Framkvæmdasjóður Íslands

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 13:57:00 (1545)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað á undanförnum mánuðum fullyrt að fjárhagsvandi Framkvæmdasjóðs sé svo slæmur fyrst og fremst vegna þess sem gert hafi verið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Við höfum andmælt þessum fullyrðingum hvað eftir annað. Ég tel þess vegna að það sé ekki gerlegt að halda þessari umræðu áfram nema núv. hæstv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, sé viðstaddur umræðuna. Ég segi það m.a. vegna þess að ein stærsta ákvörðunin um fjárveitingar til fiskeldisfyrirtækja á vegum Framkvæmdasjóðs var tekin þegar hæstv. núv. utanrrh. gegndi embætti fjmrh. Það er óhjákvæmilegt til að hægt sé að ræða þessi mál, og það frv. sem hér er verið að mæla fyrir, með eðlilegum hætti að þeir séu einnig viðstaddir umræðuna núv. hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, sem gegndi embætti fjmrh. í tvö ár og einnig núv. hæstv. utanrrh. sem gegndi embætti fjmrh. í rúmlega eitt ár.
    Ég vil því óska eftir því, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði frestað og henni fram haldið þegar hæstv. utanrrh. og einnig hæstv. sjútvrh., þ.e. þeir báðir, geta verið viðstaddir umræðuna.