Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:52:00 (1570)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er orðið nokkuð snúið satt að segja að taka þátt í málefnalegum umræðum hér þegar ráðherrar nota aðstöðu sína, þegar maður er búinn að tala sig dauðan, til þess að hvolfa yfir mann skömmum fyrir það að maður nenni ekki að vinna sín þingstörf. Ég hefði satt að segja haldið að undirritaður ætti kannski ýmislegt annað skilið en það að hann læsi ekki sína pappíra. Staðreyndin er sú að það er nefnt í fjárlagafrv. að skorið verði niður fé til Atvinnuleysistryggingasjóðs og áformað er að endurskoða bótareglur sjóðsins á næsta ári. Það er það sem stendur þar og ekkert annað.
    Hæstv. heilbrrh. sagði áðan orð sem bersýnilega gáfu það í skyn að hér væri mættur maður í ráðherrastól sem ætlaði sér að verja rétt atvinnulausra Íslendinga á næsta ári ef

til þess kæmi. Þess vegna hagaði ég orðum mínum með þeim hætti sem ég gerði, sem var bersýnilega misskilningur af því að ráðherrann átti það ekki skilið að honum yrði hælt enda hefði það náttúrlega orðið með ólíkindum og hefðu orðið feiknstafir ef það hefði verið ástæða til að hæla þessum ráðherra fyrir embættisverk hans og mætti hann lesa ýmislegt betur en hann hefur gert, m.a. grundvallaratriði jafnaðarstefnunnar sem aðrir aðilar hafa tekið að sér að sinna betur í seinni tíð en hann.