Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:42:00 (1565)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að vekja hér athygli á yfirlýsingu sem

fram kom hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. Þannig háttar til að ríkisstjórnin sem nú situr er núna að flytja fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir mjög róttækum breytingum á reglum sem gilda um rétt launafólks til launa við gjaldþrot fyrirtækja. Þar er um að ræða stórfelldan niðurskurð og í raun afnám þess réttarkerfis sem þar hefur verið í gangi. Í sama fjárlagafrv. er svo gert ráð fyrir því að draga verulega úr greiðslum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar er gert ráð fyrir því að lækka framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári um 12% þó að gert sé ráð fyrir því í þjóðhagsspám að atvinnuleysi hér geti vaxið mjög verulega á næsta ári frá því sem er á þessu ári. Jafnframt kemur fram að það er við því að búast að það þurfi að endurskoða fjárhagslegar forsendur þessa frv. og þar geti skakkað 50--60 millj. kr. sem verði að bæta við í fjárlagafrv. og fjárlögunum áður en þau verða afgreidd. En þrátt fyrir þetta liggur fyrir sú mikilvæga yfirlýsing frá hæstv. heilbr.- og trmrh. að hann muni ekki standa að því að skerða þær bætur sem lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð kveða á um. Hann muni beita sér fyrir því, hvað svo sem stendur í fjárlögunum að sjálfsögðu, að lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð haldist og að atvinnuleysisbætur verði ekki skornar niður á næsta ári þrátt fyrir það að fjárlagatalan kunni að verða miklu lægri en þörf verður fyrir þegar kemur inn á árið.
    Ég tel mjög brýnt, virðulegi forseti, að slá striki undir þessa yfirlýsingu hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan vegna þess að hér er auðvitað um algjört úrslitaatriði að ræða þegar menn standa frammi fyrir því að hér gæti orðið aukið atvinnuleysi. Þá höfum við þá yfirlýsingu frá heilbrrh. að hann hyggist ekki beita sér fyrir því að skera niður atvinnuleysisbætur á næsta ári, hvað svo sem menn kunna að skrifa niður í fjárlögin, þegar upp er staðið í þeim efnum.