Viðvera ráðherra og tilhögun þinghalds

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:15:00 (1557)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að gera athugasemd við ummæli forseta hér af stólnum áðan. Mér finnst að forseti sé farinn að blanda sér með býsna sérkennilegum hætti í deilur þingmanna og ráðherra um gæslu þingskapa og ég tel að forseti hafi með síðustu orðum sínum tekið afstöðu með ráðherrunum gegn þingmönnunum.

Ég mótmæli því og skora á forseta að minnast þeirrar yfirlýsingar sem hún gaf í upphafi að hún er forseti þingsins alls, stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég bendi í öðru lagi á það, virðulegi forseti, í þessari umræðu að það er auðvitað hugsanlegt að taka hér fyrir þingmannamál. Við þingmenn höfum látið yfir okkur ganga að stjórnarmál fengju forgang en þegar ekki er hægt að taka þau fyrir, þá er auðvitað ekkert á móti því að ganga á röðina að því er þingmannamálin varðar. Hér eru t.d. mál eins og Varnir gegn vímuefnum, Framleiðsla vetnis, Endurskoðun iðnaðarstefnu, Iðn- og verkmenntun, Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn. Öll þessi mál eru með lægri þingskjalsnúmer en öll þau stjórnarfrv. sem eru á dagskrá í dag og það mikið lægri. Það er auðvitað engin ástæða til þess að hrökkva í kuðung þó að hlutirnir gangi þannig fyrir sig að ráðherrarnir séu ekki viðstaddir til að taka mál fyrir vegna þess að það eru mörg önnur mál sem hægt er að ræða, mál einstakra þingmanna. Ég held að það sé nauðsynlegt líka, virðulegi forseti, að fara að átta sig á því að utan dagskrárinnar í dag og utan dagskrárinnar í gær er fjöldi þingmannamála sem hefur ekki komið inn á dagskrá nokkurn tíma eins og hv. 5. þm. Vestf. minntist á áðan. Ég vil spyrja forsetann hverju það sætir að fjöldi þingmannamála er fyrir utan dagskrána án þess að beinlínis sé rætt við þingmennina um að taka málin út af dagskránni.
    Hér liggur fyrir þinginu tillaga frá mér um útflutning á raforku með sæstreng. Þessi tillaga hefur legið lengi fyrir. Hún var einu sinni á dagskránni en komst þá ekki að. Hún hefur síðan ekki komist inn á hina prentuðu dagskrá án þess að mér væri gefin nokkur skýring á því og án þess að farið væri þess á leit við mig að ég féllist á að það væri hinkrað með málið um skeið, sem ég hefði auðvitað verið til viðtals um. Ég verð því að segja eins og er, forseti, að mér sýnist að samsetning dagskrárinnar eins og hún birtist þingmönnum sé ekki í samræmi við þau vinnubrögð sem hér þurfa að vera. Og ég leyfi mér að gagnrýna hæstv. forseta að þessu leytinu til þó að aðaltilefnið hafi verið síðustu orð hennar þar sem mér fannst að hún tæki afstöðu með ráðherrunum gegn þingmönnunum. Ég get ekki neitað því að mér þótti það mjög miður, virðulegi forseti.