Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:02:00 (1518)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Það er auðvitað mjög skondið, virðulegi forseti, hversu umhugað hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni er um Framsfl. Ég ætla ekki að lýsa því yfir að hann sé framsóknarmaður að eðli til en alla vega að upplagi. En hann spyr talsmenn Alþfl. um það hvað þeir ætli að gera í málefnum skipaiðnaðarins. Hæstv. iðnrh. hefur nú þegar kvatt sér hljóðs og mun væntanlega upplýsa þingmanninn um það sem hann langar til að vita. En mig langar að vekja athygli á því og undirstrika að það frv. sem ég minntist á er aðgerð til stuðnings íslenskum skipaiðnaði. Ég veit það af gamalli kunnáttu minni á greind hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að hann hefur fulla vitsmuni til að skilja það. Þetta er hluti af þeirri fullburða sjávarútvegsstefnu sem Alþfl. hefur. Það er hins vegar ekki hægt að segja um flokk þingmannsins eða svo að ég noti nú orðalag hins ágæta þingmanns, Jóhanns Ársælssonar, á landsfundi Alþb. sem greint er frá í Morgunblaðinu laugardaginn 23. nóv. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Jóhann Ársælsson alþingismaður sagði lítið fara fyrir umfjöllun um sjávarútvegsmál í drögum að stjórnmálaályktun og kvartaði yfir óljósu orðalagi um sjávarútvegsstefnuna. Það er svolítið líkt því sem við vorum að gera grín að hjá Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar.``
    Með öðrum orðum, hér er sérfræðingur Alþb. í sjávarútvegsmálum og hver er dómur hans um stefnu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og Alþb.? Hún er grín. Það er grínstefna.