Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:38:00 (1513)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Hér er hreyft máli sem menn hafa árum saman viljað breyta. Það hefur helst verið fyrir andstöðu forustu Framsfl. hin síðustu ár sem þessu hefur ekki verið breytt og þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að hér rís nú upp frjálsborinn framsóknarmaður, nægilega víkingslundaður að eðli að hann stendur gegn þessari stefnu flokks síns. Lengi skal manninn reyna. Nú eigum við eftir að sjá hvort hann muni aðstoða okkur líka til þess að brjóta á bak aftur afturhaldssemi framsóknarforustunnar í ýmsum öðrum málum sem lúta að sjávarútvegi eins og t.d. kvótakerfinu.
    Ég vil lýsa ánægju minni með þetta ágæta mál sem hér er flutt. Þetta er reyndar mál sem hefur á síðustu tímum náð útbreiddum vinsældum. Ég minnist þess t.d. að ég las í blaði, sem er enn gefið út og ég kom einu sinni dálítið nálægt, Þjóðviljanum, að landsfundur Alþb. hefði klykkt út með að lýsa líka yfir stuðningi við þetta mál og ég vænti þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson muni leiðrétta mig ef mig brestur hér minnið. Eins og hefur komið fram er auðvitað ljóst að það er löngu tímabært að breyta gildandi lögum. Árið 1922, þegar þau voru sett, var fiskveiðilögsagan ekki nema 4 mílur og þá hefði verið mjög auðvelt fyrir erlendar veiðiþjóðir að koma sér upp bækistöð hér á Íslandi til að gera út á fisktegundir sem voru utan fiskveiðilögsögunnar. En lögin sem sett voru 1922 hömluðu þessu og að því leyti gerðu þau lengi vel afar mikið gagn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og margur þorskur verið dreginn úr söltum sjó og við höfum fært út fiskveiðilögsöguna í 200 mílur. Nú er það svo að flestar tegundir okkar nytjastofna eru innan þessarar lögsögu þannig að þau verndunarsjónarmið sem áður mæltu í gegn þessari breytingu gera það ekki lengur. Þess vegna er löngu tímabært að brjóta á bak þá viðspyrnu sem hefur verið gegn þessum breytingum.
    Það er alveg ljóst að þegar þetta frv. verður að lögum getum við selt margháttaða þjónustu hér sem við gátum ekki áður. Þar ber fyrst að nefna viðgerðir erlendra skipa. Íslenskur skipaiðnaður er e.t.v. sá geiri íslenska iðnaðarins sem er í hvað mestum vandræðum þessa stundina og ég er sannfærður um það að þetta mun færa honum mikla björg í bú. Ég tel raunar að það eigi af hálfu hins opinbera að hafa frumkvæði að því að setja upp einhvers konar samstarfsáætlanir á millum smárra vélsmiðja vítt um land og hinna stærri bólvirkja skipasmíðaiðnaðarins hér á landi, þ.e. hér í Reykjavík og reyndar á Suðurnesjum og einnig á Akureyri --- gera áætlun sem miðar að því að hægt sé að taka flókin og viðamikil viðgerðarverkefni inn í landið. En samfara þessu mun auðvitað verða kleift að selja margháttaða aðra þjónustu, læknisþjónustu, vatn, vistir, veiðarfæri, eldsneyti. Ég sé að hv. þm. Stefán Guðmundsson hlær. Það er von að honum sé hlátur í huga þegar hann sér loksins rísa upp mann úr hans eigin flokki sem tekur undir með okkur stjórnarliðum um nauðsyn þess að breyta þessum afturhaldslögum sem Framsfl. hefur varið árum saman. En sem betur fer er það svo að Framsfl. hefur loksins verið í úthýsi vísað og vonandi verður hann þar sem lengst. Vitaskuld vil ég þó að það komi alveg skýrt fram að ég mun hvenær sem er þiggja liðveislu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar í þeim málum sem til framtíðar og betri vegar horfa.
    Jafnframt er auðvitað ljóst að einn annar ávinningur sem við höfum af þessari lagabreytingu er sá að við munum fá meiri fisk inn á íslensku markaðina. Við Íslendingar vitum að víða er vá fyrir dyrum. Það er ekki hvað síst hjá þeim sem hafa rækt sína starfsemi í tengslum við innlenda fiskmarkaði --- og ég sé að nú hlær hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Honum finnst þetta mál greinilega hlægilegt þó að flokkur hans hafi að vísu samþykkt stuðning við það á landsfundi sínum. Það var að sönnu eina málið sem þessi flokkur varð sammála um þó að ég vilji ekki fara vegna míns gamla fóstra út í þá umræðu. Hins vegar varðar þetta mál ekki hvað síst það kjördæmi sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er þingmaður fyrir vegna þess að það er ekki síst þar sem fiskmarkaðir eru í vanda staddir. Það skortir hráefni á markaðina og þau fyrirtæki, sem þar hafa sprottið, upp eru núna í miklum vanda stödd og nú eru hundruð manna á Suðurnesjum atvinnulaus einmitt sökum þessa. Ég vænti þess að það sé ekki þess vegna sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hlær hérna í afkimum salarins og reynir að snúa sér undan. En þetta skiptir verulegu máli fyrir fiskmarkaði, fyrir íslenska fiskvinnslu og ég minni sérstaklega á að fram kom í máli hæstv. sjútvrh. áðan að viðleitni Sovétmanna til að landa hér afla

sínum hefur aukist. Það eru fleiri en Sovétmenn. Það eru stórir kanadískir togarar sem stundum koma hingað á norðlæg hafsvæði, jafnvel Japanstogarar og auðvitað er það miklu betra fyrir þessa togara og þessi fiskveiðiskip sem koma af fjarlægum ströndum að koma hingað inn til hafnar til viðgerða og til að landa afla sínum en fara t.d. til heimahafnar eða einhverra hafna sem eru fjær eins og t.d. í Færeyjum eða Cork í Írlandi svo að ég nefni eitthvað.
    Hér er miklu þarfamáli hreyft og mér þótti sérstaklega vænt um að Ólafur Þ. Þórðarson minntist á möguleika sem ég hafði ekki séð áður sem er sá, að mér skildist á máli hans og hann er nú sérstakur sérfræðingur um hagi Grænlendinga og fiskveiða þeirra, að mjög erfitt væri að stunda útveg við austurströnd Grænlands nema þá héðan frá Íslandi. Ef við höguðum okkar málum rétt mundum við með þessu e.t.v. geta eflt bæði útgerð Grænlendinga en jafnframt fengið þá í ríkari mæli til þess að landa afla sínum hér. Hæstv. sjútvrh. hefur þegar bent á að við höfum hundruð millj. á ári hverju í gjaldeyristekjur vegna sölu á þjónustu gagnvart grænlenskum togurum. Þetta mætti e.t.v. margfalda . . . ( Gripið fram í: Við þurfum að fá þá vestur aftur, ekki til Hafnarfjarðar.) Ég er til viðræðu um allt þetta ef það gæti linað þær sálarkvalir sem stjórnarandstaðan virðist líða þessa stundina.
    Ég vil að síðustu bara minna á að samtök í skipa- og málmiðnaði hafa margsinnis ályktað um þetta mál og nú eru loksins komin röggsöm stjórnvöld sem hafa rekið slyðruorðið af ríkisstjórn Íslands í þessum málum og hyggjast breyta gildandi lögum. Ég vil að lokum bara endurtaka það sem ég hef sagt til hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar: Sértu velkominn, vinur sæll, í hvert eitt sinn sem þú vilt leggja okkur lið til þess að brjóta á bak aftur afturhaldssemi Framsfl.