Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 16:57:00 (1505)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Aðeins örstutt vegna orða hv. síðasta ræðumanns. Það er engin tilviljun að störf hafa færst úr fiskvinnslu og störfum hefur fækkað verulega á undanförnum árum í ákveðnum greinum um allt 20%. Ég tel að ekkert hafi fram komið, hvorki í hans máli né hjá öðrum, sem hnekkir þeim orðum okkar kvennalistakvenna að ef byggðirnar -- því við verðum að athuga að sveitarstjórnarmenn eru ekki annað en þeir menn sem íbúar byggðanna velja sér til forustu og til að gæta hagsmuna sinna --- hefðu ráðstöfunarrétt á kvóta þá væri gætt atriða eins og atvinnu í landi og ýmissa annarra þátta betur heldur en nú er gert. Ég er alveg sannfærð um að við byggjum við annað atvinnuástand víða um land ef byggðakvóti hefði verið tekinn upp þegar við kvennalistakonur lögðum það til.