Kirkjugarðar

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 13:41:00 (1541)

     Geir H. Haarde :
     Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þessu frv. í framhaldi af því er hæstv. ráðherra sagði um kirkjugarðsgjöld og ráðstöfun þeirra til greiðslu kostnaðar við útfararþjónustu. Ég vil í framhaldi af fsp. sem ég flutti um það efni á síðasta þingi nota tækifærið til að beina því til hv. allshn. að hún grandskoði hvort ástæða sé til að taka í þessi lög skýr ákvæði um það hvort heimilt skuli að verja hluta kirkjugarðsgjalda til að greiða fyrir þá þjónustu. Jafnframt, verði það ofan á að taka slíkt ákvæði með skýrum hætti inn í lögin, þá verði tryggt að í því sambandi verði ekki um mismunun að ræða þannig að allir standi þar jafnt að vígi, bæði þeir sem greiða fyrir þjónustuna og sömuleiðis þau fyrirtæki sem kunna að starfa á þessum vettvangi. Jafnframt tel ég að nefndin eigi að hafa það í huga að frá þessum málum verði þannig gengið að allir þeir sem stunda útfararþjónustu standi jafnt að vígi að því er varðar almenna samkeppnisstöðu, á ég þar við skatta m.a. og fleira sem því kann að tengjast. Þessu vil ég í fullri vinsemd beina til hv. allshn.