Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:20:00 (1510)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

     Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Verði þetta frv. að lögum koma þau í stað laga nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi. Með frv. þessu eru felld í ein lög þau ákvæði er lúta að fiskveiðum erlendra veiðiskipa við Ísland og heimildum erlendra aðila til eignarhalds í útgerð. Meginbreyting þessa frv. frá gildandi rétti er að erlendum veiðiskipum verður almennt heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað þjónustu fyrir skipið.
    Lög nr. 33/1922 voru fyrstu heildarlög um takmarkanir á rétti erlendra aðila til fiskveiða við Ísland. Við samþykkt laga nr. 33/1922 var landhelgin við Ísland aðeins 3 sjómílur og fylgdi línan fjörumarki í flóum og fjörðum ef lengra var milli stranda en 10 sjómílur. Við þessar aðstæður var augljós nauðsyn þess að koma í veg fyrir að erlendir aðilar gætu notað íslenskar hafnir og stundað þaðan veiðar og vinnslu á þeim fiskstofnum sem Íslendingar nýttu. Eftir fyrri heimsstyrjöldina jókst mjög ásókn erlendra aðila til veiða á Íslandsmiðum og fóru einkum vaxandi síldveiðar Norðmanna í landhelgi og síldarsöltun þar í landi. Voru lögin sett til að sporna við þessari þróun. Lögin voru afar ströng í garð útlendinga og var erlendum skipum í raun meinuð öll vera í íslenskri landhelgi nema í neyðartilvikum. Lög nr. 33/1922 settu takmarkanir við eignaraðild erlendra aðila að veiðum og vinnslu. Var íslenskur ríkisborgararéttur gerður að skilyrði fyrir því að reka fiskveiðar innan landhelgi og verka aflann þar eða á landi. Hlutafélögum var óheimilt að reka fiskveiðar nema meira en helmingur hlutafjár félagsins væri í eigu íslenskra ríkisborgara og stjórn þess skipuð íslenskum ríkisborgurum og a.m.k. helmingur þeirra búsettur í landinu. Hlutafélög höfðu hins vegar rétt til að reka bæði fiskveiðar og fiskvinnslu í landhelgi væri allt hlutafé í eigu íslenskra ríkisborgara. Ekki var kveðið sérstaklega á um hlutafélög sem eingöngu ráku fiskvinnslu er leiddi til þess að óvissa var um rétt þeirra til reksturs vinnslu.
    Sjútvrn. hefur ávallt litið svo á að lög nr. 33/1922 bönnuðu einnig erlendum hlutafélögum að reka eingöngu fiskvinnslu hér á landi, þar með talið í landhelgi Íslands.
    Með lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, var fyrst sett almenn löggjöf um erlenda fjárfestingu. Með þessum lögum ásamt, lögum nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum á þessu sviði, var með öllu tekið fyrir eignaraðild útlendinga í hlutafélögum er reka útgerð. Var 1. og 2. gr. laga nr. 33/1922 breytt að þessu leyti.
    Einnig er ótvírætt kveðið á í lögum nr. 34/1991 um rétt erlendra aðila til fjárfestinga í fyrirtæki er rekur vinnslu sjávarafurða. Er erlendum aðilum ekki heimil eignaraðild að fyrirtækjum sem stunda frumvinnslu. Með frumvinnslu er átt við frystingu, söltun, niðursuðu, herslu, reykingu, niðurlagningu, súrsun og hverja aðra verkun sem ver aflann skemmdum og þar með talin bræðsla og mjölvinnsla. Erlendum aðilum er því eingöngu heimiluð eignaraðild að fyrirtækjum sem vinna að frekari vinnslu afurða til að gera þær hæfari til dreifingar neyslu og matreiðslu.
    Ákvæði laga nr. 34/1991 og laga 23/1991 varðandi eignaraðild erlendra aðila í rekstri, fiskveiðum og fiskvinnslu eru tekin upp efnislega óbreytt í 1. og 2. gr. þessa frv.
    Lög nr. 33/1922 hafa ávallt verið túlkuð rúmt og auk þess hafa verið gerðar lagabreytingar til að rýmka nokkur ákvæði þeirra.
    Með lögum nr. 30/1969 var sjútvrh. til að mynda heimilað að leyfa vinnslu- og verkunarstöðvum að kaupa afla af erlendum skipum í íslenskum höfnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þótti það eðlilegt í ljósi nýrra viðhorfa í alþjóðasamskiptum og með tilliti til frjálsari samskipta við aðrar þjóðir. Í raun hefur framkvæmd þeirra mála verið sú að erlend veiðiskip hafa almennt fengið leyfi til að koma til hafnar á Íslandi. Í hvert skipti hefur þó þurft að sækja um sérstakt leyfi til ráðuneytis. Ekki hefur verið heimiluð löndun úr erlendum skipum en grænlensk rækjuveiðiskip hafa haft slíka heimild samkvæmt sérstöku samkomulagi sem hefur gilt frá árinu 1980.
