Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:30:00 (1511)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir flutning þessa frv. Hér er stefnt í frjálsræðisátt og ég er sannfærður um að þetta frv. getur orðið til þess að efla íslenskan skipaiðnað og aðra þjónustustarfsemi hér á landi.
    Ég hafði um nokkur ár flutt frv. þar sem tekið var á þessu máli og ákveðnum þjóðum ætlaður meiri réttur en íslensk lög höfðu áður veitt þeim og átti ég þá við Grænlendinga og Færeyinga. Það frv. náði ekki afgreiðslu í efri deild þingsins en hafði verið samþykkt í neðri deild í það minnsta tvisvar. Vissulega er enn inni það ákvæði að sjútvrh. hafi þó heimild til takmarkana ef ekki hafa náðst samningar um veiðar á nytjastofnum við þá aðila sem hér landa. Ég er samt þeirrar skoðunar að sjútvrh. eigi að fara mjög varlega með þetta vald því að það eru fleiri sem hafa hagsmuna að gæta í landinu en þeir sem stunda veiðar úr þeim nytjastofnum og ég vil undirstrika að hafsvæðið fyrir austan Grænland er hafsvæði sem Íslendingar munu óbeint nýta ef við náum eðlilegum samskiptum við Grænlendinga. Þeir munu ekki fara í það að byggja upp hafnir á þessari strönd. Þeir munu aftur á móti sjálfir stunda þar veiðar í framtíðinni og selja þann fisk á Íslandi ef við neyðum þá ekki með óbilgirni til þess að leigja þessi veiðiréttindi erlendum þjóðum, þjóðum sem eiga verksmiðjuskip og munu mæta með sinn flota í 2--3 mánuði til að taka þann fisk upp úr sjónum. Ég tel að það sé versti kosturinn fyrir okkur Íslendinga ef þannig er staðið að málum. Ef þannig er staðið að málum höfum við yfir höfuð ekki hugmynd um það hve mikið er veitt á þessu veiðisvæði af hverri tegund fyrir sig. Ef Grænlendingar sjálfir stunda þessar veiðar og landa þeim fiski hér á landi munu innlendir aðilar að sjálfsögðu fylgjast með því hversu mikið magn þeir veiða úr hinum ýmsu stofnum. Þeir munu koma sér upp fiskiskipaflota eða þeir munu í samvinnu við Færeyinga stunda þessar veiðar og um leið og þeir fara sjálfir að stunda veiðarnar munu þeir einnig efla sínar fiskirannsóknir og stuðla að því að reyna að viðhalda sínum fiskstofnum eins og allir veiðimenn gera því að þeir vilja ekki útrýma því sem þeir veiða heldur reyna að nytja það með eðlilegum hætti.
    Þess vegna tel ég þetta frv. mikið framfaraspor og vænti að það verði til þess að Ísland muni í framtíðinni verða þjónustusvæði í mun ríkari mæli en í dag fyrir hafið í kringum landið og að þetta muni efla viðskipti okkar bæði við Grænlendinga og Færeyinga alveg sérstaklega, en vafalaust mun þetta einnig verða til þess að efla viðskipti okkar við fleiri þjóðir eins og t.d. Rússa. Ég er þess vegna hæstv. sjútvrh. þakklátur fyrir að flytja þetta frv. og vona að efni þess geti orðið að lögum á þessu þingi.