Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:34:00 (1527)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég verð því miður að draga til baka jákvæð ummæli mín um það að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að styrkja Slippstöðina á Akureyri með nýju hlutafé. Það er greinilegt að það hefur ekki verið ákveðið. Það er alveg rétt að ég hafði afskipti af málefni þessa fyrirtækis þegar ég var fjmrh. en það vafðist ekkert fyrir mér. Ég þurfti ekkert að fara í einhverjar sérstakar hugmyndafræðilegar stellingar út af því. Ég tók það bara sem venjulegt verkefni. En það er greinilega nokkuð snúið í núv. ríkisstjórn af því að það er hugmyndafræðilega dálítið erfitt, sérstaklega af því að það er mjög sértæk aðgerð, að setja töluvert yfir 100 millj. inn í eitt fyrirtæki, sérstaklega af því að þar er ríkið eigandinn og þetta fyrirtæki er í samkeppni við einkafyrirtæki sem ríkið er ekki eigandi að. Verður mjög gaman að fylgjast með því hvernig þeirri glímu milli hins almenna og hins sértæka lyktar innan núv. ríkisstjórnar.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. iðnrh. að ég vék ekki að þessum tveimur málum vegna þess að ég tel þau ekki vera þess eðlis að hægt sé að ræða þau hér í andsvari. Ég lýsti fyrr í dag yfir sérstakri ánægju minni með það erindi sem hæstv. núv. sjútvrh. fór með til stjórnenda Fiskveiðasjóðs. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. var þá í salnum, en ég þakkaði núv. hæstv. sjútvrh. sérstaklega fyrir að hafa tekið það mál upp með þeim hætti sem hann hefur gert og lýsti eindregnum stuðningi mínum við það hvernig hann hefur tekið á því máli. Ég held hins vegar að það sé misskilningur hjá hæstv. iðnrh. ef hann heldur að jafnvel þótt Fiskveiðasjóður tæki góðu erindi núv. sjútvrh. vel og jafnvel þó að þetta frv. verði samþykkt sé málefnum skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi borgið. Því miður er langt frá því. Þess vegna spurði ég að því: Hvað hyggst iðnrh. gera til þess að tryggja að hér verði lífvænlegur skipasmíðaiðnaður við lok næsta árs? Það var athyglisvert að hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að svara því.