    Forræði Íslendinga yfir fiskstofnum við landið hefur aukist verulega frá 1922 vegna stækkunar fiskveiðilögsögunnar. Engu að síður eru nokkrir mikilvægir fiskstofnar að hluta til utan íslenskrar efnahagslögsögu. Má þar nefna karfa, úthafsrækju og loðnu. Ósamið er um skiptingu á karfastofninum og úthafsrækjunni en þríhliða samkomulag er í gildi milli Íslands, Grænlands og Noregs um nýtingu loðnustofnsins. Á því skal vakin athygli að það samkomulag fellur úr gildi í maí 1992 og enn óvíst um framlengingu þess. Fullyrða má að ástand karfa- og rækjustofnsins væri mun lakara hefði erlendum veiðiskipum verið leyft að gera út frá íslenskum höfnum frá öndverðu. Almenna reglan hefur því verið sú að erlend veiðiskip gátu fengið leyfi til að leita hafnar og fá alla nauðsynlega skipaþjónustu aðra en löndun á afla. Hins vegar hefur það verið metið hverju sinni hvort skip hafi verið að veiðum úr þeim fiskstofnum sem teljast vera sameiginlegir öðrum þjóðum og ekki hefur verið samið um nýtingu á. Í þeim tilvikum hefur leyfi að jafnaði ekki verið veitt.
    Með frv. þessu er í 3. gr. gert ráð fyrir að sjútvrh. sé heimilað að takmarka heimildir til erlendra veiðiskipa til að landa eigin afla og sækja þjónustu til hafna í þeim tilvikum að þau hafi verið að veiðum úr þessum sameiginlegu fiskstofnum. Má í þessu sambandi benda á að í samningum EFTA-ríkja um fríverslun með fisk er gert ráð fyrir að beita megi undantekningu frá löndunar- og viðskiptafrelsi varðandi sameiginlega stofna sem samkomulag hefur ekki náðst um skiptingu á. Í samningsdrögum um Evrópskt efnahagssvæði er einnig að finna hliðstætt ákvæði. Að öðru leyti er með frv. þessu mörkuð sú meginregla að erlendum veiðiskipum er frjálst að leita til hafna á Íslandi og landa þar afla. Það skal tekið fram að þetta frv. á ekki að koma í veg fyrir að erlent skip sem veiði stundar úr sameiginlegum stofnum geti leitað til hafnar í neyðartilvikum og fengið nauðsynlega þjónustu til að halda áfram ferð sinni.
    Í 4. gr. frv. er kveðið á um að erlend veiðiskip tilkynni hlutaðeigandi hafnaryfirvöldum um komutíma til hafnar, hvaða veiðar skipið stundaði og hvers konar þjónustu óskað er eftir. Með ákvæði þessu er ekki verið að þrengja almenna heimild 3. gr. frv. heldur er þetta í raun í samræmi við þá venju sem skapast hefur þegar skip hafa fengið leyfi til að koma til hafnar. Öll erlend veiðiskip sem hingað koma hafa íslenska umboðsmenn sem upplýsa þau um þau atriði sem krafist er í 4. gr. Slíkar upplýsingar eru til hægðarauka fyrir hafnaryfirvöld og aðra aðila. Tilkynning um komutíma er m.a. nauðsynleg vegna tollskoðunar. Útvega þarf skipinu hafnarlægi og nauðsynlegt er að geta gert ráðstafanir ef skipið þarf að landa afla eða sækja olíu.
    Skylt er skv. 4. gr. að tilkynna um veiði skipsins og veiðisvæði. Ástæða þessa er augljós því slíkar upplýsingar eru forsenda þess að unnt sé að meta hvort skipið hafi verið að veiðum úr þeim sameiginlegu stofnum sem ósamið er um, eins og getið er um í 3. gr. frv.
    Í 5. gr. er lagt til að heimilt verði með milliríkjasamningum að víkja frá banni 1. gr. um veiðar og vinnslu erlendra skipa í efnahagslögsögu Íslands með sama hætti og verið hefur hingað til.
    Í gildi eru nokkrir milliríkjasamningar sem veita skipum annarra ríkja heimildir til veiða í efnahagslögsögunni. Má þar nefna samninga við Belga og Færeyinga þar sem þessum þjóðum er veittur einhliða réttur til veiða hér við land. Þá má nefna að samningur er í gildi við Noreg sem gerir ráð fyrir gagnkvæmum veiðiheimildum. Þessi samningur hefur ekki komið til framkvæmda. Að lokum má nefna þríhliða samning Íslands, Noregs og Grænlands um nýtingu loðnustofnsins þar sem fiskiskipum frá þessum þjóðum er veitt heimild til að stunda loðnuveiðar með ákveðnum takmörkunum innan efnahagslögsögu viðkomandi landa.

    Með frv. þessu er ekki gert ráð fyrir að hróflað sé við gildandi samningum á þessu sviði og þykir eðlilegt að heimild fyrir milliríkjasamningum sé áfram fyrir hendi. Það verður hins vegar að meta hverju sinni hvort slíkir samningar teljast okkur til hagsbóta.
    Herra forseti. Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir aðalatriðum þessa frv. Hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða. Í því felast raunar litlar breytingar frá gildandi lögum og venjum. Hins vegar er þessi lagaákvæði að finna í ýmsum lögum sem sum hver eru að hluta til úrelt. Þykir rétt að kveða skýrt á um jafnmikilvægt mál í einum heildstæðum lögum. Veigamesta breyting þessa frv. felst, eins og áður segir, í rýmkun á heimildum erlendra skipa til löndunar á afla. Er það í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað á alþjóðlegum vettvangi. Má ætla að þessi rýmkun geti aukið komur erlendra veiðiskipa til landsins en því fylgja óhjákvæmilega aukin viðskipti. Þá er ekki síður mikilvægt á tímum minnkandi aflaheimilda að íslenskum fiskvinnslustöðvum gefist auknir möguleikar á hráefniskaupum af erlendum veiðiskipum. Má í því sambandi nefna að sovésk veiðiskip hafa að undanförnu sýnt aukinn áhuga á sölu afla hér við land.
    Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.