Verndun Stýrimannaskólans

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:35:00 (1587)

     Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Mig langar til að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh. um verndun Stýrimannaskólans við Öldugötu í Reykjavík:
    ,,Hyggst menntmrh. beita sér fyrir að húsfriðunarnefnd hafi á forgangslista við sjóðsúthlutun á næsta ári viðgerð og verndun gamla Stýrimannaskólans við Öldugötu?``
    Ástæður þess að ég spyr eru eftirfarandi: Stýrimannaskólinn í Reykjavík er 100 ára á þessu ári. Árið 1898 var reist hús yfir skólann sem stendur á Landakotshæð. Húsið bar hátt yfir byggingar við Hlíðarhúsastíg, nú Vesturgötu, og höfnina og var lengi eitt af helstu einkennum Reykjavíkur. Stígur myndaðist upp að skólanum, Stýrimannastígurinn. Við hann og í nálægum götum, sem allar báru heiti tengd sjónum, voru síðan reist hús sem mörg hver hýstu sjómannafjölskyldur.
    Þetta hverfi er nú friðlýst og er eitt vinsælasta skoðunarsvæði ferðamanna sem sýnishorn af byggingarlist aldamótaáranna.
    Stýrimannaskólahúsið var nýtt sem slíkt þar til 1945 en eftir það var annað skólahald í húsinu, þ.e. Gagnfræðaskóli Vesturbæjar og Vesturbæjarskóli. Nú er þar engin starfsemi og húsið er allt í hinni mestu niðurníðslu. Varla má bíða lengur með endurgerð hússins ef það á að standa.
    Byggingin hefur menningarsögulegt gildi. Hún er minnisvarði sjómannastéttarinnar í Reykjavík og reyndar stéttarinnar allrar. Minnisvarði undirstöðuatvinnulífs Reykjavíkur um langan aldur og á því skilið viðeigandi viðhald og virðingu. Mér þykir rétt að benda á þetta á aldarafmæli Stýrimannaskólans og hvetja til að viðgerð á þessu gamla skólahúsi verði hafin hið fyrsta og því gefið viðeigandi hlutverk.