Stjórn þingsins og gæsla þingskapa

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:36:00 (1583)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka forsetanum fyrir það að hafa tjáð sig úr forsetastól. Ég tel það mjög mikilvægt því það hefði verið illt í efni ef fram hefði haldið eins og málin stóðu að hv. þm. Geir H. Haarde talaði fyrir forsetadæmið. En ég vil segja í mikilli vinsemd við forseta, að vitna til 89. gr. sem grundvöll þess að afskipti forseta fóru fram af því sem ég vitnaði hér á fáeinum mínútum orðrétt í hæstv. utanrrh. er auðvitað þannig að ég kýs nú helst að ræða það við forsetann utan fundar. Ég var ekki að segja neitt frá eigin brjósti, virðulegi forseti, ég var eingöngu að lesa fáeinar orðréttar tilvitnanir í hæstv. utanrrh., þar sem hæstv. utanrrh. annars vegar tjáði sig um ástandið í Alþfl. og hæstv. félmrh. og hins vegar um Alþingi. En 89. gr. þingskapa hljóðar á þessa leið:
    ,,Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: ,,Þetta er vítavert``, og nefna þau ummæli sem hann vítir.``
    Ég vil til dæmis vekja athygli forsetaembættisins á því að hér var forseti í gærkvöldi hv. þm. Björn Bjarnason. Hæstv. iðnrh. hafði þau ummæli um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ,,að hann hreykti sér hér eins og hani á haug``. ( Viðskrh.: Það er rangt.) Það er ekki rangt, virðulegi forseti. ( Gripið fram í: Reigði sig.) Já, ,,reigði sig hér eins og hani á haug``, ég bið forláts, en þetta var rétt með ,,hani á haug``. Finnst virðulegum forseta eðlilegt að ráðherrar segi við þingmenn að þeir séu eins og hani á haug og það sé engin ástæða til þess að gera athugasemd við þau ummæli? En það var ekki gert af forsetaembættinu í gær, það var að vísu ekki sá ágæti forseti sem nú er í stólnum heldur hv. þm. Björn Bjarnason, varaformaður þingflokks Sjálfstfl. Og þó honum væri bent á að þetta væru afar óviðurkvæmileg ummæli hjá hæstv. iðnrh. þá sá forsetinn í gær enga ástæðu til þess að blanda sér í umræðurnar.
    Það er því satt að segja orðið erfitt, virðulegi forseti, fyrir okkur, sem viljum eiga góða samvinnu við forsetann, að vita hvernig við eigum að starfa hér í þingsalnum, ef mér er bent á að ég megi ekki lesa upp orðréttar tilvitnanir í hæstv. utanrrh., en hæstv. viðskrh. má kalla þingmenn hana á haug alveg átölulaust.
    Ég vil þess vegna beina því til forsetans að við fáum tækifæri til að ræða þetta utan fundar og með einhverjum hætti ná þannig samkomulagi að það sem hér hefur gerst í dag og það sem gerðist hér í gær verði ekki tilefni til ályktana um að hér sé búið að taka upp nýja siði í þinginu.
    En ég vil þakka forsetanum fyrir að hafa þó rökstutt ummæli sín þó að ég mótmæli rökstuðningnum.