Kirkjugarðar

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 13:43:00 (1542)

     Össur Skarphéðinsson :
     Frú forseti. Ég kem hér upp til að taka undir orð hv. þm. Geirs H. Haarde. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að við þessa lagasetningu verði þess gætt mjög vendilega að einkaaðilum sem reka fyrirtæki á sviði útfararþjónustu verði ekki mismunað. Í þessu frv.

eru þrjár greinar sem ég vil sérstaklega nefna.
    Það er í fyrsta lagi 10. gr. Þar er gert ráð fyrir því að safnaðarfundur geti veitt kirkjugarðsstjórn einkaheimild til að nota líkvagn við jarðarfarir. Þetta þrengir vitaskuld mjög rými einkarekinna fyrirtækja á þessu sviði til að reka útfararþjónustu. En nú munu ein tvö eða þrjú slík fyrirtæki vera rekin á höfuðborgarsvæðinu. Viðskipti þeirra hafa farið vaxandi en mér er kunnugt um það að ýmsum þykir sem þessum fyrirtækjum sé nokkuð mismunað.
    Jafnframt vil ég drepa á 20. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að kirkjugarðsstjórn sé heimilt að láta reisa kapellur og líkhús og kosta rekstur þeirra. Hér er um það að ræða að þessar stofnanir, þ.e. kapellur og líkhús, eru vitaskuld kostuð af almannafé sem allir hafa greitt til og kjósi einhverjir einstaklingar að láta einkafyrirtæki annast útfarir þá eiga þeir vitaskuld að fá not af kapellu og líkhúsi án endurgjalds.
    Jafnframt vil ég síðan nefna 21. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Kirkjugarðsstjórn er heimilt að veita styrk til kirkna vegna útfararþjónustu, sem þar fer fram og greiða hluta útfararkostnaðar.``
    Ég vil einungis að það sé alveg ljóst að þegar þetta fer frá allshn. þá verði gert ráð fyrir því að einkareknar útfararþjónustur sitji þarna við sama borð.