Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:28:00 (1579)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseti er tilbúinn að svara þessum athugasemdum og gagnrýni sem hafa komið um gæslu þingskapa og vill segja þetta: Það er grundvallarregla í þingsköpum allra þjóðþinga að þingmenn haldi sig við umræðuefnið. Forseta ber að vekja athygli þingmanna á því ef út af ber. Þessi grundvallarregla kemur greinilega fram í 89. gr. þingskapa Alþingis. Forseti telur að þetta sé afar vandmeðfarið og viðkvæmt vald og hefur aldrei látið sér koma til hugar að nota þau orð sem eru innan tilvitnunarmerkja í 89. gr. en hefur hins vegar í mestu vinsemd, eins og hún gerði undir ræðu hv. 8. þm. Reykn. fyrr á fundinum, bent á að þingmaðurinn héldi sig ekki við það mál, það frv., sem væri á dagskrá, og bað hann ítrekað um að halda sig við umræðuefnið. Forseti taldi sig með því hafa verið að fara algerlega að þingsköpum. Og nú væntir forseti að þessari þingskapaumræðu sé lokið með þessu svari og nú sé hægt að taka upp þau mál sem eru á dagskránni og ræða þau.
    Forseti ber umhyggju fyrir veg og virðingu Alþingis og vill gæta hagsmuna allra hv. þm. Þess vegna vill forseti eiga gott samstarf við þingmenn og óskar þess að þingmenn virði það ef forseti reynir að fara eftir þingsköpum. En forseti tekur því jafnframt vel ef henni er bent á að hún fari rangt að og er tilbúin að leiðrétta ef svo er.