Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:17:00 (1509)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur verið mjög athyglisverð og margt af skynsamlegum hugmyndum komið fram í henni. En ég kvaddi mér hljóðs til þess að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þá lýsingu sem hann gaf undir lok seinni ræðu sinnar á samskiptum sínum við stjórn Fiskveiðasjóðs síðustu daga. Ég tel það vera mikil og góð tíðindi að hæstv. sjútvrh. skuli hafa haft frumkvæði að því að beina sjóðnum inn á réttari brautir með þeim hugmyndum sem hann lýsti hér áðan. Þetta eru skynsamlegar tillögur og vonandi verður stjórn Fiskveiðasjóðs við þeim. Að vísu hefur reynslan stundum á undanförnum árum verið sú að stjórn Fiskveiðasjóðs hefur viljað vera ærið sjálfstæð og oft ekki viljað hlusta á skynsamlegar ábendingar. En ég vil láta í ljósi hér þá von að stjórn Fiskveiðasjóðs verði við tillögum hæstv. sjútvrh. hið fyrsta þannig að þær geti orðið öruggur grundvöllur fjárfestinga og starfsemi á þessu sviði á næsta ári og reyndar næstu árum. Það er vissulega ánægjulegt að það skuli koma fram skynsamlegar hugmyndir af þessu tagi og þegar þeim var lýst fyrir þinginu, sem ég hef ekki orðið var við að hafi verið gert áður, má þó vera að þetta hafi komið fram áður, fundust mér þetta vera hin merkustu tíðindi og vildi láta í ljósi eindreginn stuðning við þessar hugmyndir.