Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:22:00 (1523)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég átti nú ekki von á því að ég þyrfti að flytja hér tvær þakkarræður sama daginn en margt er nýmæli í stöðunni. Það er upplýst af hv. 17. þm. Reykv. að farið er að ræða iðnaðarmál á þingflokksfundum Alþfl. Ekki einu sinni, þetta hafi verið gert þrisvar í seinustu viku. Ég er að sjálfsögðu mjög þakklátur og glaður þegar ég heyri þetta. Mér hafa aldrei borist slík tíðindi til eyrna áður og ég man ekki eftir því þann tíma sem ég hef setið á þingi að okkur hafi verið tilkynnt um slík stórtíðindi í atvinnumálum.
    Það verður að segjast eins og er að við höfum trúað okkar samstarfsflokkum fyrir þessu ráðuneyti, iðnrn., lengi þegar við höfum átt aðild að ríkisstjórn. Og við höfum hlustað á það að iðnaðurinn væri sú grein sem ætti að veita íslenskum höndum störf í framtíðinni. Þetta hefur ekki gengið eftir. Sem iðnrh. situr hámenntaður Íslendingur á besta aldri.
    Okkur var boðið í Háskóla Íslands í dag og þar var okkur afhent mikið af gögnum. M.a. afhenti upplýsingaþjónusta Háskólans okkur ljósrit af grein eftir Jón Erlends um hugvitsmanninn Hjört Þórðarson. Þessi maður, með leyfi forseta, ef ég les örfá orð um hans lífshlaup, fór til Ameríku og hér segir svo í þessari grein:
    ,,Hjörtur hafði ekki annað nám að baki en barnaskólanám. Þrátt fyrir þetta sem margir mundu nú á dögum telja vonlitla byrjunarstöðu þá afrekaði hann eftirfarandi: Hann stofnaði og rak 1500 manna verksmiðju í Chicago, er framleiddi spenna, Thordarson Electric co. Framleiðslan byggði að miklu á hugviti hans.``
    Hvað höfum við verið að gera við hugvitsmenn okkar sem að undanförnu hafa verið að koma fram? Við höfum yfirleitt gert heldur grín að þeim og afskrifað þá og við höfum komið þeim flestum úr landi með lagni, m.a. til Danmerkur. Það eru þó nokkuð margir Íslendingar í dag sem eru erlendis, íslenskir hugvitsmenn, iðnaðarmenn, að skapa störf fyrir útlendinga sem ætluðu sér einu sinni að hafa sín umsvif hér. Það er mikil sorgarsaga að hæstv. iðnrh. virðist enn þeirrar skoðunar að það sé nokkurs konar afskiptaleysi sem stjórnvöld eigi að hafa af atvinnumálum, hagvöxtur komi af sjálfum sér, hann tengist því ekki hvernig stjórnað sé í iðnrn. eða öðrum ráðuneytum.
    Ég verð að segja það eins og er að ég tel að Ólafur Ragnar Grímsson, hv. 8. þm. Reykn., hafi haft jákvæð áhrif innan Alþb. Hann yfirgaf okkur framsóknarmenn á sínum tíma og það hefur gerst að ungur maður hefur yfirgefið Alþb. og haldið yfir í Alþfl. Miðað við þau afrek að hafa komið þeim til að ræða iðnaðarmál þrisvar í seinustu viku þá bind ég verulegar vonir við framhaldið.