Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:53:00 (1530)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns. Það er mjög bagalegt að ljúka umræðunni án þess að fá hv. 4. þm. Reykv. til að ræða þetta. Ég missti því miður af upphafi umræðunnar því að ég þurfti að vera á fundi annars staðar á lóðinni. Þar sem komin eru á dagskrá undir þessum lið m.a. málefni skipasmíðaiðnaðarins almennt og þar á meðal fyrirtækis eins í mínu kjördæmi, Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri, sem ég heyrði hér oftlega nefnt í síðustu ræðum, kemst ég ekki hjá því að segja um þetta fáein orð.
    Ég held að láti nærri að segja megi að íslenski skipasmíðaiðnaðurinn sé hin glataða stóriðja okkar Íslendinga. Ég hef ekki nákvæmar tölur um það en ég er ekki frá því að u.þ.b. jafnmörg störf hafi tapast úr skipasmíðaiðnaðinum á Íslandi á starfstíma núv. hæstv. iðnrh. og áttu að koma í nýja álverinu sem aldrei kom. Ég hugsa að það láti mjög nærri að þau 300--400 störf sem mér er sagt að gætu orðið í nútíma tæknivæddu álveri af þessari stærðargráðu, sem hæstv. iðnrh. rembdist eins og rjúpan við staurinn að koma á en er nú komið aðeins til hliðar, hafi á sama tíma tapast út úr íslenska skipasmíðaiðnaðinum. Sem sagt, eitt stykki álver hafi glatast í störfum talið á þeim tíma. Þetta er auðvitað dapurlegt, svo að ekki sé meira sagt. Ég fullyrði að það er ekkert minna en þjóðhagslegt slys sem átt hefur sér stað í íslenska skipasmíðaiðnaðinum og öllum málmiðnaði landsmanna sem í meira og minna mæli hefur tengst skipasmíðunum. Til að mynda tengdust vel flest þjónustufyrirtæki á sviði málmiðnaðar á Eyjafjarðarsvæðinu því að í gangi væru nýsmíðar á skipum eða stærri verkefni við skipasmíðar. Ekki er nokkur vafi á því að skilningsleysi og aumingjadómi íslenskra stjórnvalda og ríkisstjórna undanfarinna ára er að verulegu leyti um að kenna. Þar undanskil ég engan og ekki þá ríkisstjórn sem sat að völdum frá hausti 1988 til vors 1991 og ég átti sæti í.
    Ég reyndi á þeim tíma sem ég sat í ríkisstjórn að beina verkefnum til innlendra skipasmíðastöðva eftir því sem kostur var. T.d. sá ég til þess að hverju einasta verkefni sem til féll í þeim skiparekstri, sem heyrði undir samgrn. á þessum tíma, var beint til innlendra skipasmíðastöðva. Reyndar er það svo að Ríkisskip, nánast ein kaupskipaútgerðanna, eru með allt sitt viðhald og alla sína þjónustu hjá innlendum skipasmíðastöðvum. Ég stuðlaði að því á sínum tíma þegar stórt verkefni var unnið hjá því fyrirtæki að innlendu útboði væri tekið í staðinn fyrir erlend á grundvelli útboðs þó að þar væri nokkur verðmunur á. Ég átti sömuleiðis þátt í því að haga ákvörðunum um endurnýjun í ferjuflota landsmanna þannig að það væri a.m.k. tæknilega mögulegt að innlend fyrirtæki gerðu þar tilboð eins og þau erlendu.

    Ég heyri að hæstv. iðnrh. er að gjamma fram í úr hliðarsölum og skora ég á hann að koma inn í salinn þannig að frammíköllin heyrist. Það er mun þægilegra að bregðast við þeim þannig. En úr því að hæstv. iðnrh. hefur væntanlega verið að vitna til nýsmíði á Vestmannaeyjaferju fyrir fyrirtækið Herjólf hf. þá var einmitt tekin ákvörðun um að minnka það skip um 10 metra til þess að það væri í þeirri stærð að a.m.k. ein íslensk skipasmíðastöð gæti tæknilega ráðið við að smíða það. Því miður reyndist bilið sem var á milli innlenda tilboðsins og hinna erlendu óbrúanlegt og við það varð ekki ráðið enda voru allir sammála um að komið væri út yfir það verðbil sem hægt væri að brúa þegar verðmunur var orðinn 20--25%.
