum um gæði, um nýtingu, en samt sem áður tel ég að menn muni líka sjá að þessar vinnsluaðferðir, hver um sig, muni starfa áfram samhliða og væntanlega muni hvort tveggja, vinnsla í landi og á sjó, gera okkur fært að sækja ýmsa ólíka markaði sem krefjast ólíkrar vöru.
    Mig langar að varpa fram einu atriði til viðbótar sem mér virðist við hefðum fyrir löngu síðan mátt koma á framfæri í umræðu um starf þessara skipa, þ.e. hugsanlegum verkefnum eða hlut þeirra í atvinnuþróun í fiskvinnslu og veiðum við að leita nýrra nytjastofna, að rannsaka ný veiðisvæði eða nýjar afurðir. Ég vænti þess að upp verði tekið samstarf í gegnum fiskveiðastjórn, í gegnum stjórn þessarar starfsemi, fiskvinnslu, fullvinnsluskipanna, að þau hafi samstarf við rannsóknastofnanir, líkt og flestum öðrum greinum í sjávarútvegi er nánast skylt að gera. Ég vænti þess að með starfsemi af þessu tagi sjáum við betur en ella þá þjóðhagslegu hagkvæmni sem við höfum af vinnslu í landi en án vinnslunnar í hafi mundum við varla geta lagt á hana þann mælikarða. Við gætum vissulega metið fjölda ársverka, við gætum metið hvernig við stöndum í samanburði við aðrar þjóðir en ekki fengjum við samanburð landvinnslu og sjóvinnslu. En leggjum við svo hart að fiskvinnslunni að önnur hvor hverfi hygg ég að illa verði að staðið. Ég tek undir það að við þurfum að eiga þessa vinnslu starfandi saman, allar þessar greinar, og vænti þess að það fáum við með þessum lögum þegar af verður.