Kirkjugarðar

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 13:45:00 (1543)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Í tilefni af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um þá hugmynd að kirkjugarðarnir taki þátt í að niðurgreiða útfararþjónustuna, langar mig að vekja athygli á því að aðstæður í Reykjavík eru mjög ólíkar því sem gerist víðast um landsbyggðina. Það er mjög mikilvægt að sú nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta frv. taki ríkulegt tilliti til þessara ólíku aðstæðna. Ég vil einnig vekja athygli á þeirri hugmynd, sem mér er kunnugt um að hafi komið til umræðu á fyrri þingum, þ.e. að kirkjugarðsgjöldin verði hækkuð þannig að kirkjugörðunum verði gert kleift að sjá alfarið um kostnað vegna eðlilegrar útfararþjónustu. E.t.v. er með þessum hugmyndum sem hér hafa verið til umræðu verið að stíga eitt skref í þessa átt. Mörg rök hníga að því að það kynni að vera eðlilegt að eðlilegur útfararkostnaður yrði að öllu leyti innifalinn í kirkjugarðaþjónustunni.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að fjárhagur kirkjugarðanna er mjög mismunandi eftir aðstæðum í dreifðum byggðum landsins. Viðhald og öll umhirða kirkjugarða er kostnaðarsamt verk. Sannarlega hjálpar hinn almenni kirkjugarðasjóður þar til.
    Ég ítreka enn og legg áherslu á að við skoðun frv. verði sérstaklega tekið tillit til hinna ólíku aðstæðna í landinu og að hinar sérstöku aðstæður í Reykjavík verði ekki einar látnar ráða ferðinni og stefnunni.