Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:33:00 (1526)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að ríkið er eignaraðili að Slippstöðinni. Ríkið hlýtur því að taka afstöðu til þeirra málefna sem ber fyrir stjórn þess fyrirtækis. Ég veit ekki betur en hv. 8. þm. Reykn., sem var fjmrh., hafi haft afskipti af því fyrirtæki gegnum sína stjórnarmenn. Það gerir náttúrlega núv. fjmrh. líka. Ég vek líka athygli á því að ég tók ekki fram, enda ekki niðurstaða fengin, hver ákvörðun yrði í því máli sem hér var hreyft.
    Í öðru lagi vil ég, virðulegi forseti, vekja athygli á því að hv. þm. nefndi ekki í andsvari sínu það sem er viðkvæmast í málinu, nefnilega þá staðreynd að ekki tókst að ná samstöðu um þau tvö málefni sem einna mikilvægust eru um þessar mundir fyrir íslenskan skipaiðnað og hafa nokkuð verið rædd hér í dag.