    Ég ætla að segja frá því, herra forseti, að ég tók einu sinni upp málefni skipasmíðaiðnaðarins og þá sérstaklega fyrirtækisins Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri í síðustu ríkisstjórn. Það gerði ég í tengslum við og undir þeim formerkjum að atvinnuástand og horfur voru og eru reyndar enn býsna alvarlegar á Akureyrarsvæðinu og alveg sérstaklega í málmiðnaði og allri þjónustu sem tengst hefur skipasmíðaiðnaðinum þar í bæ. Ég leyfði mér þess vegna að taka þetta mál upp í ríkisstjórn á sl. vetri og benda á þá staðreynd að tvö fyrirtæki norðan heiða voru þá að undirbúa samninga í Noregi um nýsmíði á tveimur stórum frystitogurum upp á 900--1000 millj. kr. hvorn. Ég hafði rætt við forsvarsmenn fyrirtækjanna beggja, Skagstrendings og Samherja, sem þarna áttu í hlut og ég hafði farið yfir það með þeim og starfsmönnum Slippstöðvarinnar á Akureyri hvað til þyrfti að koma til þess að unnt væri að ná smíðasamningunum inn í landið. Það kom í ljós og það lágu fyrir staðfestar tölur um það að Slippstöðin á Akureyri var fullkomlega samkeppnisfær hvað varðaði smíðaverðið sjálft. Það sem skekkti hins vegar dæmið og réði því að hinir innlendu kaupendur sneru sér til erlendra aðila voru niðurgreiðslur Norðmanna. Það er hins vegar auðvelt reikningsdæmi að sýna fram á það að þær tekjur sem opinberir aðilar hafa af svona nýsmíðaverkefni hér á landi eru meiri en þarf til að brúa þetta bil þannig að það er beinlínis þjóðhagsleg heimska að reyna ekki að stuðla að því að svona verkefni komist inn í landið. Ég er að tala um frystitogarana tvo eða þrjá sem á að fara að smíða núna í Noregi, hv. frammíkallandi, formaður þingflokks Alþfl.
    Með ferjuna var öðru máli að gegna. Þar var verðmunurinn miklu meiri og þó svo að menn reiknuðu það dæmi til hins ýtrasta, hefði þar þurft að koma til beinn fjárstuðningur upp á ein 10--15% umfram niðurgreiðsluverðmuninn til þess að ná þeim endum saman. Ég verð að segja það alveg eins er að það hafði ekki runnið upp fyrir mér fyrr en ég sá þetta á pappír hversu geysilega þjóðhagslega vitlaust það er að hafa ekki haft manndóm í sér til þess að rétta af samkeppnisstöðu innlenda skipasmíðaiðnaðarins í þessu sambandi. Og svo koma frjálshyggjumenn í stólinn og tala um það að ríkið eigi ekki að vera að blanda sér í þessi efni og það megi ekki vera með svona niðurgreiðslur eða stuðning við eina tegund iðnaðar. En hvernig eru samkeppnisskilyrði greinarinnar hér? Eigum við að láta það gott heita að aðrir svíni á okkur með niðurgreiðslum og styrkjum erlendis við iðnaðinn sem dregur verkefnin út úr landinu? Þetta er þeim mun sárgrætilegra sem menn eru almennt sammála um það, ég hygg að það sé sama hvar borið er niður hjá þeim aðilum sem hafa látið smíða skip innan lands á undangengnum árum þótt því miður sé að verða nokkuð síðan, að menn telja að þeir fái hvergi í heimi betri vinnu á slíku heldur en einmitt hér á Íslandi. Síðustu íslensku nýsmíðaverkefnin teljast bera af í flotanum hvað öll vinnubrögð snertir og þetta eru bestu skip sem Íslendingar eiga að frátöldum e.t.v. nýjustu norsku skipunum.
