Stjórnarráð Íslands

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:40:01 (1584)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, en frv. felur það í sér að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin eru sameinuð.
    Samkvæmt stjórnarráðslögunum, 2. mgr. 4. gr., má ekki setja á stofn né leggja niður ráðuneyti nema með lögum. Hins vegar má flytja til verkefni milli ráðuneyta með breytingu á reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands og hefur það nokkrum sinnum verið gert. Þannig voru mál er varða útflutningsverslun flutt frá viðskrn. til utanrrn. í upphafi síðasta kjörtímabils. Við það minnkuðu umsvif viðskrn. og þrír starfsmenn fluttust í samræmi við það til utanrrn. Mál er varða veitingu einkaleyfa, skráningu vörumerkja og skyld verkefni hafa verið vaxandi þáttur í stjórnsýsluverkefnum iðnrn., en með nýjum lögum sem gildi tóku á þessu ári var sú skipulagsbreyting gerð að framkvæmd þessa málaflokks var flutt til sérstakrar undirstofnunar iðnrn., einkaleyfisstofu, og fluttu þá þeir starfsmenn sem þessu höfðu sinnt til hennar. Í báðum ráðuneytunum hefur því fækkað verkefnum og dregið úr starfsmannafjölda á síðustu árum.
    Á síðasta kjörtímabili var samið frv. til nýrra stjórnarráðslaga og var um það fjallað í nokkrum útgáfum sem allar gerðu þó ráð fyrir sameiningu iðnaðar- og viðskrn. Var, að því ég hygg, almenn samstaða um þann þátt tillagnanna. Því þótti rétt, þegar fyrrv. ráðuneytisstjóri iðnrn. fékk lausn og fór á eftirlaun haustið 1990, að skipa ekki í stöðu hans með æviráðningu en skipaður ráðuneytisstjóri í viðskrn. var samhliða starfi sínu settur ráðuneytisstjóri í iðnrn. og hefur sú skipan haldist síðan. Samanlagður starfsmannafjöldi ráðuneytanna er nú 25 manns og húsnæði ráðuneytanna er samliggjandi. Unnið hefur verið að skipulagstillögum fyrir sameinað ráðuneyti og þykir það starf hafa staðfest að augljóst hagræði er af sameiningunni þar sem aðstaða, búnaður og starfsmenn nýtast betur við lausn þeirra verkefna sem bæði ráðuneytin fara með. Þannig verður yfirstjórn, fjármálastjórn, símaþjónusta, ritarastörf, skjalavarsla og fleiri verkefni sameinuð og sérfræðingar fá fjölbreyttari verkefni sem nú eru á verksviði beggja ráðuneytanna.
    Þess skal að lokum getið að sú sameining ráðuneyta sem hér er lögð til er í samræmi við þróun í nágrannaríkjunum, bæði á Norðurlöndum og Bretlandi og víðar, en í þessum ríkjum hefur þegar átt sér stað sameining iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að frv. þetta verði að lögum á þessu ári þannig að sameinað ráðuneyti taki til starfa þegar í upphafi næsta árs. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.