Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:30:00 (1580)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég tel það til bóta að hæstv. forseti hefur talað í málinu og reitt fram skýringar af sinni hálfu hvernig hún skýrir þá íhlutun í mál hv. 8. þm. Reykn. áðan og ég vil aðeins segja það vegna orða hæstv. forseta að það vald sem forseti hefur samkvæmt þingsköpum er afar vandmeðfarið. Ég verð að segja það hreinskilnislega að ég tel að sú umræða, sem hér fór fram í dag og hv. 8. þm. Reykn. tók þátt í, hafi ekki skorið sig úr varðandi umræður sem fram hafa farið á þessu þingi án þess að til athugasemda hafi komið af hálfu hæstv. forseta og það er afar sjaldan sem forseti grípur inn með þeim hætti sem og gerðist hér í dag af tilefni umræðu um dagskrármálið.
    Ég held að það sé mikil þörf á því að samkvæmni sé gætt í stjórnun þingsins og að forsetar fari með vald sitt af fyllstu gætni og ég vænti þess að sú umræða sem fram hefur farið um þingsköp verði til þess að forsætisnefnd þingsins fari yfir það sameiginlega og geri þinginu grein fyrir því hvaða viðhorf eru þar ríkjandi í sambandi við umræðu um mál. Því það sem hér kom fram var aldeilis óvenjulegt miðað við hefðir hér á Alþingi. Ég treysti því að hæstv. forseti fari yfir þetta mál í forsætisnefnd, geri þinginu grein fyrir því og þá m.a. með samanburði við það sem fram hefur farið á þessu þingi almennt og á fyrri þingum vegna þess að ég tel að hér hafi verið gripið inn í með alveg sérstæðum hætti sem við höfum ekki átt að venjast hér í þinginu.