Viðvera ráðherra og tilhögun þinghalds

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:11:00 (1555)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Borgarstjórinn er kominn aftur. Það er ágætt að sýnikennslan um það hvernig eigi að tala á Alþingi er hafin hjá hæstv. forsrh. enn á ný. Og hann heldur áfram uppteknum hætti, að halda það að hann verði ekki gerður ábyrgur innan þings fyrir þeim orðum sem hann flytur þjóðinni utan þings. Það vill hins vegar svo til að í stefnuræðu forsrh. sem flutt var hér á Alþingi var, ef ég man rétt, kafli um Framkvæmdasjóð. Forsrh. er kannski búinn að gleyma sinni eigin stefnuræðu. En það er alveg rétt að í framsöguræðu sinni fyrir 6. dagskrármáli, um Framkvæmdasjóð Íslands, hélt hann sér við tæknileg atriði. Hann endurtók ekki fullyrðingar sínar og dóma um það hverjum það væri að kenna að svo illa væri komið fyrir Framkvæmdasjóði Íslands. Dóma sem hann er búinn að

fella hér í allt sumar og haust í fjölmiðlum og felldi í stefnuræðu sinni, ef ég man rétt, í upphafi þings.
    Auðvitað tökum við forsrh. alvarlega, a.m.k. enn, nema hæstv. forsrh. vilji lýsa því yfir að það eigi ekki að taka orð hans alvarlega og þá er alveg sjálfsagt að koma fram við hann með þeim hætti.
    En ég óskaði eftir því að núv. utanrrh. yrði viðstaddur þessa umræðu um Framkvæmdasjóð Íslands vegna þess að hann var fjmrh. og bar þess vegna ábyrgð ásamt þáv. forsrh., Þorsteini Pálssyni, á málefnum þessa sjóðs, Framkvæmdasjóðs Íslands, þegar ein umdeildasta ákvörðunin um fjármagnsráðstöfun í þágu fiskeldis var tekin hjá Framkvæmdasjóði Íslands. Ég ætla ekki að taka það mál hér til umræðu að hæstv. utanrrh. og þáv. fjmrh. fjarstöddum. Ég ætla ekki að deila á hann eða rekja þetta mál að honum fjarstöddum, að sjálfsögðu ekki. Hann hefur verið ásamt hæstv. sjútvrh. Þorsteini Pálssyni, núv. sendiherra í París, Albert Guðmundssyni og mér einn af fjórum mönnum sem hafa borið ábyrgð á Framkvæmdasjóði Íslands síðan 1983. Forsrh. getur ekki með neinum rétti eða stráksskap gert athugasemd við það að okkur finnist eðlilegt að hafa hæstv. fyrrv. fjmrh. viðstaddan þegar hann er að mæla fyrir því á Alþingi að sjóðurinn verði lagður niður. Þess vegna vísa ég algerlega á bug smekklausum og strákslegum dylgjum hæstv. forsrh. í þessum efnum varðandi frv. um Stjórnarráð Íslands sem er 5. mál hér á dagskrá, en það frv. fjallar um að sameina iðnrn. og viðskrn. í eitt ráðuneyti. Ég hafði óskað eftir því við virðulegan forseta að hæstv. núv. iðnrh. og viðskrh. yrði viðstaddur þá umræðu. Hann er því miður ekki kominn en er væntanlegur. Það liggur því alveg ljóst fyrir, hv. þm. Geir Haarde, að ekki er hægt að taka til umfjöllunar 5. og 6. dagskrármálið vegna fjarvistar ráðherra. Þess vegna er alger óþarfi fyrir þingmanninn að koma hér upp í ræðustól og mótmæla mínum orðum sem ósönnum af því að það er staðreynd að ekki er hægt að halda áfram með dagskrána eins og frá henni var gengið af forsetanum vegna fjarvistar ráðherra, vegna fjarvistar iðnrh. og viðskrh. hvað snertir 5. mál og vegna fjarvistar utanrrh. hvað snertir 6. mál. Ég var alls ekki að mæla gegn því að málum sem einstakir þingmenn telja sig þurfa að ræða verði frestað vegna þess að þeir þurfa að vera við útför. Það er satt að segja smekklaust af hv. þm. Geir Haarde að fara að draga það inn í umræðuna. Sú staðreynd blasir því við að ekki er hægt að halda áfram með dagskrána með eðlilegum hætti af því að tveir hæstv. ráðherrar hafa ekki sinnt skyldum sínum að mæta hér til þings.