Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:44:00 (1529)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Þetta er að mörgu leyti búinn að vera fróðlegur dagur hjá okkur í dag miðað við það sem á undan hefur gengið. Hér hefur farið fram mjög málefnaleg umræða í allan dag og málunum þokað býsna örugglega fram. Allt þangað til hv. 17. þm. Reykv. og formaður þingflokks Alþfl. hóf upp raust sína og talaði greinilega í þeirri tóntegund að ekki varð til þess að flýta fyrir þingstörfum það sem eftir lifir dagsins. Sérstaklega var það sú málefnafátækt og hrakyrði sem hv. formaður þingflokks Alþfl. vék að okkur framsóknarmönnum. Ef ég hef skilið rétt, heyrt hvíslingar, þá hefur mér skilist að ráðherra flokksins hafi séð ástæðu til að draga hann út úr þingsalnum og geyma hann í hliðarsal til þess að mál gætu gengið frekar fram. ( SJS: Hann situr ofan á honum.) Já, mér er sagt það. En mér er sagt að fregnir af fundinum muni vera bornar til hans, þannig að við getum þess vegna haldið áfram.
    Hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., sagði okkur að málefni skipasmíðaiðnaðarins hefðu verið rædd þrisvar sinnum á þingflokksfundi Alþfl. Það eru tíðindi. Alþfl. hefur farið með þennan málaflokk. Hann hefur verið með iðnrn. og undir hann hafa heyrt verkefni skipasmíðaiðnaðarins allt frá árinu 1987. Þar áður heyrðu þessi verkefni skipasmíðaiðnaðarins og iðnrn. undir ráðherra Sjálfstfl. Það eru tíðindi þess vegna til okkar þingmanna að málefni þessarar atvinnugreinar skuli hafa verið rædd þrisvar sinnum á þingflokksfundi hjá Alþfl.
    Það væri fróðlegt að vita, eins og hér hefur verið spurt um en orðið fátt um svör, hverjar þessar tillögur eru sem uppi á borði eru hjá Alþfl. og ráðherrum Alþfl. í málefnum skipaiðnaðarins.
    Hæstv. iðnrh. segist hafa tröllatrú á íslenskum skipasmíðaiðnaði. Ég hef tröllatrú á íslenskum iðnaðarmönnum, að þeir vinni verk sín vel, en ég verð að segja það að ég er farinn að efast um að okkur takist að rétta úr kútnum með íslenskan skipaiðnað ef svo heldur fram sem horfir. Ég held að menn ætli að ganga endanlega af þessari atvinnugrein dauðri, því miður.
    Ég var ásamt fleiri þingmönnum fyrir örfáum dögum norður á Akureyri. Þá heimsóttum við meðal annarra fyrirtækja Slippstöðina á Akureyri. Ég held að við höfum allir verið sammála um að það var ömurlegt að ganga um þau glæsilegu mannvirki sem þar eru nánast hálftóm. Fyrir ekki mörgum árum síðan störfuðu hjá Slippstöðinni hvorki meira né minna en um 300 starfsmenn. Í dag stefnir í að þar verði rúmlega 100 starfsmenn. Svo velta menn því fyrir sér hér hvort eigi að koma til aðstoðar við Slippstöðina. Menn mega fyrir mér kalla það aðstoð eða hvað sem er. Ég segi að eigendur Slippstöðvarinnar eiga auðvitað að taka á þessu vandamáli og búa þetta fyrirtæki þannig í stakk að það geti starfað. Ef menn líta yfir og skoða tilboðsverk sem nýlega hafa gengið fram og íslenskur skipaiðnaður hefur verið þátttakandi í að bjóða í ásamt erlendum skipasmíðastöðvum, þá sjá þeir það að þessi atvinnugrein á Íslandi er fyllilega samkeppnisfær. Þess vegna er það ekki þrekvirki að búa þetta glæsilega fyrirtæki þannig að þar geti hjólin farið að snúast að fullu að nýju.
    Ég vil segja það líka við hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, að það er ekkert nýtt að við ræðum hér vandamál skipaiðnaðarins. Við höfum rætt vandamál þessarar atvinnugreinar á hverju þingi síðustu árin. Það er misskilningur ef hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, heldur að það sé einhver rauð rós í hnappagatið sem honum hefur hlotnast vegna afreka Alþfl. í þessum efnum. Það er mikill misskilningur. Það er háð fyrir Alþfl.
    Það er líka rétt að segja það við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að Ólafur Þ. Þórðarson, þingmaður Framsfl., hefur þrisvar flutt mál hliðstæð því sem er til umræðu. Í öll þau þrjú skipti hefur mál Ólafs Þ. Þórðarsonar verið samþykkt í neðri deild Alþingis. Hins vegar hefur málið stoppað í afgreiðslu og meðferð efri deildar Alþingis eins og áðan kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni.
    Svo vill til að ég var formaður þeirrar nefndar sem var með þetta mál þannig að mér er það ljóst og ljósara en hv. 17. þm. Reykv. hvar og á hverjum þetta mál stöðvaðist. Það get ég sagt honum að málið stöðvaðist ekki á hv. þm. Framsfl. Virðulegi forseti, ég held að það sé mjög erfitt fyrir okkur að ljúka umræðunni án þess að hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, komi í salinn og fái að taka þátt í umræðunni.