    En ég ætla að segja það líka, hv. þm. að hæstv. iðnrh. brást ekki vel við þegar ég tók upp málefni skipasmíðaiðnaðarins með þessum hætti. Hann hafði um það hörð orð að þetta væri slettirekuskapur af minni hálfu að vera að skipta mér af þessu þó að ég væri

þarna sem þingmaður kjördæmis ekki síður en ráðherra að taka þetta upp í almennum samningi. Ég ætla að láta þá skoðun mína koma hér fram að hæstv. iðnrh. hefði vel mátt ráðstafa pínulítið meira af starfsorku sinni til þess að standa við bakið á innlendum skipasmíðaiðnaði en minni orku í leiksýningar um álver sem aldrei kemur. Þá hefði kannski verið unnið að þessu með öðrum hætti á undangengnum árum. Með því er ég ekki að skella skuldinni hæstv. iðnrh. einan. Auðvitað hefði þurft að ná um það samstöðu að grípa til aðgerða og það eru margir fleiri sem eiga að taka til sín sinn skammt af aumingjadóminum í þeim málum á mörgum undanförnum árum. En það er sannfæring mín að þarna hafi átt sér stað eitthvert það versta þjóðhagslega slys sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum, þ.e. hvernig innlendi skipasmíðaiðnaðurinn er nánast hruninn ofan í hausinn á okkur. Staðreyndin er auðvitað sú, og það held ég að menn ættu að átta sig á, að síðasta fyrirtækið sem hefur fram á síðustu mánuði haft nokkurn veginn möguleika til þess að vera samkeppnisfært, t.d. um nýsmíðar á fiskiskipum, verður það ekki lengur innan fárra mánaða. Við erum með örlög síðasta fyrirtækisins í höndunum akkúrat núna þessa dagana.
    Að lokum þetta, herra forseti, vegna þess að það er eitthvert frv. á dagskrá sem við erum að ræða, sem lýtur að því að breyta lítillega lögum um möguleika erlendra skipa til að koma hér til að fá þjónustu í höfnum, þá vara ég mjög við bjartsýni manna um að það breyti miklu í þeim efnum. Staðreyndin er sú að ef farið er yfir texta frv. og hann borinn saman við það sem verið hefur í reynd undanfarin ár í þeim efnum breytist þarna sáralítið. Hlutunum er í raun einungis snúið við þannig að það sem áður þurfti undanþágu til verður núna heimilt samkvæmt lagatextanum en hins vegar verður heimild til að stoppa það af sem áður var stoppað með lögum þannig að í raun gerist ekkert annað. Mér er satt best að segja ekki kunnugt um það að lagaákvæði hafi hindrað skip í því að fá þjónustu eða koma hingað ef svo bar undir á undanförnum árum. Einustu tilvikin eru þau þegar reynt hefur verið að nota þessi gömlu lagaákvæði frá 1922 til þess að þrýsta á um samninga við þá nágranna okkar sem eru að veiða úr sameiginlegum stofnum og ekki hefur verið samið um. Ég tel út af fyrir sig að eftir sem áður sé ekkert óskynsamlegt að breyta lagaákvæðunum. Það er sjálfsagt mál að athuga það ef mönnum finnst það þénugra að snúa þessu svona. En ég vara menn mjög við því að vera svo barnalegir, leyfi ég mér að segja, að trúa því að í þessu litla frv. felist eitthvert allsherjar lausnarorð fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Því fer víðs fjarri, því miður. Eitt skulum við hafa á hreinu og það á jafnt við um hinn innlenda flota sem hinn erlenda. Hann kemur ekki hingað til að sækja þjónustu nema hún sé í boði og hann kemur ekki hingað ef búið verður að jarðsyngja allan íslenska skipasmíðaiðnaðinn því að það er ekki bara verið að slást hér um örlög fyrirtækjanna hvað það snertir að þau geti smíðað skip. Þau eru hreinlega að dragast þannig saman og drabbast niður að samkeppnisstaða þeirra gagnvart viðhaldi og þjónustu er líka að hrynja vegna þess að afköstin minnka með minni mannskap og minni getu. Það kemur að því að þau verða líka ósamkeppnisfær gagnvart stærri viðhaldsverkefnum og meiri háttar þjónustuverkefnum og þá munu erlendir flotar ekki sigla hingað inn til þess eins að láta sletta málningu á það sem er ofan sjávar eða eitthvað því um líkt.
    Herra forseti. Ég mundi fagna því ef það gæfist tækifæri til þess, hvort sem það verður nú þegar Alþfl. hefur rætt á nokkrum fundum í viðbót um málefni skipasmíðaiðnaðarins eða af einhverjum öðrum ástæðum, að taka hér málefni skipasmíðaiðnaðarins og reyndar málmiðnaðarins í landinu þar með til rækilegrar umræðu á hinu háa Alþingi. Það væri sannarlega fagnaðarefni.