Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:14:00 (1508)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög. Ég fagna mjög þeirri yfirlýsingu sem hæstv. sjútvrh. hefur gefið í þessum umræðum um þær reglur sem gilda skulu í framtíðinni varðandi fyrirgreiðslu við nýsmíði frystiskipa. Hér hefur hann beitt sér fyrir mjög þörfu máli og komið til móts við skoðanir afar margra í sjávarúvegi og okkar sem erum áhugamenn um sem besta og hagkvæmasta framvindu þeirrar atvinnugreinar. Ég er líka sammála honum um að stjórn Fiskveiðasjóðs hefði átt að grípa í taumana fyrr.

    En aðalástæða fyrir því að ég kem hér upp eru ummæli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar vegna fyrri ræðu minnar í dag. Ég hygg að hann hafi misskilið lítillega það sem ég sagði um verð á frystum og ferskum afurðum. Staðreyndin er sú að miðað við þær nýjustu upplýsingar sem ég hef frá aðilum sem stunda sölu á flakamarkaðinn í Bretlandi, þá er verðið núna á flökum með roði 270 kr. fyrir landfryst þorskflök, 330 kr. fyrir sjófryst þorskflök og fyrir fersk þorskflök eru það um 520 kr. þegar best lætur, í þau fáu skipti sem okkur tekst að vera í hinum svokallaða ,,excellent``-flokki. Það tekst okkur afar sjaldan en fyrir það sem við hér heima köllum 2. flokk þá er verðið um 470 kr. Þingmönnum til upplýsingar þá vil ég geta þess að í afar merkri till. til þál. um mótun fiskvinnslustefnu sem Kristinn Pétursson, Guðmundur H. Garðarsson, Ingi Björn Albertsson og Matthías Á. Mathiesen lögðu fram á 113. löggjafarþingi, koma líka fram á bls. 9 merkar upplýsingar um þessa þróun. Þar er sagt að fersk flök séu þá, miðað við desember 1990, 420 kr. kg, sjófrystu flökin 330 kr. eins og er enn þá og landfrystu flökin enn þá 270 kr. Ástæðan fyrir því þá að menn sáu svo mikinn ávinning í sjófrystingunni var m.a. sú að á þessum tíma var, og er reyndar enn, tollur á ferskum afurðum, sé miðað við t.d. 420 kr. sem var í desember 1990, 76 kr. Þá þurfti líka að borga u.þ.b. 35--45 kr. í frakt fyrir flugið á markaðinn. Þannig að fraktin og tollurinn gerðu það að verkum að það var ívið hagkvæmara að snúa sér að sjófrystingunni. Nú er þetta að gerbreytast með þeim samningum sem ég vona að takist um Evrópskt efnahagssvæði og þá er við því að búast að menn muni í hraðvaxandi mæli fara yfir í að selja flökin fersk og það kann e.t.v. að dæma frystitogarana úr leik á örfáum árum.